Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 14:13:51 (1381)

     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ekki hægt að svara þessum þrettán atriðum sem ég nefndi í stuttu andsvari. Ég skil vel að hv. þm. eigi erfitt með það. Enda kom í ljós að hann skildi ekki það sem ég sagði í veigamiklum atriðum og það er kannski vegna þess að ég hafi tjáð mig mjög óskýrt. Það er spurning hvort hann vill ræða þessi mál við fulltrúa Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Sambands ísl. námsmanna erlendis í stjórn lánasjóðsins, hvort hann vill reyna einu sinni að hlusta á þetta fólk. Allar þessar upplýsingar sem ég er með eru frá því fólki sem starfar meira og minna í Lánasjóði ísl. námsmanna og í lánamálunum með hv. þm. Það væri því fróðlegt fyrir hann einhvern tíma ef hann léti svo lítið að hlusta einu sinni á þetta fólk.
    Varðandi Iðnnemasamband Íslands ætla ég bara að segja þetta: Iðnnemasamband Íslands er ekki bara einhver hópur. Iðnnemasamband Íslands er langsamlega stærstu samtökin innan Bandalags ísl. sérskólanema. og að segja að Iðnnemasambandið hafi farið út með einhverjum hætti, eins og hv. þm. gerði hér, sýnist mér benda til þess að hann hafi ekki sett sig nægilega vel inn í málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna.