Málefni aldraðra

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 14:55:53 (1374)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kemur ekkert á óvart þó að hæstv. heilbrrh. mundi nota peninga í rekstur ef hann hefði þá. Það er engin frétt og það geri ég ráð fyrir að gildi hér um alla þingmenn. En um það snýst málið ekki heldur allt annað, þ.e. það er verið er að gera tillögu um það að ráðstafa öllum framkvæmdasjóðnum í ríkissjóð, þ.e. í almennan rekstur og draga úr framkvæmdagetu. Það er auðvitað hinn alvarlegi hluti þessa máls og það þýðir ekkert að skjóta sér á bak við afstöðu manna til steinsteypu í þessum efnum til eða frá. Málið snýst ekki um það. Það snýst bara um það að við þurfum fleiri stofnanir fyrir aldraða, því miður. Við þurfum Framkvæmdasjóð aldraðra og það er verið að skapa hættu á því að hann verði allur tekinn í ríkissjóð. Ég bendi á umsögn fjmrn. sem birt er sem fskj. með frv. Hafa menn lesið hana? Þar kemur það greinilega fram hvað fjmrn. ætlar sér að gera fyrir næstu fjárlagagerð. Það ætlar að taka allan sjóðinn í ríkissjóð. Hæstv. heilbrrh. þekkir fjmrn. Ég þekki fjmrn. og ég spái því að hann muni sem heilbrrh., ef honum endist aldur í starfi, sjá eftir því að hafa sleppt frv. svona í gegnum þingið, ef það fer svona í gegn, því þá koma þeir í fjmrn. og taka þetta en setja það ekki í rekstur heilbrigðisstofnana heldur í eitthvað allt annað. Það er hinn alvarlegi þáttur málsins sem við getum ekki skotið okkur á bak við hvort sem við spyrjum í austur eða vestur, norður eða suður, til hægri eða vinstri.