Málefni aldraðra

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 13:55:24 (1369)

     Finnur Ingólfsson :

    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. sagði í gær við umræðuna að hér væri engin ný hugmynd á ferðum. Það er alveg hárrétt. Hér er um gamla hugmynd að ræða sem komin er í framkvæmd í lögum. Það er hins vegar svo að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hæstv. heilbrrh. lætur það frá sér fara að hér sé ekki um nýja hugmynd að ræða því að staðreyndin er sú að ég held að hæstv. heilbrrh. hafi ekki flutt eitt einasta mál í þinginu þar sem um einhverja nýja hugmynd er að ræða sem er komin frá honum sjálfum. Öll þau mál sem hann hefur flutt eru mál sem hann hefur verið að taka upp, eftir því sem hæstv. ráðherra segir, eftir fyrrv. heilbrrh. Og hér er enn eitt á ferðinni, ein af þeim hugmyndum sem fyrrv. hæstv. heilbrrh. skildi eftir í heilbrrn. þegar hann yfirgaf það og var búinn að sjá um að koma í framkvæmd að nokkru leyti. Ég veit að það eru margar hugmyndir til í heilbrrn. um hvað megi gera á ýmsum sviðum heilbrigðis- og tryggingamála. Ábyrgð fyrrv. ráðherra, núv. hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar, er því að verða nokkuð mikil í þessum efnum, að skilja eftir allar þessar góðu hugmyndir í ráðuneytinu sem lenda síðan í höndunum á þeim mönnum sem framkvæma þær með þeim ósköpum sem núv. hæstv. ríkisstjórn gerir.
    Þegar verið var að koma nefskattinum á fyrir framkvæmdasjóðinn var mjög sterk andstaða frá, að ég hygg, allflestum hv. þm. Sjálfstfl. í þinginu við að þessi skattur yrði tekinn fyrir utan staðgreiðsluna. Ég man það að hv. þm., núv. þingflokksformaður Sjálfstfl., Geir H. Haarde flutti hér langar ræður um það hvað þetta væri afspyrnuvitlaust. Það bólar hins vegar lítið á tillögum frá hv. þm. Sjáflstfl. núna sem telja og hafa aðstöðu til að afnema þennan skatt. Það væri hins vegar mjög óskynsamlegt að gera það því að þennan skatt, sem er merktur sem skattur til þess að byggja upp fyrir aldraða, greiðir fólk með glöðu geði. Það er nú ekki svo um margar þær álögur sem ríkisstjórn og Alþingi leggur á einstaklingana að menn greiði þær með glöðu geði. En það er nú svo með þennan skatt og það var vitað þegar hann var lagður á á sínum tíma.
    Það var til þess ætlast að skatturinn yrði notaður til uppbyggingar fyrir aldraða en ekki til að standa undir rekstrarkostnaði. Ég get tekið undir það með hæstv. heilbrrh. að það er búið að byggja mjög mikið upp. Það hefur hins vegar verið byggt mjög misjafnlega upp eftir kjördæmum, því miður. A.m.k. er búið að byggja það mikið upp, þó að þörfinni sé ekki fullnægt, að húsnæði sem búið er að byggja er komið langt umfram það sem forgangsröð þessarar ríkisstjórnar miðar við og fjárveitingar til þessara verkefna standast hvergi nokkurs staðar á.
    Ég er stuðningsmaður frv. sem hæstv. heilbrrh. leggur hér fram vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að því miður er ekki hægt að fullnægja öllum þessum þörfum núna út af erfiðleikum sem að steðja. Ég hafði nokkra forgöngu um það á sínum tíma, þegar þessi breyting var gerð á framkvæmdasjóðnum í upphafi, að taka hluta af honum til reksturs þessara stofnana. Ég held að það sé skynsamlegt eins og ástatt er.
    Nú er gert ráð fyrir því í fjárlögum fyrir árið 1993 að tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra verði 425 millj. kr. af þessum nefskatti og til reksturskostnaðar á að verja 160 millj. kr. Þá standa eftir 265 millj. kr. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er það svo að þessum 265 millj. kr. sé búið að ráðstafa á næstu árum út af ýmiss konar samningum og öðru slíku svo að á árinu 1993 sé ekki hægt að taka hærri upphæð en 160 millj. kr. til þess að reka stofnanirnar? Ég skil auðvitað að svo getur verið vegna þess að ég veit að oft á tíðum er búið að ráðstafa býsna miklu af þessum fyrir fram. Ég hefði hins vegar viljað sjá og mér finnst það vera vel athugandi í starfi heilbr.- og trn., þangað sem ég býst við að frv. verði sent, hvort ekki sé rétt að hafa þetta tímabundið, láta það gilda fyrir eitt ár í senn. Það er nauðsynlegt að taka þessa umræðu upp á þinginu á hverju ári þegar menn fara út í breytingar sem þessar sem ég tel skynsamlegar og vel réttlætanlegar á þessari stund og mun þar af leiðandi styðja frv. Hins vegar hefði ég átt miklu betra með að styðja það hefði ég séð að í fjárlagafrv. væri gert ráð fyrir fjárveitingum til þess að standa undir rekstrarkostnaði við hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi.
    Þegar ég segi: Það er búið að byggja mjög mikið upp, þá er ég með í höndunum athugun á stærð og stofnkostnaði nokkurra hjúkrunarheimila ásamt rekstrarkostnaði sem tekin er saman að ég held fyrir hæstv. heilbrrh. af Baldri Ólafssyni og er dagsett 12. sept. 1991. Þegar athugað er hve þörf fyrir hjúkrunarheimili er mikil eftir kjördæmum kemur eftirfarandi í ljós, með leyfi forseta:
    ,,Gert er ráð fyrir að 70 rými þurfi fyrir hverja 1.000 einstaklinga sem orðnir eru 65 ára. Upplýsingar um fjölda einstaklinga og núverandi rými eru fengnar úr skýrslu félmrn. um íbúaþörf aldraðra sem út kom haustið 1990.``
    Þegar maður ber þetta saman eftir kjördæmum, annars vegar rýmisþörfina miðað við 70 rými fyrir hverja þúsund íbúa og hvert núverandi rými er er það eitt kjördæmi sem algerlega sker sig úr í þessum efnum. Það er Reykjavíkurkjördæmi þar sem skortir 320 viðbótarhjúkrunarpláss á meðan búið er að gera mjög vel í öðrum kjördæmum. Það er auðvitað gott og fyrir það ber að þakka að menn hafi gert það á undanförnum árum úti um land. Á Vestfjörðum, í Norðurlandi vestra og á Reykjanesi er umframframboð á hjúkrunarrými. Þar er umframframboð á hjúkrunarrými á sama tíma og í Reykjavík er algert neyðarástand. Það sannar þessi skýrsla og það sannar skýrsla Öldrunarlækningafélags Íslands sem kom út fyrir rúmu ári þar sem öldrunarlæknar áætluðu að það vantaði pláss fyrir 260--300 einstaklinga í Reykjavík. Nú er tilbúið fullbúið stórt og glæsilegt hjúkrunarheimili uppi í Grafarvogi fyrir 50 einstaklinga, sem hægt væri að taka þar inn um áramót, en ekki króna til reksturs. Þetta er auðvitað lýsandi dæmi um það að við horfum allt of mikið á uppbygginguna og gleymum að huga að rekstrinum. Við höfum líka byggt rangt upp.

