Mál Sophiu Hansen og áhrif EES-samnings á byggðaþróun

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:59:35 (1275)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Mér heyrist hæstv. ráðherra snúa hlutunum við. Hann hefur ekki getað hrakið niðurstöður Byggðastofnunar. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að ef landsbyggðin eigi að halda velli sem samfelld byggð um landið allt verði núverandi stjórnvöld að líkja eftir skilyrðum samkeppnisatvinnugreinarinnar erlendis. Hvað eru menn að gera í sjávarútvegi í Evrópu? Þeir eru að styrkja sjávarútveginn um milljarðatugi á hverju ári. Það er áætlað að styrkur til sjávarútvegs í EB-löndunum á síðasta ári hafi numið 64,5 milljörðum króna. Ef íslenskur sjávarútvegur hefði átt að vera samkeppnisfær, njóta sambærilegra skilyrða, hefði hann þurft að fá 16,5 milljarða kr. í styrk á síðasta ári. Það er alveg augljóst mál að þær niðurstöður og staðreyndir sem hér eru dregnar fram staðfesta það að samningurinn skapar íslenskum sjávarútvegi ójöfn samkeppnisskilyrði á við sjávarútveg í Evrópu. Það hefur hæstv. ráðherra ekki tekist að hrekja.