Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 14:49:34 (1392)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. um Lánasjóð íslenskra námsmanna, tillögur til breytinga á hinni illræmdu 6. gr. laganna. Í umræðunni á sl. vetri börðumst við framsóknarmenn ákaft gegn þessari grein. Við vorum sannfærð um það þá að hún gæti ekki staðist og erum sannfærð um það nú að hún geti ekki staðist, raunar enn sannfærðari en nokkru sinni fyrr.
    Ég þarf því varla að taka fram að við styðjum frv. sem hér er til umræðu sem felur það í sér að afnema þá eftirágreiðslu sem tekin var upp með lögunum og að á ný verði tekin upp framfærslulán en það getur ekki kallast að um framfærslulán sé að ræða í því lánakerfi sem nú er við lýði.
    Það hefur verið að koma í ljós í haust að þessi 6. gr. er enn þá verri en hún leit út fyrir að vera á síðasta vori þegar málið var til umfjöllunar á hv. Alþingi. Það eru nefnilega fleiri á þessum svokölluðu árskúrsum en lögfræðingar í Háskóla Íslands, eins og þá var fyrst og fremst talað um. Það eru ákveðnir árgangar t.d. í hjúkrunarfræði og tannlækningum sem eru á slíkum árskúrsum. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra getur sagt okkur eitthvað frá eða hv. 1. þm. Reykn. hvernig verður tekið á þeim málum.
    Svo er það náttúrlega nám sem stundað er erlendis. Það var talað um það og ég minnist þess að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir orðaði það í vor, þegar málið var til umfjöllunar, að það mætti meta nemendur á miðju ári með tilliti til lána. Hvað hefur verið unnið í þeim efnum? Verður um það að ræða að þeir stúdentar, sem eru við nám erlendis og ljúka aðeins prófi á vorin, verði metnir á miðjum vetri og geti fengið lán eða eru þeir á láni úr bankakerfinu allan veturinn? Fróðlegt væri að fá upplýsingar um þetta. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, þá eru gífurlega mörg atriði komin fram sem eru erfið viðureignar fyrir námsmenn og ég er sannfærð um að síðar í vetur muni þeim fjölga. Það verður ekki fyrr en eftir þessa fyrstu önn eða í upphafi næsta árs sem margir stúdentar átta sig á því hvað málið er alvarlegt. Þeir standa enn í þeirri trú að þeir fái full lán en munu síðan átta sig á því í janúar þegar fyrsta útdeiling verður að þeir standa mjög illa að vígi.
    Sumir hafa verið metnir hærra af sjóðnum í haust en námið gefur í einingum, þá kemur í ljós um áramót að þeir hafa verið á hærri lánum hjá viðkomandi banka heldur en lánasjóðurinn viðurkennir vegna þess að þeir hafa ekki getað tekið allar þær einingar sem þeim ber að gera. Það er ekki boðið upp á þær.

Þannig er það með sumar námsgreinar. Þannig eru ótal mörg vandamál sem þessi 6. gr. leiðir af sér.
    Ég hélt því fram í utandagskrárumræðu um Háskóla Íslands fyrr í haust að það þyrfti ekki að koma hæstv. ráðherra neitt á óvart að nemendum hafi fækkað í háskólanum því til þess hafi leikurinn verið gerður. Sannleikurinn er sá að þessi nýju lög leiða í sjálfu sér ekki af sér sparnað fyrir sjóðinn að öðru leyti en því að nemendum fækkar. Þetta lét hæstv. ráðherra á sér skilja í umræðunni í fyrra að væri tilgangurinn. Svo ég held hann ætti bara að kannast við það.
    Nú ætla ég ekki að halda því fram að það hafi ekki gerst á Íslandi að fólk hafi farið í háskólanám sem ekki hafi átt þangað erindi. Ég er alveg sannfærð um að það hefur gerst. En það og hitt að sjóðurinn hefur verið misnotaður í einhverjum mæli má ekki verða til þess að því fólki, sem er við nám, sé gert svona óskaplega erfitt fyrir eins og 6. gr. gerir.
    Ég held að þau tilfelli séu til þar sem þessi grein kemur ekki að sök og þar á ég sérstaklega við þá einstaklinga sem búa við þá sérstöðu að geta búið á heimili foreldra sinna og greitt kannski lítið heim til sín og notað lánið fyrst og fremst sem vasapening. Það má bjóða því fólki ýmislegt og það er engin ástæða til að hafa meðaumkun með því. En þar sem ég kem af landsbyggðinni og þekki fyrst og fremst fólk af landsbyggðinni sem er í námi þá veit ég hvað það er gífurlega mikill kostnaður sem þetta fólk þarf að leggja út í til að geta farið í nám. Það er ekkert ódýrt að vera á leigumarkaðinum hér í Reykjavík og þetta leiðir fyrst og fremst af sér að landsbyggðarfólk og konur munu hætta í námi.
