Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 15:01:18 (1393)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Til umræðu er frv. til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna flutt af þingmönnum Alþb. En eins og fram hefur komið snýst þetta frv. fyrst og fremst um 6. gr. laganna, þ.e. það sem við kölluðum í umræðunni í vor eftirágreiðslurnar, og síðan er lagt til að heimildin til þess að taka lántökugjöld falli niður.
    Nú er það svo, eins og menn minnast, að við stjórnarandstæðingar höfðum mjög margt við það frv. að athuga sem samþykkt var sl. vor og við vörpuðum margsinnis fram þeim spurningum, hvaða áhrif þær breytingar mundu hafa á námsmenn og á framtíð menntakerfisins á Íslandi.

    Það er oft haft við orð í hátíðarræðum hversu mikilvæg menntun sé fyrir þjóðfélagið og hver nauðsyn sé á því að styrkja íslenska menntakerfið og skólakerfið og við höfum lengi haldið að skólakerfi okkar væri þokkalega gott. En því er ekki að neita að á síðustu árum hafa þeir atburðir gerst, ekki síst eftir að núverandi ríkisstjórn komst til valda, að stjórnin virðist vera að snúa blaðinu við með sinni niðurskurðarstefnu í menntakerfinu. Við hljótum enn og aftur að spyrja: Hver er menntastefna þessarar ríkisstjórnar? Því ég fæ ekki betur séð en hæstv. menntmrh. gangi fremstur í flokki þeirra sem jafnvel bjóðast til þess að skera niður.
    Hæstv. menntmrh. gat þess í sínu máli hver nauðsyn hefði verið á því að grípa í taumana hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna þar sem allt var að fara úr böndunum að hans mati. Það verður auðvitað að horfa á þetta mál í samhengi við það sem hefur verið að gerast í íslenska menntakerfinu. Það vill nú svo til að á undanförnum tíu árum hefur námsmönnum á framhaldsskólastigi fjölgað mjög mikið. Reistir hafa verið framhaldsskólar úti um allt land og það hefur verið yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda að beina æskufólki inn í framhaldsskóla landsins. Það hlaut að leiða af sér að æ fleiri færu í framhaldsnám. Þess vegna hlaut afleiðingin að verða sú að umsóknum um lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna fjölgaði. En það er eins og íslensk stjórnvöld eigi ákaflega erfitt með að horfa til framtíðar og séu jafnvel undrandi þegar námsmönnum fjölgar eða fækkar á einhverju skólastiginu þó það ætti að vera hægt að ráða það af samhenginu hver þróunin verður.
    Ég gat þess áðan að menn væru stundum hátíðlegir í máli þegar menntakerfið ber á góma og ég man ekki betur en hæstv. forsrh. hafi getið þess í sinni stefnuræðu að það ætti að efla menntakerfið og ekki síst framlög til rannsókna og vísinda. Þá minnist ég þess að í frv. til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna var þess getið að á móti niðurskurðinum, á móti breytingunum ætti m.a. að efla Vísindasjóð. Það ætti að koma til móts við þá sem væru í framhaldsnámi og doktorsnámi með því að reyna að efla styrkjakerfið. Svo líða mánuðirnir og fram er lagt frv. til fjárlaga fyrir árið 1993. Ég var að glugga í það og leitaði sérstaklega eftir því hvar hin glæstu framlög til vísinda og rannsókna væri að finna, hvar ríkisstjórnin standi við orð sín og fyrirheit í frv. um að efla Vísindsjóð. Jú, framlög til Vísindasjóðs hækka úr 20 millj. í 25 millj. Þar á móti kemur svo framlag úr Seðlabankanum. Þetta eru efndirnar hjá ríkisstjórninni til vísinda- og rannsóknastarfsemi í landinu.
    Ríkisstjórnin hefur einnig heitið því að leggja sérstaklega peninga fram til rannsókna en það er sama markinu brennt, það framlag er bundið því að það takist að selja ríkiseignir. Ef við lítum á hin miklu áform ríkisstjórnarinnar um að selja eignir ríkisins og afla þannig peninga þá tókst ekki betur til en svo að á þessu ári hefur tekist að selja ríkiseignir fyrir 500 millj. en stóð til að selja fyrir milljarð. Næsta ár ætlar ríkisstjórnin að selja fyrir 1,5 milljarða og hluta af því sem inn kemur verður varið til rannsókna og vísindastarfsemi. Í ljósi þess samdráttar, sem spáð er á næsta ári, hlýtur maður að efast um að ríkisstjórninni takist að selja þessar eignir sem hún ætlar að verja hluta af fjármunum sem inn koma við sölu til vísindastarfsemi. Þannig að þetta er allt sama markinu brennt. Þessi áform eru öll jafnóljós og þessi fyrirheit virðast að engu orðin.
