Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 14:19:17 (1284)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð um liðið síðan mælt var fyrir þessu máli en að beiðni okkar stjórnarandstöðuþingmanna var umræðu frestað á sínum tíma en nú er stundin runnin upp. Að mínum dómi er hér um nokkuð stórt mál að ræða ef grannt er skoðað því að hér er á ferð eitt þeirra frumvarpa sem getur haft veruleg áhrif á íslenskt atvinnulíf. Þær spurningar hljóta að vakna hvernig þeir sem þetta mál snertir eru undir þessar breytingar búnir. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að rifja upp fyrir þingheimi út á hvað þetta mál gengur þar sem svo langt er liðið síðan hæstv. ráðherra mælti fyrir því. Í stuttu máli sagt gengur frv. út á það að með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði ber opinberum aðilum skylda til þess að bjóða út framkvæmdir á sínum vegum svo og innkaup á vegum opinberra aðila. Það eru ýmis atriði í frv. sem vekja spurningar. Ég vil því beina nokkrum spurningum til hæstv. fjmrh.
    Þá er fyrsta spurningin sú hvort menn í fjmrn. hafi reynt að gera sér einhverja grein fyrir því hvaða áhrif þessar breytingar kunni að hafa á íslenska verktakastarfsemi. Nú bárust fréttir af því nýlega að um miklar fjárfestingar hefur verið að ræða í tækjabúnaði hjá verktökum en jafnframt er mikill samdráttur í framkvæmdum. Sú þróun hefur því átt sér stað að það er verið að bjóða í verk langt undir raunverulegum kostnaði. Það segir okkur þá sögu að staða þeirra verktakafyrirtækja hljóti að versna mjög á þessu ári og væntanlega því næsta ef ekki verður nokkur aukning á framkvæmdum en samdrátturinn í þjóðfélaginu kemur auðvitað niður í þeim eins og öðrum. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvað þetta þýðir fyrir þessi fyrirtæki. Sú spurning vaknar einnig hversu freistandi það er fyrir erlenda verktaka að koma hingað og bjóða í verk. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hversu mörg verk á vegum opinberra aðila hefðu verið útboðsskyld á þessu ári samkvæmt frv.? Hafa menn áttað sig á stærðargráðunni, hvað er þarna um að ræða?
    Ef ég skil frv. rétt verður gangur mála sá að opinberir aðilar undirbúa útboð. Síðan verða þeir að senda auglýsingu til Evrópubandalagsins, auglýsingu sem verður birt á öllu Evrópska efnahagssvæðiinu. Ég vil spyrja ráðherrann hvort það sé rétt skilið hjá mér að það sé nægjanlegt að sú auglýsing sé á einu tungumáli og það sé þá verkefni Evrópubandalagsins og annarra aðila að sjá um að birta auglýsingarnar á viðkomandi tungumálum. Hver ber kostnaðinn af þessum auglýsingum? Það sama gildir auðvitað um innkaupin. Hvað halda menn að þetta sé mikill kostnaður og hver á að bera hann? Leggst hann á framkvæmdakostnað eða hvernig verður að því staðið?
    Varðandi innkaupin hlýtur maður auðvitað að velta því fyrir sér hvaða áhrif þessar reglur kunna að hafa á kaup á íslenskum vörum. Það fylgir hér langur listi yfir þær vörur sem frv. nær yfir. Ég ætla ekki að tíunda þær. En til þess að gera sér grein fyrir áhrifum þessarar greinar frv. vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi upplýsingar um það hversu stór hluti af innkaupum Innkaupastofnunar ríkisins er íslenskar vörur og hver gætu áhrifin hugsanlega orðið. Staðreyndin er sú að opinber fyrirtæki kaupa vörur í stórum stíl á vegum ríkisins. Við getum nefnt þar t.d. hreinlætisvörur fyrir sjúkrahúsin og fleira slíkt sem í sumum tilfellum fer í gegnum Innkaupastofnun ríkisins, öðrum ekki. Hvaða áhrif hefðu breytingarnar sem frv. leggur til? Við getum gefið okkur það að ýmsir stórir erlendir aðilar hefðu hugsanlega tækifæri til þess að undirbjóða eða hreinlega vera með ódýrari framleiðsluvöru en fást hér á landi. Þó að samningurinn kveði á um það hvers konar undirboð og óeðlilegir viðskiptahættir séu óheimilir hafa menn hingað til verið býsna duglegir við að finna leiðir til þess að undirbjóða.
