Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 15:16:38 (1295)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað grundvallarmunur á því hvort menn eru í þessum efnum að fara á bak við lög eða nota sér holur í lögum eða gera hluti samkvæmt lögum. Það er nauðsynlegt fyrir Alþingi að gera sér grein fyrir því að það er dálítill munur á því tvennu, hvort menn sveigja fram hjá lagabókstafnum eða hvort menn gera hluti samkvæmt lögum. Alþingi verður að vita hver er munurinn á lögum og ekki lögum, að ég segi nú ekki ólögum.
    Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir það og ég skil hans orð svo að hann hafi opnað fyrir það að þessar málsgreinar sem ég vitnaði til varðandi ritskoðunina verði endurskoðaðar. Það stendur hér: ,,Jafnframt er óheimilt að birta í innlendum fjölmiðlum aðrar upplýsingar um innkaupin en þær sem koma fram í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.`` Hér er um að ræða altækt bann við því að birta aðrar upplýsingar í innlendum fjölmiðlum en þær sem standa í auglýsingunum og ég segi: Þetta stríðir auðvitað gegn stjórnarskránni um prentfrelsi, ritfrelsi og skoðanafrelsi og hefur ekkert með það mál að gera hvort menn vilja mismuna verktökum eða ekki. Málið er ósköp einfaldlega þannig að eins og þetta stendur hér, þá er verið að banna mönnum að birta þær upplýsingar sem þeir vilja um starfsemi þessara verktaka og tilboð.
    Mér þætti fróðlegt að vita hvernig fjmrn. ætlaði sér, eins og ég sagði hér fyrr í dag, að framkvæma það ritskoðunarákvæði sem hér er á ferðinni. Ég tel hins vegar mikilvægt og prófsteinn á meðferð málsins í heild hvort þingið fær að laga þessi ósköp því að hér er bersýnilega um að ræða hlut sem getur ekki staðist. Það er ekki hægt að banna mönnum að skrifa það sem þeim sýnist á Íslandi. Það er óheimilt samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.