Málefni aldraðra

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 13:30:41 (1367)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs á fundi í gær um þetta mál var hér í gangi fjörug umræða sem mig langaði til að taka þátt í. Ég veit ekki hvort ég á að fara að vekja hana upp aftur enda fjarstaddir sumir af þeim mönnum sem ég ætlaði að tala til í gær.
    Ég stend fyrst og fremst upp til þess að lýsa vissum efasemdum um efni frv. Það er mjög langt gengið með þessu. Það er auðvitað vandamál þegar byggingar eru reistar og rekstrarfé skortir. En hér um að ræða verkefni sem er nokkuð sérstaks eðlis og þjóðin undirgekkst nefskatt til ákveðinna framkvæmda. Það er svo sem í stíl við annað skattaæði þessarar ríkisstjórnar að taka huta af þessum peningum eða kannski hér um bil alla í ríkissjóð. Ég tel hins vegar að það breyti því ekki að þörf er fyrir þennan sjóð, Framkvæmdasjóð aldraðra, til uppbyggingar mannvirkja.
    Mjög mikilvæg verkefni hafa verið leyst fyrir tilstilli og með atbeina þessa sjóðs. Það hefur verið og er enn vandræðaástand víða um land í öldrunarmálum og þó að ástandið í höfuðborginni hafi verið sérstaklega til umræðu í gær er það engan veginn gott alls staðar á landsbyggðinni þó það sé ef til vill lakara í Reykjavík en nokkurs staðar annars staðar.
    Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og reyndar fleiri hv. þm. höfðu orð á því í gær að tæpur helmingur Íslendinga 70 ára og eldri væru búsettir í höfuðborginni og fram komu á því skýringar. Þetta er vissulega hátt hlutfall en það breytir því þó ekki að aldraðir eru víðar, a.m.k. er það svo í Norðurlandi vestra.
    Ég sé ástæðu til þess hér í þessum umræðum úr því að enginn annar hefur fundið hjá sér hvöt til þess að gera það að þakka sjómannasamtökunum fyrir þann hlut sem þau hafa lagt til öldrunarmála í landinu. Ég hef sérstaklega í huga Pétur Sigurðsson fyrrv. alþm. sem ég tel að hafi unnið af miklum ötulleik og dugnaði að öldrunarmálum og eigi fyrir það þakkir skildar. Ég vil gjarnan að komi fram í þessum umræðum að það er a.m.k. einn þingmaður sem man eftir því hvað Pétur Sigurðsson lagði þar af mörkum.
    Ég vildi jafnframt ef hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefði haft tíma til að vera á þessum fundi og ekki verið í vinnunni sinni, sem ég tel víst að sé, biðja hann að feta í fótspor Péturs Sigurðssonar í því starfi sem hann gegnir eða a.m.k. reyna það. Ég tel víst að hann eigi ekki eftir að marka svo djúp spor sem Pétur Sigurðsson. En honum væri gagnlegt að reyna það.
    Menn geta svo velt því fyrir sér af hverju svo margir aldraðir Íslendingar hafa flutst til Reykjavíkur. Það hafa komið fram á því skýringar. Það er af fjölskylduástæðum og til að leita sér læknishjálpar o.s.frv. Mér fannst á hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að hann teldi það mikla óheillaþróun og tjón að gamla fólkið þyrptist til Reykjavíkur í þeim mæli sem það hefur gert. Ég vil vekja athygli á því að ekki hefur öllum orðið skaði að því að rosknir Íslendingar hafa kosið að eyða hér ævikvöldinu því að einstöku aðilar hafa þénað vel á þessu gamla fólki. Það eru tvö byggingarfyrirtæki hér í borginni, Ármannsfell hf. og Gunnar og Gylfi, sem hafa einhvers konar óskráð einkaleyfi á því að byggja íbúðir fyrir þetta aldraða fólk og fá hjá borgaryfirvöldum endalaust lóðir til þess að byggja það sem þeir kalla íbúðir fyrir aldraða. Þessar íbúðir eru ákaflega dýrar. Þær eru auglýstar sem þjónustuíbúðir jafnvel þó að engin þjónusta eða aðstaða til þjónustu frá hendi byggingaraðilanna fylgi. Borgin hins vegar hefur staðið fyrir því að byggja þjónustukjarna en þeir eru ekki sérstaklega fyrir íbúa íbúða fyrir aldraða sem Gunnar og Gylfi og Ármannsfell hf. eru að byggja og selja sem slíkar. Ég held að höfuðþjónusta þessara tveggja byggingarfyrirtækja sé sú að taka við sparifé þeirra öldruðu einstaklinga sem kaupa af þeim og stofna þeim í skuldir. Borgin hefur hins vegar séð um þjónustukjarna fyrir íbúa í þessum byggingum sem og öðrum íbúðum í borginni.
