Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 14:45:20 (1388)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég tek nú alveg undir það að menn ættu að fara varlega í allan samanburð. En ég ætla að leggja áherslu á að samanburður á námslánakerfum Íslands og annarra landa hefur ekki fyrst og fremst verið vakinn af mér. Þetta hafa menn verið að gera í umræðunni, einkum andstæðingar breytinganna sem ríkisstjórnin gekkst fyrir í fyrra. Og það er enn verið að þessu.
    Ég er hérna með súlurit sem sýnir hvernig námslánakerfið er miklu sterkara hér á landi en í ríkjum Norðurlanda. ( Gripið fram í: Hvaða súlurit er það?) Ég sagði líka áðan og ítreka það að íslenskir námsmenn á Norðurlöndum njóta ýmissar félagslegrar aðstoðar þar alveg eins og íbúar þeirra landa. Svo er samningum milli Norðurlanda fyrir að þakka. Þannig að þótt íslenskir námsmenn séu þar við nám þá sitja þeir við sama borð að því leyti og félagar þeirra á Norðurlöndum.