Málefni aldraðra

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 15:36:00 (1310)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Getur hv. 1. þm. Norðurl. v. lánað mér heilbrrh. smá stund? Hæstv. heilbrrh. sagði það sem sýnir hve hann er snjall og sýnir hve við höfum oft staðið frammi fyrir merkilegum fullyrðingum frá ráðherranum en hann sagði: Það verður ekki allt sett í rekstur, nei, en það verða ekki fyrirmæli í lögum um það hvar mörkin eiga að vera. Með öðrum orðum er á næsta ári gert ráð fyrir því að sjóðurinn hafi að ég held 425 millj. kr. og samkvæmt lögunum, ef þetta yrði samþykkt, væri hægt að setja 424 millj. kr. í rekstur, já. En það færi þá ekki allt í rekstur, það færi 1 millj. kr. í stofnkostnað. Honum tekst oft svo snilldarlega, þessum ráðherra, að setja hlutina fram þannig að þingmenn átta sig ekkert á því hvað er á ferðinni. En niðurstaðan er auðvitað sú, og það er kjarni málsins, að hæstv. heilbrrh. er að gera tillögu um að gera Framkvæmdasjóð aldraðra upptækan í ríkissjóð. Hann getur ekki leynt því.