    En mergurinn málsins í þessari umræðu og ástæðurnar fyrir þeim breytingum, sem hér er verið að leggja til með frv. til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, er auðvitað sú reynsla sem þegar er fengin af breytingunum á lögunum um lánasjóðinn. Það fór eins og okkur grunaði því miður að þessar breytingar mundu fyrst og fremst bitna á konum.
    Það átti sér stað umræða fyrir nokkrum vikum um þær niðurstöður sem þá voru fram komnar hjá lánasjóðnum. Þá lét formaður menntmn. þau orð falla að þær tölur sýndu best hvað íslenskir námsmenn væru raunsæir og jarðbundnir. Það eru þá væntanlega ungar íslenskar konur sem eru svona jarðbundnar og raunsæjar. En staðreyndin er sú að konum hefur fækkað mun meira í námi en körlum og samkvæmt nýskráningum við Háskóla Íslands hefur konum fækkað um 30% en körlum um 17%. En það segir í samantekt Þorsteins Þorsteinssonar, sem er fulltrúi Stúdentaráðs í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna, að engin fækkun sé enn komin fram meðal karlkyns lánþega hjá LÍN. Það er því alveg ljóst, eins og auðvitað mátti sjá fyrir, að þessar breytingar mundu fyrst og fremst bitna á konum. Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Það eru auðvitað fyrst og fremst eftirágreiðslurnar sem gera námsmönnum mjög erfitt fyrir hvort sem þeir eru karlar eða konur. Við kvennalistakonur höfum fengið upphringingar frá konum sem hafa bæði verið að lýsa þeirri stöðu sem þær hafa lent í gagnvart börnum sínum vegna þess að þær eru ekki metnar hjá bönkunum, þær teljast ekki gildir pappírar hjá bönkunum þegar þær ætla að fara að skrifa upp á lán barnanna sinna. Við höfum fengið upphringingar frá ungum konum sem hreinlega treysta sér ekki til þess að halda áfram námi eða fara út í nám vegna þeirra breytinga sem hér hafa átt sér stað. Það er því ekki nokkur vafi að þessar breytingar hafa sett ungu fólki og sérstaklega ungum stúlkum stólinn fyrir dyrnar. Það er ekki nokkur vafi. Um það höfum við allmörg dæmi. Þar á móti koma svo þær ákvarðanir sem stjórn lánasjóðsins hefur tekið um niðurskurð á lánunum, t.d. varðandi barnastuðulinn og svigrúm vegna veikinda námsmanns, námsframvinduna og fleira sem auðvitað gerir fjölskyldufólki erfiðara fyrir en ella.
    Hæstv. menntmrh. var í samanburði við Norðurlönd, en eins og fram hefur komið í umræðunni er mjög erfitt að bera saman íslenska kerfið og Norðurlöndin vegna þess að þetta eru ólík kerfi. Á Norðurlöndunum hefur verið lögð miklu meiri áhersla á námsstyrki en hér. Ég vil halda því fram að okkar lánakerfi eins og það var hafi verið með því allra besta sem þekktist í heiminum, en því miður hefur það versnað. Aðstaða námsmanna hér á landi hefur versnað. Því er ekki hægt að neita.
    Menntmrh. nefnir það oft hve staðan hafi verið orðin erfið hjá lánasjóðnum. En þetta er allt saman spurning um það í hvað við verjum fjármunum ríkisins. Hver er forgangsröðin? Er betra að veita peningum í atvinnuleysisbætur og láta ungt fólk ganga hér um göturnar án þess að hafa vinnu? Er það betri kostur en að styrkja fólk til náms og veita ungu fólki einhverja möguleika til þess að afla sér tekna í framtíðinni, því vonandi eru það tímabundnir erfiðleikar sem íslenskt þjóðfélag er að ganga í gegnum? Ég ítreka þá skoðun okkar kvennalistakvenna, sem við settum fram í vor, að það væri réttlætanlegt að verja fjármunum ríkisins til menntamála og til lánasjóðsins og það væri betri kostur en ýmislegt annað sem ríkisstjórnin setur ofar á blað.
