Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 18:05:45 (1408)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Frv. sem hér er til umfjöllunar um breytingu á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð ísl. námsmanna, og er flutt af alþýðubandalagsmönnum er að mínu viti mjög þarft, ekki síst á þessari stundu vegna þess að það er sífellt að koma fram það sem stjórnarandstaðan og námsmenn sögðu við afgreiðslu málsins í vor, að frv., sem þá var samþykkt sem lög frá þinginu, hafði marga mjög mikla annmarka og hefur komið námsmönnum mjög illa.
    Það var hins vegar dálítið erfitt fyrir stjórnarandstæðinga að sitja undir þeim fullyrðingum hv. 1. þm. Reykn., formanns stjórnar lánasjóðsins, sem talaði áðan, að málflutningur stjórnarandstæðinga einkenndist af algjöru ábyrgðarleysi. Þetta er rangt, hv. þm. Það er mikill munur á ábyrgðarleysi annars vegar og skemmdarverkastarfsemi hins vegar. Stjórnarandstaðan í heild talaði þannig í vor í sambandi við frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna, og það gerðu námsmenn einnig, að hún lýsti sig tilbúna til samvinnu við ríkisstjórnina um breytingar á þáverandi lögum um námslán og námsstyrki sem voru frá 1982 sem hefðu það í för með sér að endurheimtuhlutfall lánanna yrði hækkað. Það er þess vegna útilokað fyrir stjórnarandstöðuna og námsmenn að sitja undir því að þetta sé allt saman ábyrgðarleysi. Það er hins vegar, eins og ég segi, munur á því hvort menn eru að tala um ábyrgðarleysi eða hreina skemmdarverkastarfsemi. Það var hrein skemmdarverkastarfsemi af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig hún gekk fram í að ná fram breytingu á þessu námslánafyrirkomulagi sem þjóðarsátt var um. Sú sátt myndaðist 1982 þegar aðilar vinnumarkaðarins, námsmenn og allir stjórnarflokkarnir sem fulltrúa áttu á Alþingi náðu saman um að gera breytingu á þeim lögum sem í gildi voru frá 1976. Menn komu fram með frv. 1982 og fékkst samstaða um það á þingi.
    Það er sífellt að koma í ljós að reynslan af núgildandi lögum og spár hinna svartsýnustu um það hvaða áhrif þessi lög hefðu er því miður að koma fram. Það eru færri innritanir í Háskóla Íslands, því verður ekki á móti mælt. Um leið leita færri námsmenn eftir aðstoð lánasjóðsins.
    Ég gat ekki betur skilið en hv. 1. þm. Reykn. væri bara ánægður með þetta, að þetta væri það sem hefði þurft að gerast. En það sem er verst er að námsmenn þurfa að búa við mikla óvissu. Hvernig verður aðstoð lánasjóðsins við námsmenn háttað? Það er ekki bara niðurskurður á framlögum til lánasjóðsins, það er almennur niðurskurður til menntamála, til þess málaflokks þar sem grundvöllur framfaranna og þekkingarinnar í landinu á að vera. Einmitt á þeim tíma þegar menn þurfa á því að halda að ýta undir þekkingarleitina og framfarirnar þegar atvinnuleysið hefur náð tökum á okkur, þá skera menn niður.
