Málefni aldraðra

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 14:45:36 (1372)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að þakka fyrir það að þessi ítarlega umræða hefur farið fram um málefni aldraðra. Ég held að hún hljóti að vera gagnleg fyrir þá sem hafa verið að sinna þessum málaflokki og eru að sinna honum, a.m.k. fyrir okkur þingmenn og vonandi einnig hæstv. ráðherra.
    Ég tel að komið hafi fram hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. mjög mikilvægar og jákvæðar yfirlýsingar. Það sem skiptir máli í mínum huga í því sambandi er fyrst og fremst það að ráðherrann hefur slegið því föstu að sá vandi sem við er að glíma í Reykjavík sérstaklega sé gífurlega mikill og meiri en víðast hvar annars staðar og að rými, sem notuð eru fyrir aldraða, séu vantalin á landsbyggðinni, eins og hann orðaði það sjálfur, en oftalin í Reykjavík. Það er mjög mikilvægt að þetta liggi hér fyrir sem afstaða núv. heilbrrh. í þessum málum og ég tel að það sé fagnaðarefni vegna þess að slík afstaða hlýtur að vera lykill að skynsamlegum ákvörðunum ef áfram er haldið með málin á þessum grunni. Það er einnig mjög mikilvægt að það hefur komið fram hér í þessari umræðu, að ég tel, að opnunin á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi, að svo miklu leyti sem unnt verður vegna framkvæmdastigs, er forgangsatriði af hálfu heilbrrn. hér á þessu svæði, ef ég hef skilið ráðherrann rétt. En ég minni hins vegar á að það eru 20--25 rými tilbúin í Skjóli fyrir dagvist aldraðra sem ég tel að ætti í raun og veru að vera alla vega ekki neðar, jafnvel einum ofar á forgangslistanum en Eir er þrátt fyrir allt þar sem þessi rými í Skjóli eru tilbúin.
    Það sem stendur upp úr að öðru leyti í þessum umræðum er svo það að hæstv. ráðherra er að flytja frv. um að opna möguleika til að taka framkvæmdasjóðinn allan í ríkissjóð. Það eru engin takmörk fyrir

því í frv. eins og það lítur út að gera Framkvæmdasjóð aldraðra upptækan í ríkissjóð. Þeir hv. þm. Sjálfstfl. sem hér hafa talað eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og hv. þm. Matthías Bjarnason hafa mótmælt þessu. Ég skil það svo að menn muni reyna að finna einhverja lausn á þessu máli á milli stjórnarflokkanna þar sem bersýnilega er um ágreining að ræða. Ég vona að það verði niðurstaðan að menn ákveði að varðveita Framkvæmdasjóð aldraðra. Hann þarf að vera til. Það er mjög mikilvægt að Framkvæmdasjóður aldraðra verði til og ég held að það sé mikilvægt líka vegna þess að á bak við Framkvæmdasjóð aldraðra er, mér liggur við að segja, mjög eindreginn skattgreiðsluvilji. Fólk vill gjarnan leggja fjármuni í þennan framkvæmdasjóð þó að menn séu kannski tregir til að láta peninga í hina almennu skattahít ríkissjóðs. Það vill gjarnan leggja peninga í Framkvæmdasjóð aldraðra og ég tel að það sé mjög mikilvægt.
    Það væri fróðlegt að fara hér nánar yfir stefnumótunina í málefnum aldraðra. Ég tel að hún eigi að byggjast upp á mörgum þáttum. Hún á í fyrsta lagi að byggjast upp á heimaþjónustu, í öðru lagi á íbúðum með þjónustu, alvöruíbúðum með þjónustu, í þriðja lagi á samspili heilsugæslu og félagslegrar þjónustu en á það hefur t.d. skort í Reykjavík. Það hefur verið allt of lítil samvinna milli heilsugæslu og Félagsmálastofnunar þangað til nú. Í fjórða lagi á þessi þjónusta að vera með mjög öflugt vistunarmat fyrir aldraða. Í fimmta lagi nefni ég síðan öldrunarlækningarnar og ég nefni þær næst og áður en kemur að dagvistun, hvíldarinnlögnum og hjúkrunarheimilum. Öldrunarlækningarnar eiga að vera virkar lækningar á öldrunarsjúkdómum en ekki að vera legudeildir fyrir aldraða eins og þær hafa í raun og veru því miður orðið. Og loks nefni ég á eftir dagvistun, hvíldarinnlögnum og hjúkrunarheimilum sérúrræði af ýmsu tagi sem eru alltaf að verða flóknari og flóknari og kannski dýrari og dýrari og taka meira til sín. Það eru sérúrræði sem við hefðum ekki talað um með sama hætti t.d. er við settum lögin um málefni aldraðra. Það eru t.d. heimili fyrir Alzheimer-sjúklinga svo dæmi séu nefnd.