    Það er spurning varðandi þær viðmiðanir sem eru í frv., þ.e. að það þarf ekki að bjóða út verkáfanga sem eru að verðmæti minna en 1 millj. ECU, þó þannig að þeir séu ekki meira en 20% af öllu verkinu og eins það að skylt er að bjóða út öll verk sem kosta meira en 5 millj. ECU. Hvað þýðir þetta? Af hvaða stærðargráðu eru verk sem hér um ræðir? Ég held að ég fari rétt með það að 5 millj. ECU séu um 350 millj. kr. eða hátt í 400 millj. kr. Það er dágóð bygging sem fæst fyrir það. Ég heyrði dæmi um sundlaug hér í borginni sem á kosta 350--400 millj. kr. Erum við að tala um að það þurfi að bjóða út allar íþróttabyggingar? Það liggur ljóst fyrir að það verður að bjóða út allar stærri bygginga á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það gæti átt eftir að koma illa við íslenska verktaka.
    Það er ýmislegt fleira í frv. sem vert er að nefna. Ég var líka að velta því fyrir mér varðandi gang þessara mála hvað þetta þýðir fyrir skipulag útboða. Það þarf að bjóða verkin út á hinu Evrópska efnahagssvæði. Hvað þýðir þetta fyrir undirbúninginn? Gæti þetta orðið til að tefja verkið eða þurfa menn einfaldlega bara að skipuleggja sig betur og vera þá tilbúnir með útboðin með góðum fyrirvara? Við vitum að framkvæmdatími hér á landi er styttri en víðast hvar annars staðar. Það gefur auga leið að fylgjast verður með því að þessum ákvæðum sé framfylgt. Í frv. eru ákvæði sem heimila eftirlitsstofnun EES að fylgjast með framkvæmd þessara laga. Það er eitt af því sem óhjákvæmilega fylgir þessum samningi að menn verða að gera svo vel og sætta sig við það að erlendar sendinefndir komi og fylgist með því hvernig samningnum er framfylgt.
    Þetta eru helstu spurningar sem vöknuðu hjá mér við lestur frv. Við eigum eftir að fara mjög ítarlega yfir þetta mál í efh.- og viðskn. En ég vil að lokum nefna að í þessu frv., eins og flestum þeim sem snerta frv. um hið Evrópska efnahagssvæði, er gert ráð fyrir mjög víðtækum heimildum til ráðherra til að semja reglugerðir. ,,Ráðherra ákveður í reglugerðum,`` segir hér í nokkrum greinum frv. M.a. á hann að ákveða að einstakar tegundir verksamninga séu ekki háðar ákvæðum þessa kafla. Ég vil gjarnan spyrja ráðherrann um skilning hans á því um hvaða verksamninga gæti hér verið að ræða. Það er reyndar vikið að því í greinargerð að það gefur auga leið að vatnsveitur og rafveitur og ýmislegt slíkt er af þeirri stærðargráðu að þær verða óhjákvæmilega boðnar út. En hvað sér hann fyrir sér í þessu? Um hvaða verksamninga gæti hér verið að ræða?
    Að endingu vil ég ítreka það að ég tel að hér sé um mál að ræða sem er eitt dæmi þess hvaða áhrif samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði og fylgifrumvörp hans gætu haft á íslenskt efnahagslíf og íslenska atvinnustarfsemi. Ég dreg mjög í efa, og hef fyrir mér fólk í verktakabransanum, að íslenskir verktakar séu búnir undir erlenda samkeppni og það að hingað komi fyrirtæki og bjóði í verk á móti íslenskum aðilum. En ég vil þó geta þess að auðvitað eru þess dæmi varðandi okkar stórvirkjanir að þar hafa erlendir aðilar komið að og vonandi ekki annað en góð reynsla af því, enda oft um mjög stór verk að ræða sem íslenskir aðilar hafa varla ráðið við eða þeir hafa þá verið í samvinnu við erlenda aðila, en hér er auðvitað um mjög mikla víkkun á heimildum að ræða.