Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 18:29:19 (1411)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er, eins og hér hefur réttilega komið fram, einungis tilraun til að lagfæra þann þátt sem snýr að námsmönnum núna. Eftir er auðvitað, eins og hv. 11. þm. Reykv. sagði, að leiðrétta ýmislegt fleira sem samþykkt síðustu laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna hafði í för með sér svo sem endurgreiðslufyrirkomulagið sem sýnt er nú þegar að veldur fólki stórkostlegum vandræðum eins og við reyndar vöruðum við í fyrra en töluðum fyrir daufum eyrum.
    Það er búið að ræða hér í dag ýmislegt sem ástæðulaust er að endurtaka, mál sem við þekkjum öll, verulega skerðingu á öllum kjörum íslenskra námsmanna sem auðvitað hefur í för með sér fækkun námsmanna. Ég ætla því aðeins að víkja að öðru en því sem blasir við hverri fjölskyldu sem í þessu lendir og þær eru ekki fáar, víkja aðeins að því sem er að gerast í menntakerfi landsins.
    Ég á sæti eins og hv. þm. vita í fjárln. Alþingis og á sama tíma og menn segja án þess að depla auga að að efla beri rannsóknir í landinu er verið að skera niður grunnskólakerfið. Það er verið að skera niður framhaldsskólakerfið. Það er verið að skera niður alla verkmenntun í landinu. Því er haldið áfram þrátt fyrir að hér var tekin upp umræða fyrir örfáum árum um það vandamál hvernig komið er fyrir allri handmennt í grunnskólanum. Í kjölfar hennar lét fyrrv. hæstv. menntmrh. gera skýrslu um það mál og menn lofuðu að bæta úr því. Það er enn látið standa í stað og er auðvitað í fullkomnu óefni. Síðan er Háskóli Íslands skorinn niður við trog. Og það er rétt sem hér kom fram áðan að 160 námskeið hafa verið lögð niður. Þetta er stofnunin sem á að efla rannsóknir í landinu.
    Það var einu sinni svo að þegar menn völdust í hin ýmsu trúnaðarstörf fyrir stjórnmálaflokka var leitað að þeim sem voru viðkomandi málaflokkar kærir, mönnum sem báru þessa málaflokka fyrir brjósti. Það er afar erfitt að sjá að svo sé farið að af hálfu þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Það fyrsta sem heyrðist frá virðulegum formanni stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna í fjölmiðlum var að fjöldi námsmanna hefði þegið námslán án þess að hafa til þess unnið.     Það vill svo til að ég sem hér stend hef haft allmikil skipti við þennan sjóð sakir systkinafjölda og eigin barnafjölda. Mér hefur aldrei tekist að fá eina krónu hjá Lánasjóði ísl. námsmanna án þess að sýna fram á að námsframvinda, eins og það er kallað, sé með eðlilegum hætti og ég mótmæli því hér og nú að námsmenn hafi í stórum stíl orðið sér úti um fé hjá Lánasjóði ísl. námsmanna vísvitandi og að yfirlögðu ráði með svindli. Það er ósatt og óréttmæt ásökun.
    En það er svo margt annað sem veldur því að það setur að manni hroll. 100% námsframvinda, hvað er það? Er nám og menntun á háskólastigi eins og fiskibollur sem er troðið í dós og rennt á færiband og skilað og sagt: Þetta er búið. Menn sem tala þannig vita ekkert hvað menntun og þekkingarleit er og ættu að láta slíka málaflokka í friði. Samkvæmt þeirri aðferð hefði alkunnur vísindamaður, Albert nokkur Einstein, ekki fengið lán hjá Lánasjóði ísl. námsmanna því hann var svo slappur á prófum. Halda menn að það sé hægt að reka námsmenn á háskólastigi áfram eins og fé til slátrunar með því að segja: Skilið 100% námsárangri annars fáið þið enga peninga? Hvað ef menn skyldu nú koma auga á eitthvað sem þá langaði að lesa og læra áður en lengra er haldið sem er kannski svolítið til hliðar við það sem þeir eru að gera? Nei, það geta þeir ekki því að þá fá þeir engin námslán. Halda menn að þetta sé leiðin til að afla sér menntunar? Þetta er svo yfirgengilegt að hlusta á. Auðvitað verður að setja einhverjar reglur sem sanna það að námsmaður sé við nám, vitaskuld. En svona dósaframleiðslukenningar þegar nám er annars vegar er auðvitað fyrir neðan virðingu Alþingis að ræða.
