Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 15:45:54 (1404)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir sérstakri ánægju að það er upplýst að hæstv. menntmrh. muni heiðra þingið með nærveru sinni meðan þessi umræða fer fram og það er í sjálfu sér mjög jákvætt. Fjarvistir hans í haust hef ég ekki kynnt mér og ætla ekki að ræða frekar um þá stöðu mála. En mér sýnist að það liggi ljóst fyrir að þessi umræða muni snúast fyrst og fremst um félagslegt réttlæti og ég vil bera fram þá frómu ósk, af því ég er á mælendaskrá, hvort hugsanlegt sé að hæstv. félmrh. þessa lands muni heiðra þingið með nærveru sinni sé þess óskað. Mér er ljóst að það er í sjálfu sér ekki hægt að gera þá kröfu fram yfir almenna þingskyldu og ber þessa ósk fram. Ég mun að sjálfsögðu taka því á hvorn veg sem það fer.