Kristnesspítali

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 15:44:10 (1321)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár er sú að á miðju sumri fóru að berast fréttir norður yfir heiðar um það að í heilbrrn. væri verið að skoða lokun Kristnesspítala. Ég hef síðan ásamt öðrum þingmönnum kjördæmisins reynt með viðtölum við ráðherra að vinna málinu framgang, að tekið verði á þessu á annan hátt. Það gerist svo í síðustu viku að í Ríkisútvarpinu 8. okt. kemur fram í viðtali að Sighvatur Björgvinsson, hæstv. heilbrrh., segir, með leyfi forseta: ,,Það er til athugunar að breyta miklu í sambandi við rekstur Kristnesspítala. Það hefur verið skipuð sérstök nefnd til þess að skoða þau mál. Í þeirri nefnd eiga sæti fyrir utan fulltrúa úr heilbrrn. og fjmrn. norðanmenn, fulltrúar bæði Akureyrarbæjar og Eyjafjarðarsveitar og fulltrúar Ríkisspítala.`` Fréttamaður spyr: ,,Verður stofnunin lögð niður í núverandi mynd?`` Og hæstv. heilbrrh. svarar að bragði: ,,Það gæti svo farið, já.``
    Ég hef síðan fengið staðfest að í forsendum fjárlagafrv. er reiknað með 40 millj. kr. niðurskurði til rekstrar Kristnesspítala. Þetta er þriðjungur af rekstrarfénu og er sama og að ákveða að hætta rekstri í núverandi mynd. Nefndin, sem hæstv. ráðherra sagði að hefði verið skipuð, kom saman í fyrsta skipti á mánudaginn var. Hún fékk ekki skipunarbréf. Drög að skipunarbréfi voru lesin fyrir nefndarmenn á staðnum og nefndarmönnum var ætlað að fara með það starf sem fram færi í nefndinni nánast eins og hernaðarleyndarmál. Ekki var einu sinni heimilt að ræða það við umbjóðendur okkar.
    Forstöðumaður stofnunarinnar hafði ekkert heyrt um það hvaða fyrirætlanir eru þarna uppi fyrr en hann fór í gær og sat fyrir formanni viðkomandi nefndar uppi í heilbrrn. Ég vil leggja áherslu á að hér er um að ræða stórbyggðapólitískt mál. Þarna hefur á undanförnum árum verið byggð upp eina endurhæfingarstöðin utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta stangast því algerlega á yfirlýsingar utan ríkisstjórnarinnar um flutning ríkisstofnana út á land. Hér er verið að vinna eftir öfugum formerkjum. Ég nefni í því sambandi að á sama tíma eru uppi hugmyndir um að byggja upp endurhæfingarstöð við Kópavogshæli.
    Í forsendum fjárlaga er einnig sagt að í tengslum við kjarasamninga hafi verið fallið frá lokun öldrunardeilda og samkvæmt því er Hátún opnað á ný á höfuðborgarsvæðinu. Það stendur líka í forsendum fjárlagafrv. að kostnaðinn af þessu eigi að taka af rekstrarfé Kristnesspítala. Ástandið er orðið óþolandi fyrir starfsfólk og sjúklinga stofnunarinnar. Það líkist miklu meira skipulagðri niðurrifsstarfsemi en að menn séu að reyna að ná fram sparnaði. Það eru allir aðilar málsins fyrir norðan tilbúnir til að skoða raunverulegan sparnað en það er langtímamarkmið og menn ættu þá að vera að vinna núna vegna fjárlaga fyrir árið 1994 en ekki 1993.
    Heilbrigðisþjónustan við Eyjafjörð hefur sýnt að hún getur tekið á slíkum málum. Ég nefni þar að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri var komið af stað með virkan sparnað löngu áður en hæstv. núv. heilbrrh. kom til valda og heimamenn eru tilbúnir til að skoða þetta mál allt í samhengi. Ég vil því, virðulegur forseti, krefjast þess að hæstv. ráðherra upplýsi hvað felst í skipunarbréfi þeirrar nefndar sem á að fjalla um framtíð Kristnesspítala og nefndarmönnum hefur ekki verið birt enn þá.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann heimilað uppbyggingu endurhæfingardeildar á Kópavogshæli, í húsnæði hælisins?
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum benda á að þegar ákvörðun var tekin um að byggja upp endurhæfingardeild á Kristnesspítala var Friðrik Sophusson, núv. hæstv. fjmrh., formaður stjórnar Ríkisspítalanna. Ég bendi einnig á að þetta mál naut seinna stuðnings þáv. formanns fjvn. Alþingis, Sighvats Björgvinssonar, núv. hæstv. heilbrh. Það er eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri hefur verið að gera í þessu máli.