    Annað er staða þeirra ungu karla og kvenna sem eru við nám og hófu nám sitt í sátt og samlyndi við sitt þjóðfélag gerandi sér nokkra von um að við þau kjör sem þeir byggju gætu þeir stundað sitt nám. Hvað með allt það unga fólk sem er erlendis við nám og hélt að það væri á samningi við samfélag sitt? Hvað gerist nú? Það er einfaldlega rekinn rýtingur í bakið á því. Námsaðstoð við þetta fólk er skorin niður við trog og hvað getur fólk gert sem er kannski komið á doktorsstig, er að vinna vinnuna sína og hélt að allir væru sáttir við það? Hvað getur það gert? Það gerir auðvitað það sem þessa menn dreymir um. Þeir sem eiga stönduga foreldra halda áfram. Hinir hætta vegna þess að þeir geta þetta ekki.

    Og ef þeir góðu menn sem nú stjórna þessum málum vita það ekki, þeir þurfa kannski aldrei að koma upp í Lánasjóð ísl. námsmanna eða banka landsins, þá get ég sagt þeim það sem ég hef séð og heyrt. Ég hef séð örvinglað fólk standa í bönkum landsins og auk þess hafa bankastjórar sagt mér frá því. Fátækt fólk, sem hefur treyst á Lánasjóð ísl. námsmanna við að mennta börnin sín, stendur í þeirri stöðu að það fær engan til að ábyrgjast bankalán upp á þá von eða óvon að barnið þess standist próf. Menn standast ekki alltaf próf í háskólum. Það væri nú ljóti háskólinn sem skilaði svo aumingjalegum verkefnum að það gæti hver maður hoppað í gegnum þau eins og ekkert væri.
    Það er nú einu sinni þannig að menn eru ekkert ginnkeyptir fyrir að ábyrgjast slík lán. Og finnst mönnum það engin ábyrgð að setja íslenskt alþýðufólk í þessa stöðu? Mundu þeir sjálfir ábyrgjast mikið af slíkum skuldum? Mér er það stórlega til efs. En það eru auðvitað aðrir sem alltaf hafa þá stöðu að þeir fá þessi lán, t.d. börnin mín. Hver neitar alþingismanni um slíkt lán? Ekki nokkur maður. En það er til margt fólk sem ekki fær svona lán og það á engan að til að ábyrgjast þau. Það er því vitaskuld skýringin á því að menn og konur ekki síst hafa hrökklast frá námi. Og það er kannski auðvelt fyrir okkur konur af ákveðinni kynslóð að minnast þess þegar gripið var til þess óyndisúrræðis að hætta námi í eitt ár og reyna að vinna sér inn svolitla peninga og halda svo áfram. Við vorum ansi margar sem ekkert áraði betur hjá næsta ár og fórum aldrei aftur í háskólann. Ég tel það þess vegna skyldu mína að sjá til þess að íslenskar konur fari ekki aftur niður á þetta stig, að þær haldi áfram að vinna en strákarnir haldi áfram námi. Því að það er það sem er að gerast núna, nákvæmlega eins og fyrir 25--30 árum og við sem lentum í þessu viljum ekki sjá þetta aftur. Það gat nefnilega vel verið að við ættum alveg eins gott með að læra eins og yndismennirnir okkar. En það er önnur saga.
    Aðalatriði þessa máls er fyrst og fremst hvert við erum að leiða þjóðina með þessum aðgerðum burt séð frá lögunum sem samþykkt voru í fyrra. Þau voru ekki allt. Síðan hefur þessi mæta stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna setið við og sett hinar undarlegustu reglur um alla skapaða hluti. Það er með mig eins og hv. 9. þm. Reykv. Svavar Gestsson að ég er ekki svo hátt yfir starfsmenn lánasjóðsins hafin að ég geti ekki átt við þá hið ágætasta samstarf og fengið hjá þeim allar þær upplýsingar sem ég bið um, enda á ég rétt á því og hv. 9. þm. Reykv. líka.
