Þjónusta Ríkisútvarpsins á Suðurlandi

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 12:24:36 (1363)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aukna þjónustu Ríkisútvarpsins á Suðurlandi sem liggur frammi á þskj. 75 og er 73. mál þingsins. Flm. eru hv. 4. þm. Suðurl. og hv. 5. þm. Suðurl. Texti tillögunnar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um að Ríkisútvarpið ráði fréttamann í fast starf til að annast fréttaöflun og úrvinnslu á fréttatengdu útvarpsefni frá Suðurlandi. Jafnframt verði komið á fót hljóðstofum á Selfossi og í Vestmannaeyjum og húsnæði tekið á leigu eða keypt til starfseminnar. Þar verði starfrækt reglubundið svæðisútvarp á vegum Ríkisútvarpsins.``
    Þessi till. til þál. er endurflutt en hv. 1. flm. lagði hana einnig fram á síðasta þingi en tillagan hlaut ekki afgreiðslu.
    Hér er um réttindamál að ræða fyrir Sunnlendinga eins og kemur fram í grg. Svæðisútvarp á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum er þegar orðið að veruleika og við það eru fréttamenn í föstum stöðum og með því var gert stórátak í að auka fréttaflutning frá landsbyggðinni. Starfsemi þessara svæðisútvarpsstöðva hefur fyrir löngu sannað ágæti sitt og eins og við þekkjum heyrum við oft mjög ítarlega fréttaþætti og viðtöl við fólk, fréttatengda þætti og annað útvarpsefni. Það er enginn vafi á að þetta hefur aukið landsmönnum þekkingu á mannlífi í þessum landshlutum.
    Á Suðurlandi, og ekki síst í Vestmannaeyjum, er umfangsmikil atvinnustarfsemi eins og menn vita.

Á Suðurlandi ef við teljum Vestmannaeyjar með eru samstals um 6.000 heimili. Það hlýtur að vera eðlilegt að ætlast til að þessi heimili eigi rétt á sömu eða svipaðri þjónustu af hálfu Ríkisútvarpsins og Norðlendingar, Vestfirðingar og Austfirðingar njóta nú.
    Það er því vilji hv. flm. að þetta stóra landsvæði og þéttbýla fái þessa þjónustu eins og aðrir landshlutar sem þessarar þjónustu njóta nú og því er þessi tillaga fram lögð.
    Í grg. með till. er vitnað til samþykktar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga frá 25. apríl sl. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Aðalfundur SASS skorar á menntamálaráðherra að hann hlutist til um að nú þegar verði hafinn undirbúningur að rekstri svæðisútvarps á Suðurlandi í tengslum við RÚV.``
    Hæstv. forseti. Ég tel ekki að það þurfi að halda langa ræðu um nauðsyn þessa réttlætismáls sem hér er á ferðinni og óska eftir að að umræðu lokinni verði tillögunni vísað til hv. menntmn. og treysti því að þar verði hún skoðuð með þeirri vinsemd sem hún á skilið.