Jöfnun verðlags

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 11:21:07 (1356)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni að ég þakka flm. fyrir frv. sem hér er endurflutt. Það var flutt í fyrra líka, á síðasta löggjafarþingi. 1. gr. segir í raun og veru allt sem segja þarf um málið, að markmiðið sé að stuðla að því að lífskjör þjóðarinnar verði sem jöfnust óháð búsetu. Ég tek af heilum hug undir þau markmið. Síðan er rætt um helstu atriði þess að jafna lífskjör þjóðarinnar. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í hverja grein en vil taka undir það að mér finnst mikilvægast í þessu vera jöfnun raforkuverðsins. Ég vil benda á að það hefur verið barist undanfarin ár, bæði úti á landsbyggðinni og heima í héruðum á ýmsum samkomum sem þar hafa verið haldnar, meðal sveitarstjórna, meðal frjálsra félagasamtaka og stéttarfélaga, fyrir því að þetta mál fengi betri afgreiðslu innan stjórnkerfisins.
    Þeim sem á landsbyggðinni búa til mikillar ánægju var sú stefna mörkuð í upphafi hjá núv. ríkisstjórn að jafna húshitunarkostnað úti um landið. Í því skyni voru lagðar fram 35 millj. kr. á síðasta vori sem aukaframlag til jöfnunar húshitunar. Það var stefnt að því að næsti áfangi yrði 1. júní sl. Ég spurðist fyrir um þetta í apríl sl. og þá hafði ekkert gerst, ekkert var áformað en því vísað fram í tímann, viðræður væru í gangi við Landsvirkjun og það mundi sýna sig á áætluðum tíma hvort einhverjar úrbætur héldu áfram. En það hefur ekki gerst. Engin tillaga kom fram þann 1. júní sl. um frekari jöfnun orkuverðs.
    Síðan gerist það að í því fjárlagafrv., sem við erum nú að byrja að fjalla um fyrir næsta ár, er nýjasta áætlun ríkisstjórnarinnar sú að hætta að endurgreiða virðisauka, hætta að endurgreiða innskatt orkufyrirtækja, sem þýðir náttúrlega hækkun á kostnaði fyrirtækjanna og kemur þá út í verðlagið og mun valda hækkun á hitunartöxtum þessara fyrirtækja, misjafnlega eftir stöðu þeirra en allt frá 6% og upp í 20% hækkun er áætluð, t.d. er 20% hækkun hjá Orkubúi Vestfjarða. Það segir sig sjálft að 20% hækkun á orkuverði er allmikil upphæð á sama tíma og ekki verður hækkun á kaupgjaldi nema um 1,7%. Ég vil því ítreka það og bendi einnig á það sem kom fram í ræðu síðasta ræðumanns að það hefur verið ákveðin jöfnun í gangi í sambandi við áfengi og tóbak þó að það sé ekki það sem mest nauðsyn er á að jafna. En bensín og olíur hafa til skamms tíma líka verið á sama verði. Það eru orkuvörur sem hafa verið á sama verði úti um landið en innlenda orkan hefur ekki verið á sama verði. Þegar fólk var hvatt til þess fyrir nokkrum árum að nýta sér í meira mæli innlenda orkugjafa, m.a. til húshitunar, þá var það eitt af meginmarkmiðunum og það sem gefið var upp sem ástæða að innlendu orkugjafarnir yrðu aldrei dýrari en þeir innfluttu. Það hefur ekki staðist enda má benda á umræðuna sem var hér síðasta vetur þar sem bent var á að fiskvinnslustöðvar margar hverjar nýttu sér það í æ meira mæli að framleiða orku með innfluttum orkugjöfum vegna þess að rafmagnsverðið væri allt of hátt fyrir þær. Það er því á ýmsum sviðum sem mjög mikils misréttis gætir, sérstaklega í orkumálum.
    Ég vil einnig nefna það, sem hér kom fram áðan, að verðlag á matvöru, sem við köllum nauðsynjar líka, er mjög misjafnt og það var upplýst --- ég man ekki hvort það er í frv. eða hvort það er í athugasemdum en það hefur alla vega komið fram í fjölmiðlum og í skýrslum --- að þarna þurfi e.t.v. að skoða frekar heildsöluverðið. Smásöluverslunin hefur átt í miklum erfiðleikum en af einhverjum ástæðum

hefur heildsöluverðið ekki verið það sama alls staðar á landinu á sömu vöru, ekki einu sinni frá heildsölunni sjálfri þótt dreginn sé frá kostnaður við að flytja vöruna. Ég held því að það þurfi að skoða mjög vel hvernig heildsöluálagningin er í framkvæmd. Þessi þrjú atriði, símakostnaður, orkukostnaður og matvörukostnaður er það sem fólk horfir á þegar það horfir á jöfnun á sínum lífskjörum, það horfir fyrst og fremst á þetta. Annað er frekar frjálst val en enginn kemst hjá því að hita upp hús sín, hafa til fæðis og flestir þurfa nú til dags að nota síma mjög mikið. Þetta er því mjög þarft frv. og ætti að vera öllum þingmönnum mikið umhugsunarefni hvernig hægt er að vinna að því að það fái sem bestan framgang.