Málefni aldraðra

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 14:54:36 (1306)

     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Eins og fram kemur hér í greinargerð með frv. hefur Framkvæmdasjóður aldraðra verið við lýði í rúman áratug. Hér á Alþingi hafa verið mjög skiptar skoðanir um það hvort taka eigi upp nefskatt til tiltekinna verkefna eða að fá framlög í fjárlögum til þeirra. Ég minnist þess að þegar hugmyndin kom fram um Framkvæmdasjóð aldraðra var mikil andstaða við að taka upp slíkan nefskatt. Menn sögðu þá: Það á ekki að leggja á nefskatt, hvorki í þessu tilfelli né fjölmörgum öðrum. Við eigum að taka þetta úr sameiginlegum sjóði og það á að verja til þess tekjum sem ríkið aflar samkvæmt heimildum og lögum í fjárlögum hverju sinni.
    Mér fannst eðlilegt þegar þetta kom upp, þó ég væri þá í stjórnarandstöðu, að standa með því að stofna slíkan framkvæmdasjóð til að greiða fyrir byggingum aldraðra í landinu. Þrátt fyrir mikla andstöðu í mínum flokki tók ég þessa afstöðu vegna þess að ég sagði: Það er engin trygging fyrir því að þessi málaflokkur fái það fjármagn sem hann þarf að lágmarki á næstu árum. Þess vegna held ég að þetta sé skattur sem verður ekki óvinsæll hjá þeim sem eiga að greiða hann þegar þeir vita í hvað á að nota þessa fjármuni. Ég held að þetta hafi komið greinilega í ljós strax. Ég hef ekki orðið var við að fólk hafi verið á móti skatti í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég hef heyrt menn segja að ástandið sé slæmt hér á höfuðborgarsvæðinu og ekki ætla ég að gera lítið úr því, síður en svo. Auðvitað er fólkið flest hér. En heimaþjónusta er ekki til á sumum stöðum á landinu. Og þó hún sé léleg á höfuðborgarsvæðinu er hún auðvitað miklu fullkomnari en þar sem hún er ekki til. Það gefur auga leið.
    Ég er þeirrar skoðunar að á meðan þörf er fyrir þennan skatt til að byggja upp dvalarheimili fyrir aldraða eigi að nota hann. Ég held að hæstv. heilbr.- og trmrh. þurfi að gera grein fyrir því hvar er verið að byggja fyrir þessa starfsemi. Hvað er álitið að þurfi mikla fjármuni til þess að koma henni upp þar sem er brýn þörf fyrir hana? Hvað kostar hún? Hefur samfélagið ráð á að hætta við? Og í sambandi við það sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, sem var uppfinningamaður að því að seilast í Framkvæmdasjóð aldraðra á árinu 1991, þótt hann segi að það hafi ekki verið nema lítið eitt miðað við það sem sá sem núna er í sama stól ætlar sér að gera, þá verða menn alltaf að muna að sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Það er satt best að segja svo að þegar búið er að ákveða ákveðinn skattstofn af ákveðnu tilefni þá fer það æði oft þannig hjá okkur á Alþingi að þótt það eigi að vera takmarkaðan tíma heldur það áfram. Hver man ekki eftir skattinum ,,tímabundið vörugjald``? Og skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði? Þetta átti bara að vera stundarfyrirbæri. Og ég man ekki betur, það var löngu áður en ég kom á þing, að söluskatturinn var 3% og átti að vera í eitt ár. En hvernig hefur skepnunni til tekist? Að vísu er hann horfinn og nú heitir hann virðisaukaskattur. Það er gefið mál að þegar byrjað er að leggja einhvern skatt á er því haldið áfram og alltaf bætt við þrátt fyrir digrar yfirýsingar um að nú skuli hætta og brjóta blað og lækka skattana. Ég gef lítið fyrir það.
    Fjmrn. sendir með þessu umsögn. Hún er afskaplega stutt og skilmerkileg og ákveðin eins og við var að búast úr þeirri átt. Þar segir: ,,Hér er um rýmkun á gildandi lögum að ræða. Takmörk á fé sem hægt er að veita til reksturs eru afnumin og lögin gerð afdráttarlausari.``
    Ég held að lögin í dag séu alveg afdráttarlaus, að þetta eigi allt að fara til framkvæmda. En það fer eftir því hverjum augum hver lítur á silfrið hvort er afdráttarlausara, þetta eða hitt. Mér finnst að lögin eins og þau eru séu afdráttarlaus þrátt fyrir það sem gerðist árið 1991.
    Ég held að það sé líka ástæða til að koma inn á það sem hv. 14. þm. Reykv. minntist á. Í raun og veru hafa málefni aldraðra verið afskaplega stefnulítil og erfitt að mynda um þau ákveðna stefnu. Annað árið byggist allt á því að koma þessum sem eru orðnir 67 ára eða eldri, það eru svona nokkrir sérvitringar sem brjótast út og neita þessu, inn á hæli og helst að loka þá inni kl. átta á kvöldin og hleypa þeim aðeins út kl. átta til níu á morgnanna í hálftíma eða klukkutíma. Hitt árið er söðlað um og þá á helst að loka því öllu og þá eiga allir að vera heima hjá sér. Það eru ákaflega stór stökk sem gerast í þessum efnum.
    Ég held að löggjafarsamkoman verði að gera sér grein fyrir því að mannsævin er að lengjast og það verða sífellt fleiri og fleiri sem ná hinum svokallaða eftirlaunaaldri sem er raunar ekki lengur til nema fyrir þá sem ekkert eiga. Hann hefur verið 67 ár. Þá eru margir farnir að hugsa: Þegar ég verð 67 ára má ég ekkert vinna. Þá hefur samfélagið sagt: Nú ert þú orðinn aumingi og verður að hætta að vinna og þú verður að ráða því hvort þú ætlar að hírast í gömlu íbúðinni þinni eða hvort þú ferð inn á eitthvert hæli þar sem þú ert lokaður inni. Það er þessi grundvallarbreyting sem þingmenn þjóðarinnar verða að fara að huga að. Mannsævin lengist, það verða fleiri 67 ára og eldri en áður var. Það þótti í frásögu færandi ef maður náði hundrað ára aldri. Nú er bara farið að hafa heil kaffisamsæti fyrir hundrað ára og eldri hér í sjálfri Reykjavíkurborg. Það var ekki stór hópur sem náði áttatíu og fimm eða níutíu ára aldri en þeim sem ná þeim aldri fer ört fjölgandi. Það á auðvitað að nota vinnuaflið þegar það er hægt. Það á að hvetja hvern og einn til að halda störfum áfram en leggja ekki árar í bát og krefjast þess að samfélagið haldi honum uppi á öllum sviðum. Það eru nógu margir sem þurfa á því að halda heilsunnar vegna þó ekki sé verið að boða þeim, sem ekki þurfa þess, aumingjaskapinn. Það er því miður það sem hefur verið gert allt of mikið af.

