Fylgifrumvörp EES-samnings

33. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 14:58:00 (1375)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Í Morgunblaðinu annaðhvort í gær eða í fyrradag lýsti formaður þingflokks Sjálfstfl. því yfir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið yrði að öllum líkindum samþykktur á hinu háa Alþingi fyrir lok nóvember. Nú liggur það fyrir að í frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið er listi um fskj. yfir fylgifrumvörp með EES-samningnum. Ég hef gert á því litla könnun hver af þessum boðuðu EES-frumvörpum hafi verið lögð fram og hver ekki. Ég sé ekki betur en að 35 frumvörp séu óframlögð. Ekki eitt einasta frv. er komið úr nefnd. Ég vil því spyrja hæstv. forseta: Hvenær er þessara boðuðu frumvarpa að vænta svo að þingið geti um þau fjallað áður en einhverjum dettur í hug að fara að taka sjálfan samninginn til atkvæðagreiðslu? Ég vil ítreka það, hæstv. forseti, að 35 frumvörp hafa ekki verið lögð fram og sé þess óskað skal ég lesa nöfnin á þeim. En ég tel það ekki nauðsynlegt nema þess sé sérstaklega óskað. Ég vil ítreka þá spurningu mína til hæstv. forseta hvort þessi frv. séu á næsta leiti.