    Þetta frv., sem hér er til umfjöllunar, fjallar auðvitað bara um einn þátt þessa stóra máls sem er breytingin sem varð á 6. gr. laganna. Það mál allt saman var auðvitað miklu meira en grundvallarbreyting á lögunum. Sú lagabreyting var hrein skemmdarverkastarfsemi af hálfu ríkisstjórnarinnar því þar voru menn í raun og veru að reyna að sýna fram á tilbúinn sparnað í lánasjóðnum sem yrði til með þessari lagabreytingu með því að fresta greiðslum. Útgjöldin munu í raun aukast og það má auðvitað hártoga þau ummæli hæstv. menntmrh. við umræðurnar í vor þegar hann hélt því fram að lánað yrði fyrir vöxtunum. Nú er spurning hvort hann hafi sagt að það skyldi að fullu lánað fyrir vöxtunum. Þetta eru auðvitað hártogarnir og að mínu viti skildi enginn hv. þm. það öðruvísi en svo en að hæstv. ráðherra væri að tala um að lánað væri að fullu fyrir vöxtunum. En hvað þýðir það? Á það var bent hér í umræðunni. Hvað þýðir það, hæstv. menntmrh., að lána að fullu fyrir vöxtunum? Ég er ekki að gera lítið úr því. Það er mjög mikilvægt og alveg nauðsynlegt fyrst menn settu vextina á á annað borð. Það þýðir að menn eru að taka lán fyrir lánasjóðinn með kannski 6, 7, 8 upp í 10% vöxtum til þess að fjármagna síðan þau viðbótarlán sem koma út af þeim lánum sem námsmenn hafa tekið í bönkunum en þau eru lánuð út með 1% vöxtum. Þetta þýðir, þegar til lengri tíma er litið, aukin útgjöld fyrir sjóðinn. Og af hverju eru menn að fara út í slíkt einmitt á sama tíma og verið er að tala um að nauðsynlegt sé að spara fyrir sjóðinn? Svona er þetta mál, því miður, að mörgu leyti vaxið og alls ekki hugsað til enda. En 6. gr. og sú breyting, sem hér er mælt fyrir, er náttúrlega fyrst og fremst bara tillaga um breytingu á því sem ég hef kallað skemmdarverkastarfsemi og er náttúrlega fyrst og fremst fautaskapur gagnvart námsmönnum.
    Allt hitt sem gert var, og það skiptir höfuðmáli líka, var að gerð var grundvallarbreyting á þeirri hugsun sem samstaða hefur verið um með þeim lögum sem í gildi voru frá 1982. Það er hætt að taka tillit til aðstæðna námsmanna meðan á námi stendur. Það er ekki lengur reynt samkvæmt þessum lögum að jafna aðstöðu manna til náms eins og gert var ráð fyrir með lögunum 1982. Núna eru vextir á námslánum en um það var alger samstaða milli allra flokka á Alþingi og milli námsmanna og ríkisvaldsins að ekki skyldu settir vextir á námslánin.
    Endurgreiðsluhlutfallið skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli, að allt saman sé endurgreitt sem sjóðurinn lánar út og það var það sem stjórnarandstaðan bauð samninga um við ríkisstjórnina, það var það sem námsmenn buðust til að semja um við ríkisstjórnina, að hver einasta króna sem lánuð væri út frá lánasjóðnum skyldi að fullu endurgreidd. Það voru þessi tilboð og það voru þessir samningar sem ríkisstjórnin kærði sig ekkert um að eiga hvorki við námsmenn né stjórnarandstöðuna af þeirri ástæðu að það átti að ná fram nú í eitt skipti fyrir öll grundvallarbreytingum á því fyrirkomulagi sem í gildi hefur verið um námslán og námsstyrki í landinu. Og eins og allir vita, og það veit ég að hæstv. menntmrh. sennilega veit manna best, verður auðvitað ekki hægt að búa við þessi lög til langframa. Það getur vel verið að menn geti sett undir sig hausinn og þumbast áfram í einhvern tíma og sagt: Þetta er allt í stakasta lagi, við skulum halda þessu svona. En það verður að gera breytingar á þessu og það veit ég að hæstv. menntmrh. skilur manna best.
