Málefni aldraðra

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 14:53:05 (1373)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að átelja menn fyrir það að vera samkvæmir sjálfum sér. Út af því sem hv. þm. Savar Gestsson sagði hér áðan þá held ég að menn séu að mestu leyti hættir að spyrja í austur. Hins vegar virðast allir vera farnir að svara í vestur. Ég man ekki betur en að í útvarpsumræðum hafi það verið aðalinntakið í ræðu formanns Alþb. að hann var stöðugt að svara í vestur og talaði mikið um Clinton og Gore. En látum það nú vera.
    Ég vil aðeins benda á eitt í þessu sambandi og það er þetta: Ef Framkvæmdasjóður aldraðra væri alfarið bundinn til framkvæmda gæti heilbrrh. ekki nýtt sér að það kynnu að vera til 70 millj. kr. í framkvæmdasjóði umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir til að opna og taka í notkun hluta af Eir, þann hluta sem búið er að byggja. Ef allt fé Framkvæmdasjóðs aldraðra væri alfarið bundið við að fara til fjárfestingar yrði það fé, hvort sem það væri meira eða minna og þó að það væru þessar 70 millj. í viðbót sem

kannski koma í framkvæmdasjóðinn umfram það sem ráð er fyrir gert í fjárlögum, að renna til fjárfestingar. Ég er ekki viss um, raunar síður en svo viss, að það væri betra fyrir gamla fólkið í Reykjavík að við settum 70 millj. kr. meira á næsta ári í steinsteypu en við áformum að gera en ekki væri hægt að taka eitt einasta sjúkrarúm á hjúkrunarheimilinu Eir í notkun. Og ég er líka sannfærður um að ef hv. þm. Svavar Gestsson hugsaði sig um og ætti að velja á milli þess að geta nýtt 70 millj. kr. eða kannski eitthvað meira úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að opna 50 sjúkrarúm á Eir eða hvort nota ætti þessa peninga til að auka enn frekar fjárfestingar í þessum þætti heilbrigðismálanna með meiri steinsteypu, held ég að hv. þm. mundi í mínum sporum velja fyrri leiðina. En það er að sjálfsögðu ekki hægt að gera ef allir fjármunirnir í framkvæmdasjóðnum eru bundnir við fjárfestingar. Sjálfsagt getur hv. þm. svarað þessu í austur þó að ég spyrji í vestur. Ef hann ætti raunverulega að velja veit ég hvernig hann mundi velja og hann veit það sjálfur þótt hann vilji kannski ekki viðurkenna það.