Málefni aldraðra

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 15:38:33 (1314)

     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt sem fram kom hér hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. áðan að ég ritaði bréf til sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins til þess að heimila að hluta af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs aldraðra mætti verja til reksturs stofnana. Það var tæplega 1 / 3 hluti af ráðstöfunarfé sjóðsins þá. Ef ég man töluna rétt mun 1 / 3 hluti hafa verið um 130 millj. kr. Þetta voru 107 millj. kr. sem áttu að renna til sjúkratryggingadeildarinnar og eins og menn vita er það hún sem greiðir reksturinn með daggjöldum fyrir þessar stofnanir. Nú upplýsir hæstv. ráðherra að samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar hafi ekki líkt því öllum þessum fjármunum verið varið til reksturs nýrra stofnana. Um það skal ég ekki deila við hann. Ég hef ekki séð þær tölur. Það kemur mér hins vegar mjög á óvart vegna þess að það voru fjölmargar stofnanir þar sem breytt var um rekstrarform, breytt úr dvalarheimili í hjúkrunarrými sem ég hafði heimilað eða tekið ákvörðun um og þýðir aukin rekstrarútgjöld fyrir þessar stofnanir. Ég nefndi það áðan að það kynni að vera að eitthvað af fjármunum hefði farið til reksturs öldrunarstofnana. Það væri miður ef svo hefði farið en ég trúi því vart að það geti verið svo mikið sem ber á milli eins og hér er nefnt.