    Nú sný ég mér, hæstv. heilbrrh., að þessu stutta og kjarnyrta frv. ráðherrans. Ég get engan veginn sætt mig við að fortakslaust sé fallið frá þessum skatti sem hefur verið lagður á okkur persónulega og það sé hægt að fara með hann yfir í rekstur, alveg umsvifalaust. En ég vil ekki vera svo ósanngjarn að núv. hæstv. heilbrrh. og núv. hæstv. ríkisstjórn fái ekki líka einhvern skerf af því þegar skrúfað var frá krananum 1991. Það verður að meta það og vega og ég er alveg sammála því að þá á heimaþjónustan fyrst og fremst að ganga fyrir. Ég ætla ekki á þessari stundu að segja hversu hátt hlutfall það á að vera. En ég trúi ekki öðru en því að hæstv. heilbrrh. viðurkenni að þetta má ekki ganga svona langt, þá höfum við, allir þeir þingmenn sem stóðu að stofnun Framkvæmdasjóðs aldraðra og þeir þingmenn sem hafa staðið að þessu síðan, í raun og veru ekkert verið að meina með þessu. Við höfum haft það á tilfinningunni undir niðri að það mætti eiginlega hvenær sem er, þegar mönnum væri mál, nota féð í öðrum tilgangi. Þetta er minn fyrirvari við frv.
    Ég segi aftur að lokum: Ég held að það væri þess virði að móta heilsteypta stefnu í málefnum aldraðra, stefnu sem miðar að því að pakka mönnum ekki inn á hæli eða heimili heldur gera þeim kleift að vinna á meðan þeir geta unnið og hafa heilsu til. Nóg eru þyngslin hjá þeim sem eru svo óhamingjusamir að missa heilsuna á besta aldri eða á undan svo mörgum öðrum.