Mál Sophiu Hansen og áhrif EES-samnings á byggðaþróun

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:57:43 (1273)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vek athygli á því að hvað mat hans á áhrifum samningsins á byggðaþróun hér á landi varðar þá er forsrh. að upplýsa að engin úttekt hafi verið gerð á áhrifum samningsins á byggðaþróun innan lands önnur en sú sem fyrir liggur af hálfu Byggðastofnunar og er dagsett í mars 1991. Ráðherrann er að lýsa sig algerlega ósammála niðurstöðu Byggðastofnunar. Forsrh., yfirmaður Byggðastofnunar og byggðamála hér á landi, er að lýsa sig algerlega ósammála þeim niðurstöðum sem Byggðastofnun hefur komist að. Það kalla ég tíðindi, virðulegur forseti, þegar það er annars vegar upplýst að ekkert hefur verið athugað í sambandi við þessi mál af hálfu hæstv. forsrh. og í öðru lagi vísar ráðherrann því í raun og veru á bug sem sú stofnun hefur gert í þessum efnum sem til þessa hefur verið falið það verkefni að skoða þessi mál. Mér finnst að hæstv. ráðherra hefði gjarnan mátt láta þessi mál til sín taka fyrr en komið hefur fram.