Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 18:55:17 (1412)

     Gunnar Birgisson (andsvar) :
    Frú forseti. Manni er orðfátt eftir þessa miklu ræðu Guðrúnar Helgadóttur. Það eru nokkur atriði sem ég vil benda þingmanninum á. Námsmönnum erlendis hefur ekki fækkað. Í öðru lagi er það ekki rétt að við séum komnir til baka um 25--30 ár þegar Guðrún var ung. Við erum með besta aðstoðarkerfi námsmanna í heiminum. Ef þingmaðurinn getur hrakið þetta þá skal ég taka ofan fyrir honum.
    Varðandi vinnureglurnar, sem þingmaðurinn var að lesa hér upp úr, þá hefur það ekki verið gert fyrr en núna að stjórnin samþykki vinnureglur sem eru bak við hverja reglu í úthlutunarreglunum. Þessar vinnureglur eru síðan settar í bækling með úthlutunarreglunum og sendar til násmanna. Námsmenn hafa því aldrei fengið eins góðar upplýsingar um úthlutunarreglur sjóðsins og núna.
    Varðandi stúlkuna í Bandaríkjunum. Ég held að hún hafi frekar verið að hugsa um prófið sitt en lánasjóðinn. Það hlýtur bara rétt að vera. ( GHelg: Það hangir saman.)
    Varðandi framvindu náms og reglur vil ég benda þingmanninum á að það er náttúrlega nauðsynlegt að hafa reglur alls staðar. Það þýðir ekki að lána bara ef menn eru í skóla og hafa vottorð upp á það.
    Svo vil ég benda á varðandi húsbréfin að það þarf að borga þessi lán til baka. Það er ekki nóg að taka bara lánin, þetta er ekki svoleiðis. Það þarf að borga þau til baka, því miður.