Verkefni tilsjónarmanna

32. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 10:47:34 (1347)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. hér áðan ætti ég auðvitð að breyta fsp. og hafa hana í eintölu en ekki fleirtölu en ég ætla nú að lesa hana samt. Ég spyr hæstv. fjmrh.:
    1. Hvaða verkefnum eiga þeir tilsjónarmenn sem skipaðir hafa verið að sinna og hversu langan tíma hafa þeir til þess?
    2. Hvaða árangri hafa störf tilsjónarmanna skilað?
    3. Á hvaða launakjörum eru þeir tilsjónarmenn sem skipaðir hafa verið?
    Nú kom það fram í svari hæstv. fjmrh. hér áðan að það hefur aðeins verið skipaður tilsjónarmaður hjá Menningarsjóði og menntamálaráði og sú spurning hlýtur reyndar að vakna hvort sú skipun sé í samræmi við lögin eins og þau voru samþykkt, en í lögunum segir:
    ,,Starfssvið tilsjónarmanna er að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og gerð fjárhagsáætlana stofnana og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal um umfang starfsmannahalds í samráði við ráðherra eftir því sem nánar er lýst í erindisbréfi hverju sinni.``
    Nú vill svo til að það er verið að leggja Bókaútgáfu Menningarsjóðs niður og í trássi við lög og ég get nú ekki séð að það sem tilsjónarmaðurinn er að gera þar sé í samræmi við tilgang laganna sem var fyrst og fremst sá að sjá til þess að opinberar stofnanir héldu sig innan ramma fjárlaga. Þarna var tilsjónarmanninum hreinlega falið að ganga frá bókhaldi og að sjá til þess ásamt meiri hluta menntamálaráðs að leggja Menningarsjóð niður og það er gert á grundvelli 6. gr. fjárlaga þar sem segir að fjmrh. hafi heimild til að semja um eignir og skuldir Menningarsjóðs. Og eins og fram hefur komið áður hér í umræðum, þá þykir okkur kvennalistakonum afar undarlega að verki staðið og alls ekki í samræmi við lög. En ég vil þá biðja hæstv. fjmrh að skýra það hér út fyrir þingheimi hvað þessi eini tilsjónarmaður hefur verið að gera og hvaða árangri hans störf hafa skilað og ég tala nú ekki um hvað Menningarsjóður þarf að borga honum fyrir verkið.