Tilsjónarmenn

32. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 10:44:19 (1345)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það verður ekki annað sagt en svar hæstv. fjmrh. komi á óvart eftir þær miklu umræður sem urðu um þetta og þá miklu áherslu sem ráðherrann lagði á að fá þetta ákvæði inn í lögin og sú spurning hlýtur að vakna: Var svo mikill misskilningur á ferð hjá ríkisstjórninni? Reyndist ástand opinberra stofnana miklu betra en þeir héldu? Hvernig túlkar ráðherrann þetta? Er svona mikið að gera hjá ykkur í ráðuneytinu að þið hafið ekki tíma til þess að fylgjast með? Stendur þetta til bóta? Verða sendir fleiri tilsjónarmenn út á næstunni?