Lánasjóður íslenskra námsmanna

34. fundur
Mánudaginn 19. október 1992, kl. 20:19:24 (1426)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil gjarnan reyna að vanda mitt fas svo ekki valdi vandræðum þó ekki séu til um það skýrar leiðbeiningar hvernig menn eiga að hegða sér í ræðustólnum. Ég mat það svo að sú athugasemd sem kom fram við fas hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur væri byggt á þekkingu hæstv. ráðherra frá því hann stundaði læknisfræðinám, en ég veit ekki hve langt hann var kominn í námi þegar hann breytti af braut. En það er greinilegt að það hefði ekki verið gæfulegt að þurfa að taka slíkar ákvarðanir eins og lánasjóðurinn er í dag.
    Það ber allt að sama brunni. Þegar mál eru rædd hér er spurt hver séu úrræði stjórnarandstöðunnar. Það er dálítið hjákátlegt að þurfa að svara þessu eftir að Framsfl. hefur verið við völd í 20 ár. Í verkunum kom það fram hver úrræðin voru. Við byggðum upp þennan lánasjóð, hæstv. menntmrh. Það var líka byggður upp atvinnuleysistryggingasjóður. Ég veit ekki betur en hann stefni núna lóðbeint á höfuðið. Það var líka byggður upp verðjöfnunarsjóður. Ég veit ekki betur en hann stefni lóðbeint á höfuðið.
    Hvað gerðum til þess að þetta væri hægt? Við héldum uppi eðlilegri atvinnustarfsemi í landinu. Við héldum uppi þeirri veltu og þeim umsvifum sem dugðu til þess að þetta væri hægt. Núna fór þessi ríkisstjórn í það að minnka veltuna og umsvifin. Hún skapaði kreppu. Hverjar eru afleiðingarnar? Tekjur ríkisins munu að sjálfsögðu minnka. Íslenska ríkið lifir á veltu. Þetta hélt ég að hæstv. ráðherra gerði sér grein fyrir. Nú er það boðað að það skuli auka beina skattheimtu á almenning. Það verður þá minna fé sem fer til þess að verja til kaupa á ýmsum hlutum. Virðisaukaskatturinn mun þá lækka í tekjum til ríkisins.
    Það væri aftur á móti hollt fyrir hæstv. ráðherra, sem hefur upplýst það óaðspurður, og það vil ég

þakka hæstv. ráðherra fyrir, að það hafi ekki verið markmiðið að fækka námsmönnum. Það er jákvætt að heyra það að hann hefur þá ekki tekið undir þau sjónarmið að það væri allt of mikið af menntamönnum hjá þjóðinni. En hann sagði aftur á móti: Reglurnar valda að sjálfsögðu afföllum.
    Og þá er það bara spurningin: Eru það þá hin æskilegu afföll sem verða? Eru það hin æskilegu afföll að það sé féleysið sem ráði afföllunum en ekki námshæfileikarnir?
    Ég verð að segja eins og er að mér stendur veruleg ógn af því mati. Hér segja menn að það sé búið að haga reglunum þannig að eðlileg framvinda ráði þessu. Það er nú svo ef það er skoðað með marga þá menn sem hæfastir hafa verið að skólaganga þeirra er dálítið sérstæð og Einstein er kannski ekki einn á báti.
    Ég hygg að í þessari ríkisstjórn sem nú situr séu tveir hæstv. ráðherrar sem fóru í læknisfræði. ( Menntmrh.: Ég tók engin lán meðan ég var þar.) Það er enginn að bera það á hæstv. menntmrh. að hann hafi tekið lán. Mér dettur ekki í hug að láta rannsaka það einu sinni hvort hann segir satt. En þeir breyttu sínum ákvörðunum. Ég er ekki að segja að þeir hafi breytt rangt. Þetta er ekki jafneinfalt og menn eru að tala um.
    Herra forseti. Spurningin var stór sem kom fram hjá hæstv. ráðherra. Ég vona að ég verði ekki til að lengja umræðuna en það er vonlaust að sitja undir svona athugasemdum án þess að svara þeim á einhvern veg.