Kristnesspítali

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 16:11:16 (1329)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get ómögulega tekið undir það með hv. 7. þm. Norðurl. e. að það sé fagnaðarefni að þessi nefnd, sem nú hefur verið skipuð, hafi yfirleitt verið sett á laggirnar. Samkvæmt skipunarbréfi, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, er hennar hlutverk nánast það að leggja spítalann niður. Það má ekki gerast.
    Það að þessi stofnun heyrir undir stjórnarnefnd Ríkisspítalanna er vissulega mál sem þarf að skoða og er ekki gott mál en það er þessu óskylt. Það er algjörlega því óskylt hvort spítalinn verður lagður niður eða ekki. Það vil ég að komi fram.
    Það sem skiptir máli, hæstv. ráðherra, er að þarna verði ekki anað að neinu. Þetta er mjög mikið og stórt mál, hagsmunamál fyrir norðlenskar byggðir, fyrir Eyjafjarðarsveit og Eyjafjarðarsvæðið, ekki síst þegar litið er til byggðastefnu. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra muni láta það gerast að þessi spítali verði lagður niður og starfsemin flutt suður. Það er ekki í nokkru samræmi við það sem er verið að vinna að í nefnd sem hæstv. forsrh. skipaði og hefur það hlutverk að flytja starfsemi og stofnanir frá Reykjavíkursvæðinu til landsbyggðarinnar. Ég trúi því ekki að af þessu verði.