    Ég er þannig með haug af reglum sem mér er sagt að stjórn LÍN hafi samþykkt á fundi sínum 31. júlí sl. Inn í þessa samantekt vantar nokkrar reglur sem samþykktar hafa verið síðan og enn er verið að fjalla um nokkrar reglur í stjórninni. Meiningin er að safna öllum vinnureglum saman og gefa þær jafnan út en slíkt hefur ekki verið gert hingað til, stendur í upplýsingum sem hef fengið. Og það er hreint ekkert smáræði sem búið er að setja af reglum. Þær eru hvorki meira né minna en --- þetta er ekki einu sinni tölusett svo ég nenni ekki að telja þetta en þetta er ekki undir 12--13 þéttvélrituðum síðum. ( FI: Hvenær var þetta sent?) Þetta var ekkert sent. Ég bað um þetta og fékk þetta. 31. júlí byrjaði ballið. Þá kom gusa og síðan hefur verið haldið áfram og enn er verið að. Hvað í ósköpunum eru menn að gera? Þeir eru að ákveða --- svo að ég grípi niður einhvers staðar í þessu stórhlægilega plaggi þar sem hugmyndum og hugtökum ægir öllum saman og er það eftir menningarstigi þessarar vinnu --- hvað menn mega vera margar annir í undirbúningsnámi í tungumálum, t.d. í ungversku, tékknesku, og einhverjum undarlegum tungumálum, sum fá ofurlítið meiri tíma en önnur. Maður spyr sig í forundran, hvað ef einhver maður skyldi nú vera í málvísindum þar sem menn læra jafnvel tugi tungumála? Ætlar stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna að ákveða hvað þessir menn þurfa mikinn tíma til að læra sín tungumál?
    Hér hefur vísindamaður, sem nýtur sennilega töluvert mikillar frægðar um heim allan en því miður lést fyrir skömmu, gefið út tímarit um tokkarísku. Mig langar að spyrja formann stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna: Hvað vill hann gefa námsmanni prófessorsins við háskólann langan tíma til að lesa tokkarísku, ef hann hefur einhvern tíma heyrt það tungumál nefnt? Ég skal taka það fram að ég heyrði það ekki nefnt fyrr en fyrir tiltölulega skömmu síðan. En það sem ég er að reyna að segja er þetta: Hvað halda menn að þeir séu? Hvað er verið að ráðskast og ráðast inn í líf og starf Háskóla Íslands af engri þekkingu á hinn fruntalegasta og fautalegasta hátt eins og hv. 11. þm. Reykv. réttilega kallaði það? Það er með ólíkindum að lesa þetta plagg. Svo að eitt dæmi sé nefnt er hér einhvers staðar talað um að það hafi áhrif á framvindu náms ef barn veikist. Hefði ekki verið svolítið huggulegra að kalla þetta aukastyrk vegna veikinda barns? En hvernig í ósköpunum getur það hækkað framvindu nemanda ef barnið hans veikist? Það mætti velta fyrir sér notkun hugtaka í þessu góða plaggi. Allt er þetta sem sé með hreinum ólíkindum.
    Svo dæmi sé tekið, frú forseti, skal ég lesa samsetning sem hér er að finna. Það segir hér, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ljúki námsmaður meiru en 100% árangri á einu missiri miðað við kröfu skóla, er heimilt að flytja umframeiningar til næsta eða næstu missira. Í þessu tilfelli skiptir ekki máli hvort námsmaður . . . ``  ( ÓÞÞ: Fær hann ekki extralán fyrir slíkt?) Nei, nei. ,,Í þessu tilfelli skiptir ekki máli hvort námsmaður naut lána á þessu missiri eða ekki.``
    Næsta grein: ,,Ljúki námsmaður meira en 100% árangri á seinni hluta námsárs er einnig heimilt að flytja þær umframeiningar á fyrra missiri innan sama námsárs og er þá lán fyrir námsárið í heild gert upp.``
    Ég veit ekki hvort það er hægt að leggja á hv. þingheim að lesa þennan samsetning. En nokkru seinna segir, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Nú skuldar námsmaður árangur frá fyrri missirum eða námsferlum. Þá er einingaskuld dregin frá þeim einingum sem hann lýkur áður en námsframvinda er metin í prósentum.``
    Menn hafa ekki mikið að gera að sitja yfir þessu. Og nú skulu hv. þm. heyra, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ef um veruleg veikindi`` --- og ég býst við að það sé þá verkefni hv. nefndar að meta hvað séu veruleg veikindi --- ,,námsmanns eða í fjölskyldu námsmanns er að ræða á námstíma er heimilt að bæta allt að 25% við árangur hans þegar lán til hans er reiknað.``
    Veikindi í fjölskyldu auka námsárangur nemanda við útreikning. Ég spyr, hæstv. forseti: Hvað er hægt að bjóða fólki upp á? En allt er þetta með sömu endemunum og áfram er haldið. En allt er það gert til aðeins eins og það er að skerða og rýra kjör íslenskra námsmanna. Menn tala hér um frítekjumark, gott og vel. Til eru þeir námsmenn sem afla engra tekna vegna þess að þeir hafa engan tíma til þess. Hvað græða þeir á einhverri tilfærslu á frítekjumarki? ( Gripið fram í: Þeir fá enga vinnu.) Auðvitað ekki neitt, auk þess sem þeir fá svo ekki vinnu.
