Rannsóknir á botndýrum í Breiðafirði

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 12:43:23 (1366)

     Flm. (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 126 um rannsóknir á botndýrum í Breiðafirði. Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi en var ekki afgreidd. Tillögugreinin orðast svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjútvrh. að láta fara fram rannsókn á botndýrum í Breiðafirði í samvinnu við vinnslustöðvar og útgerðir skelbáta við Breiðafjörð.
    Tilgangur rannsókna verði að leita nýrra hörpudiskmiða á Breiðafirði, meta betur en gert hefur verið hörpudiskmiðin og kanna aðrar dýrategundir sem nýtanlegar kunna að vera.``
    Í grg. með þáltill. segir svo:
    ,,Með minnkandi veiðiheimildum skipa sem stunda bolfiskveiðar verður stöðugt mikilvægara að auka rannsóknir annarra fiskstofna og nýtanlegra botndýra.
    Skelveiðar hafa verið stundaðar á Breiðafirði í rúma tvo áratugi með ágætum árangri. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til verulegan samdrátt veiða á hörpudiski án þess að rannsóknir hafi verið auknar. Aðrar botndýrategundir hafa ekki verið rannsakaðar að nokkru marki. Sjómenn sem stunda skelveiðar telja nauðsynlegt að auka rannsóknir og hafa lýst vilja sínum til þess að taka þátt í rannsóknarverkefni sem miðist við að rannsaka veiðisvæði hörpudisksins og annarra botndýra.
    Að beiðni þingmanna Vesturlands tók Hrafnkell Eiríksson fiskifræðingur saman stutta greinargerð um botndýrarannsóknir í Breiðafirði. Fylgir sú greinargerð með sem fylgiskjal.``
    Hrafnkell Eiríksson fiskifræðingur er mjög vel kunnugur öllum rannsóknum á Breiðafirði en hann hefur staðið fyrir þeim í áratug eða meira og hefur kynnt sér Breiðafjörðinn afar vel. Í greinargerð fiskifræðingsins segir, með leyfi forseta:
    ,,Sem kunnugt er hefur Hafrannsóknastofnun lagt til að hörpudisksveiði í Breiðafirði verði takmörkuð við 8.500 tonn árið 1992 en undanfarinn áratug hafa tillögur stofnunarinnar hins vegar hljóðað upp á 10--11 þús. tonna um hámarksafla á ári. Rekja má þennan samdrátt til minnkandi hlutdeildar af skel yfir 70 mm í stofninum en nýliðun virðist aftur á móti góð undir 70 mm samkvæmt niðurstöðum stofnmælinga 1991.
    Vegna minni veiða á öllum helstu nytjategundum á næsta ári eða jafnvel árum er því enn frekari ástæða nú en áður að huga að nýjum möguleikum í fiskveiðum hérlendis. Til þess að svo geti orðið þarf auknar rannsóknir og eitt af líklegri svæðum til árangurs er Breiðafjörður, a.m.k. hvað varðar skeldýr og önnur botndýr. Hér á eftir verður fjallað lauslega um nokkra nýja möguleika með auknum rannsóknum í Breiðafirði.``
    Þetta var tilvitnun í greinargerð fiskifræðingsins. Síðan segir í greinargerðinni um einstök skeldýr og önnur botndýr sem fiskifræðingurinn telur ástæðu til þess að rannsaka frekar og telur mögulegt að nýta og byrja ég á hörpudiski:
    ,,Talið er mjög tímabært`` --- segir fiskifræðingurinn um hörpudiskinn --- ,,í ljósi núverandi samdráttar að leita nýrra hörpudisksmiða á þessu svæði. Undirritaður hefur rætt við nokkra skelveiðiskipstjóra nú í haust um að hver bátur gefi dagvinnu eða svo í slíkt verkefni sem yrði skipulagt og stjórnað frá rannsóknaskipinu Dröfn í tengslum við aðrar rannsóknir skipsins á svæðinu. Fyrstu viðbrögð manna hafa verið góð en fylgja þarf málinu eftir.``
    Þess má geta að vegna þessarar þáltill. átti ég fund með fulltrúum sjútvrn. og fiskifræðingnum ásamt með fulltrúum atvinnuráðgjafa Vesturlands um þessar rannsóknir. Þessir aðilar munu þegar hafið undirbúning að þeim rannsóknum sem þáltill. gerir ráð fyrir.
