Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 20:14:02 (1424)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Það undrar mig að hæstv. menntmrh. skuli komast upp með það í þingsal að standa rökþrota og hafa það eitt að segja við langri málefnalegri ræðu minni áðan að eitthvað hafi verið athugavert við fas mitt. Ég hefði ekki verið í jafnvægi. (Gripið fram í.) Það er orðið dálítið gamaldags aðferð við að afgreiða ævinlega þingmenn af kvenkyni sem flytja mál sitt af einhverjum áhuga að gera það alltaf að umræðuefni að þær séu ekki í jafnvægi. En það er kannski, hæstv. forseti, tímanna tákn að þetta háa Alþingi er komið á það stig að umræðuefni fjölmiðla um þingið er að ýmist er töluverður tími tekinn í það virðulega umræðuefni sem er drykkjuskapur ráðherra og annar um fatnað þingmanna. Þetta er kannski það sem koma skal og enginn lyftir litla fingri til að gera athugasemd við þetta. Það er kannski tímanna tákn þegar menn geta ekki svarað fyrirspurnum sem til þeirra er beint sé þeim svarað með því að finna að fasi hv. þm.
    En það var ekki til þess að segja þetta sem ég kom hér upp heldur til að upplýsa hæstv. ráðherra. Hann sagði: Vandi Lánasjóðs ísl. námsmanna var mikill. Hvað er þá til ráða? Voru það auknar álögur á almenning eða þær aðgerðir sem hér hafa verið gerðar?
    Nú skal ég upplýsa hæstv. ráðherra og ég vona að ég sé í sæmilegu jafnvægi. Það var viðtal í fréttum áðan á Stöð 2, sem hæstv. ráðherra gat að sjálfsögðu ekki séð vegna þess að hann var í þingsal, við hv. formann fjárln. Þar sagði hann: Auknar álögur á almenning, skattahækkanir, eru óhjákvæmilegar.
    Það sem gert hefur verið hefur greinilega ekki dugað til. Það kom ekki í veg fyrir auknar álögur að mati formanns fjárln.