Málefni aldraðra

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 14:09:04 (1302)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum áratugum hefur orðið mikil breyting á högum aldraðra hérlendis sem erlendis, að sjálfsögðu. Segja má að þær breytingar hafi verið bæði jákvæðar og neikvæðar. Lífaldur hefur hækkað. Aldraðir eru yfirleitt heilbrigðari en áður gerðist. Félagsleg tilboð til aldraðra eru fjölmörg. Þannig má segja að lífsgæði hafi aukist til muna meðal aldraðra. Á hinn bóginn hefur kjarnafjölskyldan minnkað, þriggja kynslóða heimili eru orðin ærið fá og samband milli kynslóða hefur þannig minnkað. Vegna þessara breytinga hefur þörf fyrir sérhæfða þjónustu samfélagsins við aldraða vaxið gífurlega. Má nánast segja að viðhorf fjölmargra til aðbúnaðar aldraðra sé þannig að samfélagið eigi að axla ábyrgðina í stað fjölskyldnanna áður.
    Með lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra var mjög bætt úr brýnni fjárþörf til uppbyggingar hjúkrunar- og dvalarheimila og íbúða fyrir aldraða. Uppbygging á þessu sviði hefur verið mjög hröð enda hefur þessi aldurshópur vaxið hratt. Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu stöndum við nú nánast jafnfætis öðrum Norðurlöndum í þessu efni ef skoðað er samanlegt framboð rýmis á öllum stofnunum í landinu fyrir aldraða. Hins vegar virðist sem framboð á hjúkrunarrúmum sé minna en á Norðurlöndum og er brýn þörf á að bæta þar úr.
    Segja má að uppbygging á landsbyggðinni sé orðin nánast fullnægjandi. Hins vegar hefur enn ekki tekist að ná fullnægjandi uppbyggingu á Reykjavíkursvæðinu og munar þar mest um hjúkrunarrými. Það er talið að rúmlega 140 rúm skorti nú í Reykjavík einni til að hjúkrunarþörf verði fullnægt og þar af er mjög brýn þörf fyrir 110 rúm um þessar mundir.
    Sem dæmi um aðstöðumun milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar má nefna að í samantekt sem unnin var af heilbr.- og trmrn. snemma á þessu ári og birtist í Morgunblaðinu 29. febr. sl. má sjá að á Norðurlandi vestra eru tæp 17 hjúkrunarrými fyrir hverja 100 íbúa 70 ára og eldri en fyrir Reykjavíkurhérað eru einungis um 8 rými fyrir hverja 100 íbúa 70 ára og eldri.
    Þróun þjónustu við aldraða hefur einnig verið hröð. Fyrir nokkrum áratugum var áherslan fyrst og

fremst lögð á elli- og hjúkrunarheimili enda má segja að þörfin á þeim tíma hafi verið brýnust þar. Kröfur fólks til lífsgæða hafa hins vegar breyst á þessum tíma og hafa aldraðir lagt æ meiri áherslu á að halda sjálfstæði sínu og einnig að fá að njóta ævikvöldsins á heimili sínu eins lengi og kostur er. Reynslan hefur einnig sýnt að með góðri aðstoð og hjúkrun heldur fólk betur heilsu sinni í því umhverfi, auk þess sem slíkt dregur úr dýrri uppbyggingu stofnana. Heimahjúkrun og þjónusta við aldraða er því talin ódýr og heppileg lausn, bæði fyrir einstaklingana og samfélagið. Ef við berum okkur saman við önnur Norðurlönd þá skortir enn verulega á að við stöndum þeim jafnfætis í þessum efnum.