    Þá segir fiskifræðingurinn í skýrslu sinni um ígulker:
    ,,Hugsanlega má kanna útbreiðslu og stofnstærð ígulkera með hörpudiskplóg í tengslum við ofangreinda leit. Hafa ber þó í huga að þroski (gæði) ígulkerahrogna getur verið mjög ólíkur eftir svæðum þannig að það dýpi sem vænta má hörpudisks á sé utan við bestu ígulkerasvæðin sem er líklega grynnra. Skollakoppur er mjög vænlegur kostur með þekkta markaði í Japan og Frakklandi. Hvað Frakkland varðar er þó enn ógengið frá samningi milli landanna ef hugsað er til útflutnings á lifandi ígulkerum.``
    Þess má geta til viðbótar því sem segir um ígulkerin í skýrslu fiskifræðingsins að þegar eru hafnar tilraunaveiðar á ígulkerum og vonandi tekst að treysta þær veiðar og koma þessum afurðum á markað.
    Þá segir um sæbjúgu:
    ,,Kanna má útbreiðslu og magn sæbjúgna með hörpudiskplóg í tengslum við hörpudiskaleitina. Markaðir fyrir sæbjúgu, að vísu ekki okkar tegund, eru þekktir í Suðaustur-Asíu og Japan.``

    Síðan kemur aða:
    ,,Þessi skel hefur fengist í umtalsverðu magni í hörpudiskplóga þó að ekki sé hægt að ná til nema hluta útbreiðslusvæðisins með því veiðarfæri. Hins vegar er markaður lítt eða ekki þekktur í stóru skelfiskneyslulöndunum í Evrópu, Frakklandi, Spáni og Ítalíu. Könnun sem gerð var í haust á Hollandsmarkaði reyndist neikvæð.``
    Þá kemur að beitukóngnum. Þar segir:
    ,,Þessir kuðungar fást yfirleitt ekki í miklu magni í hefðbundna hörpudisksplóga, enda eru þeir fremur smáir og halda sig á öðru dýpi/botnlagi en t.d. hörpudiskur. Rannsóknir með gildrum eru því nauðsynlegar í þessu tilviki en þær eru fremur seinlegar og því dýrar. Lágt verð á beitukóngi hefur þó fram til þessa staðið veiðum og vinnslu fyrir þrifum. Um hafkóng gildir svipað og beitukóng nema hvað vinnsla hans er vandasamari vegna eitraðra meltingarkirtla.``
    Þá kemur að trjónukrabbanum:
    ,,Tilraunaveiðar á trjónukrabba, sem hófust haustið 1983, tókust þá þegar með ágætum. Verð og markaðsmál hafa hins vegar verið í flöskuhálsinum í þessu máli enda virðist trjónukrabbi dæmigerður súpu- eða kæfukrabbi vegna smæðar. Góða vísbendingu um útbreiðslu og magn trjónukrabba má þó fá með hörpudiskplóg, t.d. í tengslum við hörpudiskleit.``
    Um kúfskel, sandskel, krókskel og báruskel segir að að líkindum sé aðeins hægt að magnmæla þær með vatnsþrýstings- eða dæluplógum sem aðeins eru að hluta til staðar hérlendis. Tvær fyrrnefndu tegundirnar eru þekktar sem markaðsvara en hinar náskyldar t.d. hjartaskel sem veidd er í stórum stíl í Evrópu.
    Hér lýk ég tilvitnunum í greinargerð fiskifræðingsins. Það er alveg ljóst að þó að hörpudiskurinn hafi verið mikil búbót við Breiðafjörðinn ætti með rannsóknum að vera hægt að leita að fleiri tegundum eins og þarna kemur fram.
    Hlutdeild sjávarútvegsins í þjóðarframleiðslunni hefur tekið litlum breytingum síðustu árin. Ekki eru sjáanlegar breytingar á þann veg að aðrar atvinnugreinar auki þjóðartekjur eða skjóti styrkari stoðum undir tekjuöflun þjóðarbúsins. Í ljósi þess er mjög mikilvægt að nýta sem best þær auðlindir sem við höfum aðgang að, ekki síst auðlindir sjávar. Í Breiðafirði hafa verið nýttir stofnar, svo sem hörpudiskurinn, sem er ásamt rækjunni meðal stærstu stofna sem nýttir eru fyrir utan bolfiskinn.
    Ekki er lengra síðan en árið 1970 að hörpudiskveiðar hófust í Breiðafirði en það ár veiddust 2.216 tonn af hörpudiski. Árið eftir voru veidd rúmlega 2.500 tonn, síðan jókst veiðin mjög mikið og 1972 veiddust 4.500 tonn. Nokkur minnkun var næstu ár eftir, árin 1973, 1974 og 1975 en árið 1976 jókst veiðin aftur og þá var markaðurinn hagstæðari auk þess sem þá hafði farið fram mikil þróun bæði í veiðum og vinnslu og verðið hækkað. En verð á skelfiski, hörpudiskinum, hefur sveiflast mjög mikið.
