Málefni aldraðra

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 13:41:59 (1368)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mér fannst undir umræðunum í gær ástæða til að leggja nokkur orð í belg um frv. um breytingu á Framkvæmdasjóði aldraðra.
    Það er út af fyrir sig alltaf efni til að velta fyrir sér, eins og fram kom hjá hæstv. heilbrrh., hvort þörf sé á sérstökum sjóði sem stofnaður er til að stuðla að uppbyggingu þjónustu, greiða og styrkja stofnkostnað á hverjum tíma. Það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort menn hafa komist svo langt að markmiðinu sé náð og því ekki lengur þörf á að sjóðurinn starfi í þeirri mynd sem verið hefur eða jafnvel hvort rétt sé að leggja hann með öllu niður. Þetta er að mínu mati eðlilegar spurningar. Það er ekkert sjálfgefið að svarið við vandamáli sé ávallt steypa, og eins og stundum er nú sagt og var sagt við mig fyrir nokkrum dögum í hálfkæringi af manni sem vinnur við félagslega þjónustu úti á landi. Honum fannst viðbrögðin oft hafa verið þannig að þegar þeir báðu um meira fé til að geta veitt betri þjónustu, og áttu þá fyrst og fremst við að það þyrfti fleira fólk, var svar Alþingis ávallt að hringja í næstu steypustöð og láta byggja. Ef sá sem bað um aukið fé var staðsettur úti á landi var hringt í steypustöð í Reykjavík. Auðvitað er nokkuð til í þeim sjónarmiðum að menn hafi kappsamlega farið út í uppbyggingu á þjónustu á mörgum sviðum og ekkert síður á málasviði aldraðra en öðrum. Því er rétt að staldra aðeins við og hugleiða hvort rétt sé að halda áfram á sömu braut eða hvort menn þurfi að breyta um stefnu.
    Þessi mál hafa töluvert verið í skoðun í nefnd sem ég sit í á vegum hæstv. félmrh. og kölluð er sveitarfélaganefnd. Þar hafa verið lagðar fyrir okkur upplýsingar um málefni aldraðra sem ég hygg að séu komnar frá heilbrrn. Ég vil gjarnan drepa á þau svo mönnum sé ljóst á hvaða talnagrunni menn standa, að vísu þó með fyrirvara um talnagrunninn. Ég heyrði í gær að það voru aðeins vefengdar tölur úr skýrslunni um hagi aldraðra sem kom út á síðasta þingi og var gert á afar sannfærandi hátt af hv. þm. Svavari Gestssyni og hæstv. heilbrrh. mótmælti ekki. Það má því vera að þær tölur sem við höfum haft séu þannig að það þurfi að endurskoða þær.
    Þær forsendur sem menn gefa sér t.d. í sambandi við hjúkrunarrými er að að meðatali þurfi 10 hjúkrunarrými á hverja 100 sjötuga og eldri landsmenn, eða 10%. Það sé markmiðið sem þurfi að ná og byggja þjónustuna þannig upp að hægt sé að veita hjúkrunarrými að þessu marki. Samkvæmt tölunum eru nú 1.948 hjúkrunarrými eða liðlega 10%, 10,4% miðað við fjölda þeirra sem eru 70 ára og eldri. Þetta er að vísu dálítið breytilegt eftir kjördæmum. Þau eru flest á Norðurlandi vestra, 17,4, en læst í Reykjavík, 8,1 og reyndar kom fram í gær að rétt tala væri 5, helmingurinn af því sem menn telja eðlilega þörf.
    Miðað við þessar talnaforsendur er eðlilegt að menn segi sem svo: Fyrst við erum með hjúkrunarrými nokkurn veginn eins og talið er samkvæmt erlendum viðmiðunum að þurfi, þá er ekki þörf á frekari uppbyggingu. Ég held að það væri ástæða til að hæstv. heilbrrh. færi nokkrum orðum um það hvort hann teldi að menn hefðu náð það langt í uppbyggingu á hjúkrunarrými að þeir þurfi ekki meir miðað við meðaltal yfir landið í heild eins og fram kemur í þessum tölum. Hins vegar verður að hafa í huga að þjóðin er að eldast og þannig mun þeim, sem eru 70 ára og eldri, fjölga verulega á næstu 30 árum, úr 18 þús. upp í 32 þús. árið 2020. Ef við notum sömu forsendur, þá þýðir það að á næstu tæplega 30 árum þarf að fjölga hjúkrunarrýmum úr 1.948 upp í 3.200. Mér virðist því að aldursspá og þessar forsendur sýni að við þurfum að halda áfram uppbyggingu á þessum sviði sem nemur a.m.k. þessum mun sem eru um 1.250 hjúkrunarrými á þessu árabili. Við getum deilt í það með 30. Þá fáum við um 42 rými á ári. Þessi niðurstaða sem maður kemst að um þörfina í náinni framtíð og þá uppbyggingarþörf sem er fyrir hendi er hér miðuð við fræðilegar forsendur.