    Þetta fer kannski að hafa áhrif á það, ásamt mörgu öðru, hvar fólk velur sér búsetu. Fólk fer kannski að taka það líka með í reikninginn að það verði að búa þar sem háskólarnir eru ef það hefur metnað fyrir hönd sinna barna að það væntir þess að þau fari í háskólanám og þá má ekki gleyma því að það eru háskólar víðar en í Reykjavík, það er háskóli líka á Akureyri sem við vonum að muni vaxa og eflast.
    Það hefur verið bundin ákveðin von við Alþfl., að hann muni koma og bjarga þessari 6. gr. og skal ég ekki gera lítið úr því. Það er kannski sama hvaðan gott kemur. En ég get alveg eins gert mér vonir um að hæstv. ráðherra taki sönsum í þessu máli og beiti sér fyrir breytingu. Ég vil leyfa mér að höfða til þeirra skilningarvita og þroska sem ég trúi að hann hafi til að bera og að hann átti sig á því, ef ekki nú þegar þá síðar í vetur, að þessari grein verður að breyta.
    Hann sagði áðan að það væri ótímabært að leggja þetta frv. fram. Ég tel að svo sé ekki en það má vel vera að það verði ekki fyrr en seinni partinn í vetur sem öll spilin liggja á borðinu.
    Ég vil að síðustu, hæstv. forseti, vegna þess að fyrr í haust, þegar málefni háskólans voru tekin fyrir utan dagskrár, þá var hæstv. menntmrh. svo hneykslaður á mínum orðum að hann mátti vart mæla. Ég hélt því fram að hann hefði ekki staðið við það sem hann sagði í umræðunni í fyrra að það yrði lánað fyrir skólagjöldum og vaxtakostnaði sem nemendur yrðu fyrir vegna lána í hinu almenna bankakerfi.
    Sannleikurinn er sá samt sem áður, hæstv. ráðherra, ef við tökum Háskóla Íslands þar sem skólagjöld eru um liðlega 22.000, reyndar ekki nema 17.000 sem sjóðurinn metur sem skólgjöld, þá er lánað fyrir því sem er umfram 15.000. Ég kalla það ekki að lána fyrir skólagjöldum þegar lánað er fyrir þessum 2.000 kr.
    Um vaxtakostnaðinn er það að segja að þar er ekki lánað fyrir öllum vaxtakostnaði. Það er kannski hámark 80% og meðan ekki er lánað fyrir öllum vaxtakostnaði þá get ég ekki sagt að lánað sé fyrir vaxtakostnaði, þannig að ég held að hæstv. ráðherra hefði ekki átt að taka þessu svona óskaplega illa þegar ég sagði --- ( Menntmrh.: Sagði ég í vor að það yrði að lánað fyrir öllum vaxtakostnaði?) Hvernig metur hæstv. ráðherra --- metur hann það svo að hægt sé segja að lánað sé fyrir skólagjöldum þegar lánaðar eru 2.000 kr.? ( Menntmrh.: Ég var að tala um vaxtakostnaðinn.) Ég skil það alveg eins með vaxtakostnaðinn eins og með skólagjöldin, að þegar ráðherra segir að það verði lánað fyrir þessu þá skil ég það svo að það sé verið að tala um alla upphæðina. Það má kannski túlka það á ýmsa vegu og ég heyri að hæstv. ráðherra gerir það.
    Ég vil að síðustu segja það að við framsóknarmenn eða ég, sem fulltrúi Framsfl. í hv. menntmn., gekk það langt meðan málið var til umfjöllunar í nefndinni í fyrra að ég bauðst til þess að beita mér fyrir því að Framsfl. styddi frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna ef þessi illræmda 6. gr. yrði tekin út eða henni stórbreytt og vextirnir líka. Það getur vel verið að það hefði mátt ná samkomulagi við okkur, ég útiloka það ekki, ef hæstv. ríkisstjórn hefði fallist á það að breyta 6. gr., að við hefðum við tilbúin að fallast á 1% vexti af því við sáum það þá að 6. gr. gat ekki gengið. Það er sannfæring mín enn þann dag í dag og þess vegna styð ég þetta frv. sem hér er til umræðu.