    Þessi skortur á heimahjúkrun og heimilishjálp hefur leitt til óöryggis aldraðra og aðstandenda þeirra sem þá þrýsta enn frekar á uppbyggingu stofnana og annarrar aðstöðu. Það hefur sýnt sig að þar sem framboð á heimilisaðstoð er nægilegt minnkar hin eiginlega þörf fyrir uppbyggingu stofnana. Það að vita af því að jafnframt góðri heimilisaðstoð standi þjónusta stofnana ávallt til boða, ef ástand hins aldraða er orðið alvarlegt, tímabundið eða til frambúðar, eykur öryggiskennd og minnkar eftirspurn eftir varanlegri vist á stofnunum. Því tel ég rétt að fjármunum til þjónustu við aldraða verði í ríkari mæli beint í heimahjúkrun og heimahjálp en hingað til hefur verið.
    Eins og ég gat um að framan er ástandið í uppbyggingu þjónustu við aldraða einna lélegast hér á Reykjavíkursvæðinu. Þetta ætti ekki að koma á óvart því hér búa tiltölulega margir aldraðir einstaklingar eins og minnst var á áðan, m.a. einstaklingar sem hafa alið allan aldur sinn í dreifbýlinu en sækja í þéttbýlið til að geta dvalið nær brottfluttum ástvinum sínum á svæðinu. En þrátt fyrir flutning úr dreifbýli í þéttbýli er það staðreynd að flestir aldraðir búa ekki hjá fjölskyldum sínum heldur ýmist á eigin heimili eða heimilum eða stofnunum á vegum hins opinbera eða frjálsra samtaka. Það er því enn talsvert langt í land með uppbyggingu á dvalarheimilum eða þjónustuhúsnæði fyrir aldraða á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég vil þá sérstaklega nefna Reykjavík.
    Ég vil einnig geta byggingar heimila eða íbúða fyrir þá sem eru rólfærir en geta ekki búið einir og heimila sem mæta nútímakröfum aldraðra um aðbúnað.
    Samkvæmt tölum frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar bíða yfir 170 manns eftir þjónustuíbúðum, þar af a.m.k. 80 manns sem geta alls ekki beðið og aðrir 50 sem eru í verulegum vandræðum.
    Þær heildartölur sem ég hef nefnt og gefnar hafa verið af Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar eru vart of áætlaðar enda einungis unnar eftir fyrirliggjandi umsóknum sem þegar hafa verið metnar og enn hafa ekki allar umsóknir verið metnar.
    Einnig er rétt að geta þess, eins og hér kom fram áðan, að öldrunarlæknar í Reykjavík telja að fjöldi hjúkrunarrýma í Reykjavík sé ofmetinn af heilbrrn., þ.e. að fjöldi hjúkrunarrúma þar sem aldraðir dvelja til langframa sé mun minni en upp er gefið. Rétt er einnig að benda á könnun á högum aldraðra í Reykjavík frá 1987 þar sem talið var að um 260 hjúkrunarrými vanti í Reykjavík til að fullnægja þörf. Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar telur að þessi fjöldi fari nokkuð nærri því sem álykta má út frá umsóknum hjá stofnuninni. Þrátt fyrir þessar tölur má telja að þörfin sé einna brýnust fyrir hjúkrunarrými. Það er forsenda þess að aldraðir eigi þá tryggingu vísa að þegar heilsan verður svo þorrin að nauðsyn er á sólarhringshjúkrun og þar með vistun, komist þeir strax að og þurfi ekki að bíða vikum og mánuðum saman.
    Frv. það sem við ræðum nú um breytingu á lögum um aldraða tekur mið af fjárskorti til heimilishjúkrunar og heimilishjálpar og er það vel að skilningur sé á því ástandi. Hins vegar má telja það áhorfsmál hvort opna eigi svo víðtæka heimild til ráðstöfunar Framkvæmdasjóðs aldraðra til reksturs og hvergi verði skilyrt um framlög til þeirra brýnu verkefna sem m.a. bíða við uppbyggingu hjúkrunarrýmis og þjónustuhúsnæðis á Reykjavíkursvæðinu.
    Ég legg því til að heilbr.- og trn. taki þann þátt til ítarlegrar skoðunar við umfjöllun frv. í nefndinni.