Tilsjónarmenn

32. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 10:45:07 (1346)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil rifja það upp að í umræðum sem urðu um þetta mál á sínum tíma kom mjög skýrt fram að ætlunin var ekki að skipa tilsjónarmenn alls staðar heldur að eiga þetta tæki til ef í nauðir ræki. Tilgangurinn var ekki sá að setja tilsjónarmenn sem allra víðast. Og þær góðu fréttir berast nú með þessu svari að það hefur ekki verið þörf á að setja tilsjónarmenn annars staðar.
    Í upphafi árs þegar heimild til skipunar tilsjónarmanna lá fyrir var gerð sú krafa að allar stofnanir skiluðu rekstraráætlunum og kæmi þar fram til hvaða aðhaldsaðgerða væri gripið svo að útgjaldarammi fjárlaga héldi. Það voru haldnir fundir með ráðuneytunum þar sem var farið yfir hvaða stofnanir væru líklegastar til að eiga í erfiðleikum með að ná fram markmiðum fjárlaganna. Eftir að skilafrestur á rekstraráætlunum rann út um mánaðamótin janúar/febrúar stóðu eftir nokkrar stofnanir sem allt útlit var fyrir að þyrftu aðstoðar við. Ráðuneytin fóru í öllum tilfellum þá leið að senda starfsmenn sína til að fara yfir rekstur áðurnefndra stofnana og gera þær breytingar sem nauðsynlegar væru til að reksturinn færi ekki umfram fjárlög. Í einstökum tilvikum var stofnununum boðin ráðgjöf frá utanaðkomandi aðilum og var það boð þegið í stöku tilfella. Því hefur ekki verið talin þörf á að skipa tilsjónarmenn annars staðar en hjá Menningarsjóði.
    Ég vil til viðbótar taka það fram vegna þess að ýmsir í stjórnarandstöðunni spáðu illa fyrir svokölluðum flötum niðurskurði sem það var kallað þegar ákveðið var við fjárlagagerðina, lokahnykkinn, að spara prósentvís hjá stofnununum. Ég vil segja frá því að það hefur tekist og reksturinn er nánast í öllum tilvikum innan þeirra marka sem fjárlög heimila og ég tel að ákvæðið um tilsjónarmenn eigi að sjálfsögðu sinn þátt í því.