    Hv. 11. þm. Reykn. Rannveig Guðmundsdóttir talaði hér fyrir hönd síns flokks og það var ekki auðvelt, enda röddin slæm og gerði lítið til vegna þess að það er kannski eins gott að sá flokkur sé lágróma í þessu máli. Hún sagði eitthvað á þá leið að námsmenn eigi að vita á hverjum tíma að hverju þeir ganga. Ég er alveg sammála því. Námsmenn t.d. sem nú stunda nám í Bandaríkjunum og eru á hinum ýmsu stigum náms eru auðvitað örvæntingarfullir vegna þess að að þeim hefur verið gengið af slíkum fruntaskap að það er með ólíkindum. Og ég skal segja hæstv. menntmrh. hvernig er verið að fara með þessa krakka. Ung stúlka sem stundar nám í byggingarlist í Bandaríkjunum var að fara til prófs vitandi það að ef hún ekki næði sínu prófi, þá missti hún námslánið sitt, þ.e. þá fengi hún ekki lánsloforð. Svo mikið er lagt á þessa nemendur að þegar hún lenti í smáumferðarteppu, eins og menn gera þar í því góða landi, fór hún að vinna, hún fór að teikna. Hún var á leiðinni í próf. Hún lenti að sjálfsögðu í árekstri. Hún gleymdi sér við að undirbúa sig til prófs í bílnum sínum. Þetta er ung stúlka sem er með lítið barn á framfæri.
    Höfum við leyfi til að setja þessa pressu á þetta unga fólk? Höfum við leyfi til að setja pressuna á kennarana í háskólanum? Það liggur auðvitað alveg fyrir að það er meiri ábyrgðarhluti en verið hefur fyrir háskólakennara að fella nemanda. Þeir viðurkenna það því þeir vita að þeir eru ekki aðeins að segja: Þú ert ekki nógu vel lesinn í þessu, heldur eru þeir líka að segja í leiðinni: Nú verður þú að bíða næstu önn eftir að fá einhverja framfærslu. Ekki nóg með það. Það er líka búið að koma í veg fyrir að háskólakennarar geti t.d. farið í verkfall því að þeir segja auðvitað sem svo: Við getum það ekki. Það mundi rúinera alla nemendur okkar. Heitir þetta ekki terrorismi á erlendum málum? Ég tek undir með hv. 11. þm. Reykv. Þetta er auðvitað skemmdarverkastarfsemi. Þetta er brot á öllum lýðræðislegum rétti í þjóðfélaginu. Auðvitað eiga háskólakennarar ekki að vera að skipta sér af því hvernig efnahagur stúdenta er. Þeir eiga að sjá um að þeir kunni það sem þeir eru að gera. En þessi kvöð hvílir eins og lamandi hönd á þeim ef nemendur eru kannski aðeins réttu megin eða röngu megin við það sem krafist er.
