Verkefni tilsjónarmanna

32. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 10:56:19 (1352)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Menn gerast spaugsamir þykir mér og vissulega er ánægjulegt andrúmsloft í hv. fjárln. þar sem við hv. 3. þm. Vestf. sitjum, en mér sýnist að frv. til fjáraukalaga sem verið var að fara yfir í morgun gefi til kynna að ekki hefði veitt af einhverjum tilsjónarmönnum hér og þar í kerfinu því þar er verið að biðja um 5 milljarða 383 þús. kr. til viðbótar þeirri áætlun sem gerð var í upphafi árs. Tilsjónarmenn hefðu því mátt líta í bókhaldið hér og þar að mínu viti, en ég mun láta sannfærast ef hv. 3. þm. Vestf. getur sannfært mig um að hér hafi verið náð þeim markmiðum sem farið var af stað með.