    Ég er nokkuð sannfærður um að þeir sem eru á Alþingi og kosnir eru af stjórnarflokkum eða stjórnarandstöðu eftir atvikum og hafa sinnt þessum málum gætu komið sér saman um forgangsverkefni. Ég held að það væri mjög mikilvægt ef mönnum auðnaðist að vinna þannig í málaflokki eins og málefnum aldraðra, skólamálum, félagsmálum eða hvað það nú er að menn vinni saman að því að finna einhverja lausn á málum, hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.
    Það breytir hins vegar ekki því, virðulegi forseti, að tillagan um það að gera framkvæmdasjóðinn upp, taka hann í ríkissjóð, er með öllu óaðgengileg af minni hálfu. Ég tek það fram og lýsi fullri andstöðu við hana. Hæstv. ráðherra vildi að vísu ekki viðurkenna að þetta væri svona en sagði: Það er ekki allt sett í rekstur heldur verða ekki fyrirmæli í lögum hvar mörkin skuli vera. Hæstv. núv. heilbrrh. hefur lag á því að koma hlutum þannig frá sér að þingmenn vita hvorki lönd né strönd þegar hann er að svara þeim vegna þess að hann svarar algerlega í austur þegar spurt er í vestur. Frægasta dæmi um það úr íslenskum stjórnmálum sem ég man eftir er reyndar þegar Albert Guðmundsson var spurður einu sinni um það sem forseti borgarstjórnar hvort það stæði virkilega til að hækka hitaveitugjöldin í Reykjavík. Þá svaraði hann sjónvarpsfréttamanninum mjög skýrt og ákveðið: ,,Það kemur ekki til greina að gengið verði fellt.`` Það þarf ekki að spyrja að því, spyrillinn spurði ekki frekari spurninga. Það er nokkuð svipað sem hæstv. heilbrrh. gerði í gær þegar hann sagði að það verði ekki fyrirmæli í lögum um það hvar mörkin skuli vera. Það má með öðrum orðum taka allan sjóðinn en það verða bara ekki fyrirmæli um það hvar mörkin skuli vera. Þegar hann var kominn alveg upp að vegg með þetta mál í gær hætti hann að tala um frv. sem við erum að ræða um hér og fór að tala um fjárlagafrv. og sagði að í fjárlagafrv. væri bara gert ráð fyrir að taka 160 millj. kr. Yfirleitt eru þessi svör með þeim hætti að hv. þm. vita varla hvað þeir heita, hvað þá hvernig þeir eiga að spyrja eða svara og andlitið á þeim verður eins og í kross. Út af fyrir sig má segja að hæstv. heilbrrh. takist þetta stundum allvel eins og þegar hann var að svara gagnrýni minni á lokun Landakotsspítala í fyrra. Þá vék hann óðara að ástandinu eins og það hefði verið að þróast í Sovétríkjunum á undanförnum 50--60 árum. Þetta eru auðvitað snjallar aðferðir en þær leysa engan vanda í málefnalegum umræðum.
    Ég skora á hæstv. heilbrrh. að hætta þessu vegna þess að ef hann heldur áfram á sömu braut og hann hefur að öðru leyti fylgt í þessari umræðu geta menn örugglega komist að einhverri skynsamlegri niðurstöðu og þurfa ekki endilega að fara í kross í framan í hvert skipti þegar hann segir eitthvað hér í þessum ræðustól.