    Þannig mætti halda áfram í það óendanlega. Auðvitað er það alveg rétt og það er áreiðanlega þegar ljóst, hæstv. menntmrh., að þetta getur ekki gengið. Þetta gengur ekki upp því að eftir örfá ár fer þjóðin að finna fyrir því að hana vantar fólk. Og ég hef ekki áhyggjur af of mikilli menntun. Ég held að hún geti aldrei skaðað nokkurn mann. Ég held að það sé ekkert verra að atvinnulaus maður sé sæmilega vel menntaður nema síður sé. Yfirlýsingar á borð við það að við höfum offramleitt menntað fólk sýnir kannski hvað menn vita mikið um hvað þeir eru að tala.
    Ég tek undir með þeim, og skal nú ljúka máli mínu, hæstv. forseti, sem sakna nú vinar, hv. þingflokksformanns Alþfl., sem stóð hér einn fagran vordag og sannfærði menn um að ef það sýndi sig að menn fyndu fyrir þeirri skemmdarverkastarfsemi sem hér væri verið að vinna, hann sagði það auðvitað ekki, en þeim aðgerðum sem nú væri verið að gera á málefnum námsmanna skyldum við eiga hann að. Hann kaus að setja inn varamann til að hann þyrfti ekki að standa fyrir máli sínu. En ég get fullvissað hæstv. forseta um að hann verður samt þvingaður til að taka þátt í þessari umræðu fyrr eða síðar.
    Ég vil að lokum segja í fullri vinsemd við hæstv. menntmrh.: Allt þetta sem gert hefur verið er rangt. Það er ljótt og það er siðlaust. Námsmenn hafa ekkert til þess unnið að farið sé með þá eins og nú er verið að gera. Þetta er enginn barlómur að ástæðulausu. Ég vildi ráðleggja hæstv. menntmrh. að gera nú einu sinni skoðanakönnun meðal fólksins í landinu því það eru margir foreldrar í landinu sem eru með börn í námi. Og ef eitthvað gott hefur komið út úr þessari aðför þá er það þetta --- það er kannski dálítið hráslagalegt að þetta skyldi þurfa til: Það er nefnilega svo komið að alþýðufólk á Íslandi, sem hefur kannski amast við Lánasjóði ísl. námsmanna í hugsunarleysi sínu um langt árabil og oft dyggilega stutt af helstu verkalýðsforingjum landsins, er nú að uppgötva að það var kannski alltaf rétt það sem við alþýðubandalagsmenn höfum alltaf sagt, að Lánasjóður ísl. námsmanna væri mesta kjarabót sem íslenskar fjölskyldur hafa fengið fyrr og síðar því hann veitti öllum jafnan rétt til náms. Nú er verið að fara aftur til þess að velja fólk til náms og auðvitað eftir efnum og ástæðum eins og öll hugmyndafræði Sjálfstfl. byggist á.
    Við alþýðubandalagsmenn höfnum þessu. Við erum á móti þessu og við munum ekki linna látum fyrr en þetta hefur verið leiðrétt. Og ég treysti hæstv. menntmrh., sem mér dettur ekki í hug að hafi gert þetta af illgirninni einni, síður en svo. Ég held að hann hafi haft vonda ráðgjafa og ekki skoðað málin frá öllum hliðum. Það er svo einfalt að ráðast að einhverjum einum þætti samfélagsins án þess að líta

til þess hvaða áhrif það hefur á aðra þætti. Og ætli það sé ekki að renna upp fyrir bankakerfinu þessa dagana hver vandi fólks er sem á að greiða samkvæmt nýjum lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna námslánin sín? Það fólk, eins og við vöruðum við í fyrra, kemur fæst til álita við að fá húsbréf þegar það þarf að koma þaki yfir höfuðið á sér. Og hvað ætla menn þá að gera? Það skyldi nú aldrei verða að fasteignasalar verði hugmyndafræðingar að því að breyta þessu vegna þess að húsnæðismarkaðurinn hrynur? Við erum ekki að tala um neinn smáhóp. Þetta er stór hópur í þjóðfélaginu.
    Hæstv. forseti. Það væri auðvitað hægt að tala endalaust um þetta mál. En ég skal ljúka máli mínu nú með þeirri frómu ósk að hæstv. menntmrh. taki höndum saman við það fólk sem þetta varðar, fulltrúa námsmanna og kennara við menntastofnanir og taki málið sínum eigin tökum en láti ekki alls konar menn, sem engan áhuga hafa á þessum málum, ráðslagast með þau af engri þekkingu.