    Annað vandamál í þessu er ójöfn dreifing rýmisins. Það virðist vera að í Reykjavík sé helmingi minna framboð á hjúkrunarrými en þörf er á miðað við hinar erlendu viðmiðanir og allt að þrisvar sinnum minna en gerist í bestu kjördæmum hvað þetta varðar. Þarna kann að vera þörf fyrir uppbyggingu, staðbundna miðað við Reykjavíkursvæði, sem verður að mæta. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra setti fram á eftir sitt mat á því hverja hann telur þörfina vera á næstu árum hvað varðar hjúkrunarrými. Ef menn eru sammála um að það þurfi að fjölga hjúkrunarrýmum verða menn næst að ræða hvernig þeir ætla að fara að því. Ein leiðin er að byggja nýtt, önnur leið væri að taka annað húsnæði undir þetta og taka þá það húsnæði úr þeirri notkun sem það er nú. Allt þetta þarf að liggja fyrir og menn þurfa að vera með það á hreinu hvernig á að leysa úr þessari ókomnu þörf og þeirri þörf sem er til staðar nú þegar á höfuðborgarsvæðinu.
    Mér sýnist að frv., sem í raun og veru opnar fyrir þá þróun að framkvæmdasjóðurinn verði fyrst og fremst rekstrarsjóður, greiði fyrir rekstur en ekki stofnkostnað, gangi á skjön við þann talnagrunn sem ég hef hér rakið og áætlanir um þörf í náinni framtíð. Þær áætlanir segja okkur að það er þörf á uppbyggingarfé. Ég vil gjarnan fá rökstuðning frá hæstv. ráðherra um hvernig hann hugsar sér að fjár verði aflað til að standa undir þeirri uppbyggingu. Ég held að það þýði ekkert að blekkja okkur með því að ef við á annað borð samþykkjum þá breytingu sem er í frv. þá muni féð meira og minna fara í rekstur. Það held ég að sé ekki hægt að deila um. Auðvitað verður það þannig, sérstaklega miðað við núverandi aðstæður þegar erfitt ástand er í þjóðfélaginu.
    En það er líka ástæða til að nefna að fleiri aðilar eru að vinna að stefnumörkun á þessu sviði en hæstv. heilbrrh. Ég gat um nefnd áðan, sveitarfélaganefndina, og þar liggja fyrir tillögur um málefni aldraðra og heilbrigðismál sem breyta núv. fyrirkomulagi verulega. Ég spyr: Talast þeir ekki við, þessir tveir hæstv. ráðherrar heilbrigðis og félagsmála því að hér er um að ræða nokkuð ólíkar tillögur sem hvor stefnir í sína áttina?
    Í þeim drögum sem fyrir liggja að skýrslu sveitarfélaganefndarinnar eru gerðar tillögur um það að eftir tvö ár taki sveitarfélögin að verulegu leyti við því hlutverki sem ríkið gegnir nú. Í fyrsta lagi taki sveitarfélög við heilsugæslustöðvunum, rekstri þeirra og stofnkostnaði. Í öðru lagi byggja tillögurnar á því að fækka sjúkrahúsum í landinu og breyta þeim í hjúkrunarrými og flytja þau þannig yfir til sveitarfélaga. Í þriðja lagi er lagt til að langlegudeildir verði verkefni sveitarfélaga sem leiðir af öðrum lið. Í fjórða lagi er lagt til að heimahjúkrun verði verkefni sveitarfélaga og í fimmta lagi er lagt til að Framkvæmdasjóður aldraðra starfi óbreyttur næstu árin til að kosta þá uppbyggingu sem á að flytja yfir til sveitarfélaga.
    Hvernig má það vera að tveir ráðherrar í sömu ríkisstjórn skuli koma með svo ólíkar tillögur? Ég geri ráð fyrir því að hæstv. heilbrrh. hafi samþykki ríkisstjórnarinnar fyrir því að flytja frv. og þar með talið samþykki félmrh. Hvað eru menn að meina? Annar ráðherrann leggur til að breyta sjóðnum þannig að hann fari allur í rekstur, hinn ráðherrann leggur til að sjóðurinn verði til áfram óbreyttur og verkefnin fari yfir á sveitarfélögin. Ef hvort tveggja gengur eftir, þetta frv. og þær tillögur sem ég hef verið að greina frá í aðalatriðum, er í raun og veru ekkert annað fram undan en menn eru að velta verkefnum frá ríkinu yfir á sveitarfélög án þess að sveitarfélögin fái nægilegar tekjur á móti. Það er niðurstaðan sem nemur mörg hundruð milljónum kr. Ég vil því mælast til þess við hæstv. félmrh. að hann ræði þetta við samstarfsmann sinn í ríkisstjórninni, hæstv. heilbrrh., til þess að samræma stefnu þessara tveggja ráðherra í framtíðarsýn í málinu, málefni sjúkrahúsa og öldrunarþjónustu. Það gengur ekki að halda áfram eins og nú er með frv. og þær tillögur sem eru á lokastigi hjá sveitarfélaganefnd. Það eru ósamrýmanlegir hlutir.
    Ég hef, virðulegur forseti, komið því að sem ég vildi bæta inn í umræðuna. Ég gæti út af fyrir sig farið ítarlegar yfir þær hugmyndir sem eru á borðinu í sveitarfélaganefnd varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra og breytingu á hlutverki ríkis og sveitarfélaga í málefnum sjúkrahúsa og aldraðra. En ég hygg að ég hafi komið aðalatriðunum á framfæri og það sé nægjanlegt fyrir menn til að sjá að hér eru menn að stefna til tveggja ólíkra átta og nauðsynlegt sé að staldra aðeins við og átta sig á því hvaða leið menn eiga að velja.
    En ég vil ítreka það að lokum, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra geri í stuttu máli grein fyrir sinni framtíðarsýn um þörf á uppbyggingu hjúkrunarrýmis fyrir aldraða í framtíðinni.