    Ég mun í þessari viku ásamt fleiri þingmönnum og þingmönnum úr öðrum flokkum leggja til í till. til þál. að fram fari endurskoðun á lögunum um námslán og námsstyrki. Ég veit að hæstv. menntmrh. hefur hafnað því að slík endurskoðun fari fram, a.m.k. á meðan ekki er ljóst hver reynslan er af þessum lögum sem nú eru í gildi. En það er alveg útilokað annað en að Alþingi grípi inn í og ákveði að fram fari endurskoðun á lögunum með tilliti til þess hver reynslan er á þeim stutta tíma sem liðinn er og með tilliti til þess hvaða tillögur hafa komið fram bæði frá námsmönnum og eins frá stjórnarandstöðunni um breytingar. Í þeirri nefnd þurfa að eiga sæti fulltrúar námsmanna og fulltrúar allra þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á þinginu vegna þess að það er mjög mikilvægt að um þetta mál geti skapast þjóðarsátt eins og myndaðist um lögin frá 1982.
    Viðhorf þessarar ríkisstjórnar og starfsaðferðir hennar lýsa sér auðvitað mjög vel í því sem við erum sífellt að verða meira og meira vör við að ríkisstjórnin er í því í raun að elta uppi ákveðna hópa í þjóðfélaginu, skattleggja þá alveg sérstaklega með svokölluðum þjónustugjöldum og skera niður við aðra. Það eru sjómennirnir, það eru ellilífeyrisþegarnir, það eru öryrkjarnir, það eru sjúklingarnir en sennilega er þó engin stétt og enginn þjóðfélagshópur sem hefur orðið fyrir öðrum eins árásum af hálfu þessarar ríkisstjórnar og námsmenn. Breytingarnar á lögunum um lánasjóðinn er fyrsta dæmið um slíkt.
    Á sama tíma og framlög til lánasjóðsins og námslán eru stórlega skert þá finnst þessari hæstv. ríkisstjórn alveg sjálfsagt að hækka skólagjöldin við háskólann úr 7.000 kr. í 22.350 kr. Á sama tíma vantar háskólann 130 millj. kr. til þess að geta sinnt hlutverki sínu. Á sama tíma eru menn að tala um að taka upp virðisaukaskatt á bækur sem námsmenn eiga að bera og tillaga er komin fram um það hjá íhaldsmeirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur að í lagi sé að hækka barnaheimilisgjöldin við námsmennina. Því var reyndar frestað. En ef menn velta fyrir sér þeirri meðferð sem á sér stað á einum þjóðfélagshópi og af hálfu einnar ríkisstjórnar og það allt á sama árinu, hvernig halda menn þá að hægt sé fyrir einn þjóðfélagshóp eins og námsmenn að standa undir slíkum álögum og ég tala nú ekki um ef það gengur eftir að

virðisaukaskatturinn verði settur á bækur?
    Það sem hefur komið mér einna mest á óvart í þessari umræðu er hvað hæstv. menntmrh. er þó ánægður með þetta allt saman. Það kom mér dálítið á óvart í ræðu hans áðan hvað hann er í sjálfu sér ánægður með allt sem þarna hefur gerst, sérstaklega hvað lánasjóðinn varðar. Hann sagði að vextirnir á námslánin væru nú bara 1%, þetta væri nú sama og ekki neitt, raunvextir væru miklu, miklu hærri. Það er alveg hárrétt. Hins vegar er ekki mjög langt í það, því spái ég, ef þessir ríkisstjórnarflokkar, sem nú mynda ríkisstjórn halda áfram að starfa lengur saman, að vextirnir í lánasjóðnum verði orðnir jafnháir og raunvextir eru almennt í bankakerfinu. Það þarf engum að koma á óvart og er í raun og veru rökrétt á meðan ríkisstjórnin heldur þeirri stefnu til streitu sem hún hefur haft og á meðan stjórn lánasjóðsins heldur þeim vinnubrögðum sínum áfram sem hún nú beitir, þ.e. að hækka frítekjumarkið sem ég kalla, þ.e. að taka minna tillit til tekna en áður hefur verið gert. Það leiðir til þess að fleiri og fleiri