Dómar í kynferðisafbrotamálum

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:48:35 (1263)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Eins og hv. þm. minntist á samþykkti Alþingi á sl. vori ný lagaákvæði að því er varðar kynferðisafbrot þar sem kveðið var á um strangari meðferð þessara mála. Í sjálfu sér eigum við eftir að fá reynslu af því hvernig þessi breyting á hegningarlögunum kemur til með að hafa áhrif á íslenska dóma. Það er of skammt um liðið frá því að þessar nýju lagareglur voru settar til þess að unnt sé að gera einhverja almenna grein fyrir því hvaða áhrif þær hafa haft.
    Ég vil svo minna á vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu að ákvörðun hefur ekki verið tekin um hvort því tiltekna máli sem hér hefur verið helst til umræðu verður áfrýjað til Hæstaréttar svo að mér sé kunnugt um, en á endanum er það Hæstiréttur sem sker úr í þessu efni verði málum vísað þangað. Þar fæst fyrst hin endanlega niðurstaða komi til áfrýjunar. Þegar eðlilegur tími er liðinn frá því að hinar nýju lagareglur voru settar er eðlilegt að menn geri athugun á því hvaða áhrif þær hafa haft á framkvæmd þessara mála og niðurstöður mála fyrir dómstólum.