Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 15:21:41 (1395)


     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eitt er umsækjendur um lán hjá Lánasjóði ísl. námsmanna, annað er þeir sem stunda nám í skólum landsins. Eins og formaður stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna veit mætavel þá sækja ekki nærri því allir námsmenn um lán. Innritunartölur frá Háskóla Íslands bera það með sér að nemendum hefur fækkað um um það bil 500 --- þetta eru kannski ekki allra nýjustu tölur. Það eru tölurnar sem koma fram í fjárlagafrv. sem ég styðst við þegar ég nefni töluna 500. Í þeim gögnum sem voru lögð fram á blaðamannafundi Háskóla Íslands 8. sept. 1992 kemur fram að á undanförnum árum hafa konur sótt mjög í sig veðrið við Háskóla Íslands. En það segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Athygli vekur að fækkunin kemur mun meira fram hjá konum en körlum. Í fyrra voru 59,1% nýnema konur en eru nú 54,9%.`` --- Og svo segir hér í framhaldinu: ,,Konur urðu fyrst fleiri en karlar í háskólanum árið 1986 og hefur hlutfall þeirra vaxið jafnt og þétt síðan þá uns nú verður breyting.``
    Þessa breytingu rek ég fyrst og fremst til þess sem gerðist í vor þegar ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna.