Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 20:16:33 (1425)

     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mjög sérkennilegt satt að segja að upplifa þessa umræðu og lok hennar með þeim hætti sem birtist manni hér. Fyrir utan það að hæstv. ráðherrar setja sig í siðapredikarastellingar og ákveða að finna að fasi einstakra þingmanna væri auðvitað fróðlegt fyrir hæstv. forseta ef það yrðu gefnar út viðaukaskýringar við þingsköpin um fas, hið rétta fas. Væri sjálfsagt nokkuð athyglisvert að lesa þann texta hvaða fas menn eiga að hafa hérna. Ég hef satt að segja ekki áttað mig alveg á því hvaða fas er hér við hæfi.
    En þegar hlutirnir eru settir þannig upp að ekki sé hægt að leysa þessi mál öðruvísi en með niðurskurði til menntamála eða álögum á landsmenn þá vil ég segja að niðurskurðurinn á Lánasjóði ísl. námsmanna eru álögur á landsmenn.
    Mín skoðun er reyndar sú, virðulegi forseti, og hún hefur mjög oft komið fram á undanförnum mánuðum og undanförnum árum, að við erum langt á eftir öllum öðrum þjóðum í framlögum til menntamála. Í framlögum til menntamála erum við niður undir Grikklandi og Tyrklandi og það er ekki rétt upp á framtíðarlífskjör þjóðarinnar að skera niður framlög til menntamála. Ég er þeirrar skoðunar að menntamál og þann þátt þjóðarútgjaldanna eigi að verja og ekki aðeins að verja heldur þurfi að bæta þar nokkru við. Ég þakka fyrir þær árásir sem ég hef setið undir fyrir það að hafa búið námsmönnum og íslenska skólasamfélaginu stöðuga og samfellda veislu vegna þess að staðreyndin er sú að ef það er eitthvað sem íslensk þjóð þarf, þá er það reisn í meðhöndlun menntamála hennar, en ekki það að menn gangi um með hnífinn og skeri allt sem fyrir er, bæði lánasjóð námsmanna, grunnskóla, framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og endurmenntun.
    Að lokum, virðulegi forseti, tel ég ástæðu til að það komi fram af minni hálfu að menntmrh. lýsti því yfir að hann teldi rétt að menntmn. skoðaði tilteknar fullyrðingar sem komu fram í þessari umræðu og ég mun í nefndinni ganga eftir því að það verði rækilega gert.