    Hér hefur ofurlítið verið talað um hjúkrunarheimilið Eir. Það er byggt af frjálsum félagasamtökum. Bændasamtökin eiga þar aðild að, sjómannadagurinn í Reykjavík og Hafnarfirði og verkalýðshreyfingin, stéttarfélög, Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður og fleiri. Þetta hjúkrunarheimili er byggt til að bæta úr brýnni þörf. Mér fannst ekki nákvæmt sagt frá staðreyndum í ræðu hæstv. heilbrrh. Þó að ég sé vanur að trúa honum og hér um bil öllu sem hann segir gat ég ekki trúað öllu sem hann sagði í gær, a.m.k. eins og hann setti það fram. Það er búið að reisa inni í Grafarvogi hjúkrunarvistrými fyrir 50 aldraða. Þetta er einkum ætlað fyrir fólk sem á við mikinn sjúkleika að stríða, Alzheimer-sjúklinga. Blindum var fyrirhuguð aðstaða þarna til endurhæfingar. Þarna er sem sagt kominn áfangi fyrir 50 vistmenn eða sjúklinga. En það er ekkert rekstrarfé til þess arna í fjárlagafrv. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hvernig hæstv. ráðherra tók á þessu máli. Það var eins og hann hefði engan áhuga á því að nýta þessi 50 pláss. Mér finnst ekki skynsamleg ráðstöfun að láta þetta húsnæði standa autt. Það kostar að vísu nokkuð að reka þetta. En þennan áfanga kostar ekki jafnmikið að reka og hæstv. ráðherra vildi vera láta. Hann var með áætlun um hjúkrunarheimilið fullbúið. Það sem vantar í fjárlög núna eru 120 millj. til þess að hægt sé að taka þennan áfanga í notkun.
    Það er reyndar rétt að hafa orð á því líka að þar fengju ekki einungis 50 vistmenn aðhlynningu heldur þyrfti 50 manns til þess að þjónusta þá. Það væri út af fyrir sig umtalsverð úrbót í bágbornu atvinnuástandi hér í borginni. Ég hef ekki trú á því að það hafi verið meiningin þegar hafist var handa um framkvæmdir á hjúkrunarheimilinu Eir að vist þar yrði dýrari en hjá öðrum sjúkrastofnunum. Ég vil gjarnan spyrja hvaðan hæstv. ráðherra kemur sú vitneskja. Ég skildi það svo að með því að reisa hjúkrunarheimili væri skapaður grundvöllur til þess að hafa þjónustuna ódýrari en á Borgarspítalanum eða Landspítalanum.
    Mér finnst jafnframt hlálegt að hlusta á ráðherra Alþfl. flytja ræðu eins og hann gerði í gær og lesa síðan í blöðunum tillögur frá borgarfulltrúa Alþfl. sem er full af réttlátri reiði og vandlætingu yfir þeirri óhæfu að Eir skuli ekki fá peninga til reksturs. Ég legg til að þeir tali saman um þetta mál. Ég vil taka það strax fram að ég er sammála borgarfulltrúanum en ekki ráðherranum og ég tel óhjákvæmilegt að leita leiða til að leysa þennan vanda. Ég tel ekki tímabært að gefa sér þá forsendu að það þurfi að loka öðrum deildum til þess að hægt sé að taka þetta hjúkrunarheimili í notkun.