    Árið 1978 voru veiðarnar komnar upp í 7.500 tonn og var þá þegar orðinn mjög stór þáttur í atvinnulífinu í Stykkishólmi. Nokkur vinnsla hefur einnig verið í Grundarfirði og hin síðari ár á Brjánslæk við Breiðafjörð. Veiðarnar fóru stöðugt vaxandi. Árið 1982 voru veiðarnar komnar upp í 10 þús. tonn og 1985 var leyft að veiða ríflega 12 þús. tonn af hörpudiski úr firðinum. Þá var hámarki náð að því er virðist og síðan hefur veiðin minnkað og á síðasta ári var gert ráð fyrir að veidd yrðu 8.500 tonn á fiskveiðitímabilinu.
    Með þessari lýsingu vildi ég gefa nokkra mynd af því eftir hverju hefur verið að slægjast með veiðum á hörpudiski. Ef aðrar tegundir í firðingum gætu nýst með svipuðum hætti er um verulega möguleika og mikla búbót að ræða ef vel tækist til. Eins og fyrr er getið hafa sjómenn og raunar allir sem tengjast veiðum og vinnslu við Breiðafjörðinn lagt ríka áherslu á að rannsóknir verði auknar.
    Útgerðir og fiskvinnslustöðvar hafa lýst vilja sínum til að taka þátt í rannsóknum og taka þátt í leit að nýjum miðum, ekki síst þegar litið er til þess að skelbátar hafa þurft að sæta sérstakri skerðingu á þorskkvóta sem að sjálfsögðu kemur einnig niður á vinnslustöðvunum sem höfðu byggt alla sína afkastagetu upp í samræmi við þann bolfiskafla sem veiddur var í byggðarlögum við Breiðafjörð sem nýta skelina. Þær rannsóknir sem hér er lagt til að komið verði á gætu orðið þáttur í fjölstofnarannsóknum líkt og verkefnið botndýr í sunnanverðum Faxaflóa sem beinist að vistfræðilegum tengslum fæðuframboðs og afráns botnlægra fiskstofna í sunnanverðum Faxaflóa. Það verkefni er sérstaklega styrkt af Vísindasjóði.
    Virðulegur forseti. Ég tel rannsóknir á botndýrum við Breiðafjörð mjög mikilvægar og geta orðið mjög mikilvægt innlegg í eflingu atvinnulífsins við fjörðinn. Í fyrsta lagi til að leita nýrra hörpudisksmiða og skjóta e.t.v. nýjum stoðum undir þá atvinnugrein.
    Í öðru lagi til að tryggja að ekki sé um að ræða ofveiði á þessum stofni og auðvitað er geysilega mikilvægt fyrir alla aðila að fylgjast náið með þróun og stofnstærð og ástandi þessa nytjastofns.
    Í þriðja lagi til að kanna veiðar annarra nýtanlegra botndýra og vil ég vitna til þess sem áður var greint frá úr skýrslu fiskifræðingsins.
    Í fjórða lagi til að þróa ný og endurbætt veiðarfæri. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að auðvitað er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga sem fiskveiðiþjóð að stundaðar verði rannsóknir á veiðarfærum, ekki einungis á þeim hefðbundnu veiðarfærum sem nýtt eru til veiða á bolfiski, loðnu og síld heldur einnig á öðrum tegundum. Það er alveg ljóst ef árangur á að nást í veiðum, t.d. á skel eða krabbadýrum, tekur langan tíma og kostar fjármuni að þróa veiðarfæri svo að vit sé í þeim veiðum.

    Staða sjávarbyggðanna er og hefur verið í mikilli óvissu vegna minnkandi afla og verri afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Því er mjög brýnt að auka rannsóknir og leitast við að nýta betur fiskstofna sem nýtanlegir eru. Með því ætti fremur að vera hægt að efla og styrkja byggðirnar sem byggja allt sitt á sjávarútvegi. Það hlýtur að vera hlutverk rannsóknastofnana sjávarútvegsins að taka þátt í slíkri vinnu, taka þátt í skipulagi slíkra rannsókna. Vil ég sérstaklega í því sambandi vekja athygli á því að við Breiðafjörð er útibú Hafrannsóknastofnunar sem er staðsett í Ólafsvík og ætti að geta verið hæg heimatökin að nýta þá aðstöðu til að stunda öflugar rannsóknir á Breiðafirðinum.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að till. verði vísað til hv. sjútvn.