Kristnesspítali

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 16:16:00 (1331)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Vissulega er verið að vinna að því að marka stefnu í málefnum sjúkrahúsa á Íslandi. Einn þáttur í því var sú ákvörðun sem tekin var við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs að leggja niður bráðaþjónustu á Landakotsspítala og flytja hana til hinna spítalanna og gera ráð fyrir því að Landakotsspítali starfaði eftirleiðis sem ,,elektíft`` sjúkrahús. Þessi ákvörðun hefur tekist vel vegna þess að niðurstaðan er sú að í sjúkrahússrekstrinum í Reykjavík hafa sparast mörg hundruð millj. kr. eins og gerð verður grein fyrir síðar og enginn getur í efa dregið.

    Í öðru lagi hefur líka tekist vel til að því leytinu að allir þessir spítalar, þar á meðal Landakotsspítali, hafa aukið mjög verulega aðgerðir sínar frá því í fyrra. Það hefur því verið hægt að auka fjölda aðgerða og ná áhrifum til kostnaðarlækkunar upp á mörg hundruð millj. kr. í þessum rekstri.
    Ég vil aðeins taka það fram út af þeim umræðum sem hér hafa farið fram að það hefur engin heimild verið gefin til uppbyggingar endurhæfingardeildar á Kópavogshæli. Sú heimild sem hefur verið gefin er að Landspítalanum verði heimilt að nota þá endurhæfingaraðstöðu sem þar hefur þegar verið byggð til að endurhæfa aðra sjúklinga, svo sem sjúklinga eftir bæklunaraðgerðir og fleiri, jafnóðum og núverandi vistmenn á Kópavogshæli verða fluttir í sambýli. Ég veit ekki betur en sú ákvörðun njóti stuðnings allra þeirra aðila sem komið hafa að því máli. Það er öldungis rangt að það sé gert ráð fyrir því að eitthvert fé sem á að skera af Kristnesspítala verði notað til uppbyggingar á endurhæfingaraðstöðu á Kópavogshæli. Það er ekki gert ráð fyrir neinum fjárveitingum til uppbyggingar endurhæfingaraðstöðu á Kópavogshæli.
    Ég vil aðeins í lokin, virðulegi forseti, skýra frá því og ég held það eigi erindi í þessa umræðu, að það er ekki, eins og sagt hefur verið frá, full nýting á Kristnesspítalanum. Það voru 39,1 rúm í nýtingu fyrstu sjö mánuði ársins 1992 og 37,5 rúm á árinu áður, af 58 rúmum. Miðað við þann kostnað sem er á legurúm í öðrum stofnunum og ef tækist að ná kostnaði á legurúm á Kristnesspítala niður undir það sem er á öðrum stofnunum gæti Kristnesspítali hæglega starfað með óbreyttum hætti fyrir það fé sem er á fjárlögum. Svo mikill er munurinn á legukostnaði annars vegar á Kristnesspítala og hins vegar á þeim stofnunum sem menn geta helst borið hann saman við.