Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 15:15:16 (1294)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við erum auðvitað bæði að horfa til fortíðar og framtíðar í þessum efnum. Nú er ég ekki mjög vel að mér í verðlagi á stórtækum vinnuvélum en ég þykist þó vita að þær séu býsna dýrar hér á landi. Ég heyri að fjmrh. vitnar í sinn sérfræðing í þessum málum og það er vel.
    En mig langaði til að bæta við einu atriði sem fram kom í máli ráðherrans áðan. Það er varðandi það að menn fari að flytja inn erlent vinnuafl. Það er auðvitað rétt að samningurinn gerir ráð fyrir því að sömu laun séu greidd, hvort sem menn eru Íslendingar eða útlendingar. En það vill nú svo til að taxtalaun hér á landi eru afar lág og þegar til kemur munu launagreiðslur til útlendinga væntanlega miðast við taxtalaunin. Það er auðvitað gengið út frá samningum. En ég verð að segja það að miðað við launakjör hér á landi og það sem tíðkast úti í Evrópu, þá held ég að ekki sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þessu efni því að vinnuafl á Íslandi er að verða með því ódýrasta sem finnst í álfunni.