Endurskoðun laga um fæðingarorlof o.fl.

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 14:04:25 (1280)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í greinargerð með fjárlagafrv. segir í kaflanum um heilbrigðismál, með leyfi forseta. ,,Áformað er að lækka útgjöld lífeyristrygginga um 580 millj. kr. með sérstökum aðgerðum. Stefnt er að því að eignatengja lífeyrisgreiðslur, enda nái fram að ganga áform um fjármagnseignarskatt. Þá verða lög um fæðingarorlof, mæðra- og feðralaun, svo og um ýmsar félagslegar sérbætur lífeyristrygginga einnig endurskoðuð.``
    Ég spyr því hæstv. heilbrrh.: Hvaða markmiði á sú endurskoðun að þjóna? Á að lækka greiðslur vegna fæðingarorlofs og feðra- og mæðralauna eða á með þessari endurskoðun að bæta hag foreldra ungra barna?