Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 19:58:57 (1421)

     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom skýrt fram í ræðu minni áðan að mér hefur alltaf verið það ljóst að orðið jafnrétti var ekki í gömlu lögunum. Hins vegar er það svo að í gömlu lögunum var tekið miklu skýrara félagslegt tillit en í nýju lögunum. Þess vegna töldum við nauðsynlegt að láta á það reyna hvort orðið jafnrétti fengist inn í markmiðsgreinina, þ.e. 1. gr. Mér fannst hins vegar að í athugasemd hv. þm. kæmi fram skýring á þeim pólitíska grundvallarágreiningi sem er um sjóðinn og þökk sé henni fyrir það. Vegna þess að það að tala um tillit til efnahags og jafnrétti er ekki það sama. Það að taka tillit til lélegrar efnahagslegrar stöðu námsmanna er hluti af jafnrétti en hitt ber auðvitað að hafa í huga líka að margir fleiri þættir mynda þá heild sem kallað hefur verið jafnrétti. Mér fannst, virðulegi forseti, að ég sýndi fram á það í ræðu minni í dag að lánasjóðsstjórnin hefði ekki framkvæmt lögin eins og stuðla ætti að jafnrétti. Þótt hún tæki e.t.v. mið af mismunandi efnahag er alveg ljóst eftir þessa umræðu að að því er jafnréttishliðina varðar, t.d. stöðu kvenna, barna og fleiri slíkra aðila, hefur framkvæmd laganna því miður ekki komið nægilega vel út.