námsmenn komast inn í lánasjóðinn og geta tekið þar fjármuni að láni með 1% vöxtum. Þegar svona er opnað fyrir allan fjöldann og fjármunirnir, sem lánasjóðurinn hefur til ráðstöfunar --- og það ætti nú enginn að vita betur en formaður stjórnar lánasjóðsins og hæstv. menntmrh. --- eru takmarkaðir, og ef fleiri og fleiri sækja í þessa takmörkuðu fjármuni, þá er minna til skiptanna fyrir þá sem þurfa raunverulega á aðstoð að halda. Og ætli menn að halda þessu fyrirkomulagi við lýði til lengdar þýðir það að útgjöldin munu aukast, ef menn ætla að standa undir því nafni að þetta sé lánasjóður fyrir námsmenn sem á að aðstoða við framfærsluna, eða menn þurfa að hækka vextina til þess að fæla þá frá að sækja um lán sem raunverulega þurfa ekki á láni að halda. Því að meðan vextirnir eru lægri í sjóðnum og sjóðurinn er öllum opinn þá sækir fólk auðvitað inn í sjóðinn sem ekki þarf á aðstoð að halda og tekur þar lán með 1% vöxtum en fjárfestir auðvitað í allt öðru og aflar sér þannig tekna og þá hefur þetta hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna algerlega snúist við. Ég trúi því ekki að það hafi verið ætlun manna í upphafi að ganga þessa braut. En svona mun þetta því miður fara haldi menn þessu til streitu sem nú hefur verið unnið að á vegum stjórnarinnar.
    Ég trúi því, þó svo hæstv. menntmrh. sé afskaplega ánægður með hvernig til hefur tekist í málefnum lánasjóðsins, að hann sé kannski ekki eins ánægður með allt sem hefur verið að gerast í menntamálunum. Niðurskurðurinn við Háskóla Íslands er náttúrlega glöggt dæmi um á hve hættulegri braut við erum í raun og veru haldi menn þessari stjórnarstefnu til streitu.
    Ég ætla út af þessu að vitna hér að lokum í orð og grein eftir Pétur Þ. Óskarsson, formann Stúdentaráðs Háskóla Íslands, sem hann skrifaði í Dagblaðið í dag þar sem hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Það haustar í Háskóla Íslands. Vegna niðurskurðar hefur fimmtungur allrar kennslu verið lagður niður, 160 námskeið. Þetta jafngildir því að leggja af alla kennslu í lagadeild og viðskipta- og hagfræðideild.`` Bara með þessum niðurskurði. Þrátt fyrir þetta hefur ríkisstjórnin hækkað skólagjöldin í háskólanum úr 7.000 kr. í 22.350 kr. Þegar ég segi að ríkisstjórnin hafi gert slíkt, þá var háskólaráð knúið til slíkra aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þetta gerist á sama tíma og háskólann vantar 130 millj. kr. til að geta verið með sömu starfsemi og var árið 1991. Ég trúi því ekki að hæstv. menntmrh. gleðjist yfir þessum hlutum þó hann geti verið ánægður með það í augnablikinu að sýna takmarkaðan sparnað sem er þó þegar upp er staðið raunverulega enginn sparnaður en sést aðeins í eitt ár á fjárlögum eða í fjárlagafrv. Sennilega mun þetta, vegna aðgerða stjórnar lánasjóðsins og aðgerða hæstv. menntmrh. og framkvæmd laganna, leiða til þess að útgjöldin munu frekar aukast þegar fram líða stundir heldur en hitt. Þá kunna menn auðvitað að segja sem svo: Ja, eru þá stjórnarandstæðingar ekki ánægðir með slíkt ef útgjöldin til lánasjóðsins munu bara aukast? Ég segi fyrir mig að ég er það alls ekki af þeirri ástæðu að það skiptir höfuðmáli til hvaða námsmanna aðstoðin, sem lánasjóðurinn veitir, fer og með hvaða hætti hún er. Það er auðvitað höfuðatriði að þeir njóti aðstoðar lánasjóðsins sem þurfa á aðstoð hans að halda en ekki þeir sem raunverulega þurfa ekki á aðstoðinni að halda.