    Í þessu samhengi er auðvitað ekki hægt annað en að nefna hvernig ríkisstjórnin saumar að Háskóla Íslands. Það kemur fram í fjárlögunum, sem reyndar verða til umræðu á morgun, að t.d. Háskólinn á Akureyri fær aukin framlög og ég fagna því vissulega. Það er vaxandi skóli og þar er verið að bjóða upp á nýjar námsleiðir. En það breytir ekki þeirri staðreynd að staða Háskóla Íslands er orðin afar erfið. Þar standa menn frammi fyrir því að verða hreinlega að fara að taka ákvarðanir um einhvers konar takmarkanir inn í skólann. Menn hljóta að verða að setja gæði námsins númer eitt. Menn verða auðvitað að veita þá menntun sem nauðsynleg er og sambærileg því sem gerist í háskólum annars staðar. Ríkisstjórnin er einfaldlega að neyða Háskóla Íslands út í aðgerðir sem ég held að flestum sé á móti skapi.
    Háskólinn hefur þann möguleika að leita lagaheimilda, bæði til þess að takmarka aðgang að skólanum og væntanlega einnig til þess að hækka skólagjöld. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Er það ætlunin, er það til umræðu að hækka skólagjöld við Háskóla Íslands? Er skólanum ætlað að afla sér aukinna tekna með þeim hætti?
    Að mínum dómi hljótum við að tengja þetta tvennt saman. Háskóli Íslands er langsamlega stærsti skólinn á háskólastigi hér á landi, þó þeir skólar séu orðnir nokkuð margir, og sá skóli sem býður fram langsamlega fjölbreyttast nám. Að mínum dómi speglar hann býsna vel þau áhrif sem breytingarnar á lánasjóðnum hafa haft. Þær eru einmitt að nemendum í greinum eins og hjúkrunarfræði, íslensku, tungumálum, uppeldis- og kennslufræði og jafnvel viðskiptafræði, hefur fækkað. Maður hefði haldið að viðskiptafræðin væri enn meðal hinna vinsælu greina en þar er líklega komið fram offramboð miðað við ástandið í þjóðfélaginu. Þar kemur það fram sem við spáðum að nemendum mundi fækka í þessum greinum sem því miður bjóða fólki upp á lág laun að námi loknu og það er ekki annað en eðlilegt að fólk reikni dæmið og reyni að átta sig á því hvort hægt sé að standa skil á námslánunum eftir að námi lýkur. Eins og fram kom í útreikningum sáu t.d. hjúkrunarfræðingar fram á það að vera langt fram eftir ævi, ef ekki fram á grafarbakkann, að greiða námslánin niður. Þetta er auðvitað heldur óæskileg staða.
    Í vor var hér mikil og heit umræða um þetta mál og Alþfl. átti í miklum erfiðleikum með það og er ekki að furða. Jafnaðarmannaflokkur Íslands, ungir jafnaðarmenn sendu þingmönnum sínum miklar áskoranir og ef ég man rétt var samþykkt á flokksþingi Alþfl. snemma sumars að lánasjóðsmálið yrði skoðað rækilega þegar þing kæmi saman. En það bólar lítið á niðurstöðum þeirrar skoðunar ef hún er farin í gang. Því er það ekki að furða að stjórnarandstæðingar grípi til sinna ráða til þess að ýta á þetta mikilvæga mál, því þegar allt er skoðað þá stöndum við frammi fyrir því að tilgangurinn hefur að hluta til náðst hjá ríkisstjórninni sem var auðvitað sá að fækka umsóknum um lán hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Það var tilgangurinn. En það er gert með þeim hætti að ungu fólki er gert ókleift að stunda nám eða menn geta ekki valið það nám sem þeir vilja stunda, sjá ekki fram á að geta borgað lánin. Þar með er auðvitað verið að setja upp þröskulda sem gera fólki erfiðara að ákveða sína framtíð. Þar af leiðandi hefur verið dregið úr jafnrétti til náms á Íslandi. Það markmið að allir ættu kost á að fara í það nám sem þeir vildu og eiga möguleika á því að borga upp lánin að svo miklu leyti sem þess er krafist er ekki lengur til staðar, því miður.
    Það er svo sem ekki mikið meira um þetta mál að segja. Ég sit í menntmn. og þar munum við að sjálfsögðu skoða þetta mál. Það hefur komið fram í máli ráðherrans að hann telur ekki mikla þörf á því að breyta þessum lögum, en ég lýsi yfir stuðningi mínum við frv. sem hér er til umræðu. Mín skoðun er sú að því fyrr sem jafnrétti til náms kemst á aftur, að svo miklu leyti sem slíkt er yfir höfuð hægt, þeim mun betra fyrir ungt fólk í þessu landi. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sé miklu mun vænlegra fyrir íslenskt samfélag að efla skólakerfið og halda ungu fólki í námi frekar en það gangi atvinnulaust um götur.