Það sjáum við á þessari ágætu skýrslu sem Baldur Ólafsson hefur gert.
    Ég hef heyrt og að því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt að það sé áætlað að það kosti 120 millj. kr. að reka þessi 50 rúm á hjúkrunarheimilinu Eir yrði það tekið í notkun á næsta ári. Það þýðir að kostnaður á rúm á ári yrði 2,4 millj. Það er mjög ódýrt af þeirri ástæðu að þetta heimili er að mörgu leyti sérhæft því að þarna er sérstaklega ætlað pláss fyrir Alzheimer-sjúklinga á meðan kostnaður t.d. á hjúkrunarheimilinu Sólvangi, sem er mjög vel rekið, er á ári tæpar 2 millj. á hvert rúm. Á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi, sem ég held að sé algerlega til fyrirmyndar, er kostnaðurinn tæpar 2 millj. einnig.
    Við höfum líka verið byggja of stórt og ég held að við höfum kannski byggt fullstórt þetta hjúkrunarheimili í Grafarvogi og þess vegna er kostnaðurinn þar á rúm kannski örlítið meiri en hann hefði þurft að vera hefðum við byggt af örlítið meiri skynsemi. En það er auðvitað svo með fleiri stofnanir sem ekki koma Framkvæmdasjóði aldraðra við. Uppi í Mosfellssveit er tilbúið heimili fyrir fjölfatlaða. Þar er engin króna heldur í rekstur.
    En það sem er sammerkt með þessum stofnunum er að það er ekki ríkið sem hefur verið að byggja. Það eru einstaklingar. Það eru félagasamtök og aðrir slíkir sem hafa lagt fram fjármuni til byggingar.
    Eins og ég segi styð ég þetta frv. og tel að þarna sé að mörgu leyti verið að gera rétta hluti miðað við þær aðstæður sem við búum við. Þó svo að forgangsröð ríkisstjórnarinnar á þessum málum sé auðvitað kolröng tel ég að þarna sé verið að gera ágæta hluti en hefði hins vegar átt betra með að styðja frv. hefðu menn hugað örlítið betur að Reykjavík og þeim vandamálum sem þar eru.