Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 13:37:24 (1427)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 en það var sem kunnugt er lagt fram fyrir réttum tveimur vikum og hafa hv. þm. haft gott tækifæri til að kynna sér helstu efnisatriði þess. Ég tel því ekki ástæðu til að fjalla ítarlega um talnalega þætti frv. Í ræðu minni mun ég fyrst og fremst fjalla um stefnumörkun ríkisstjórnar í efnahags- og ríkisfjármálum fremur en að lýsa einstökum atriðum fjárlagafrv. Ég mun þannig skýra þær megináherslur sem í frv. felast og af hverju þær eru nauðsynlegar.
    Í framsöguræðu minni fyrir fjárlagafrv. yfirstandandi árs fjallaði ég um helstu vandamál í íslensku efnahagslífi og nauðsyn róttækrar stefnubreytingar í efnahagsmálum. Núverandi ríkisstjórn markaði þegar í upphafi ferils síns nýja stefnu í efnahagsmálum --- stefnu sem hafnaði gömlu aðferðunum; gengisfellingum, óhóflegri sjóðafyrirgreiðslu, skattahækkunum og stórfelldum ríkisafskiptum sem ætlað var að leysa hvers manns vanda. Þess í stað er lögð áhersla á að draga úr ríkisafskiptum, auka frjálsræði í viðskiptum og tryggja stöðugleika með föstu gengi og lágri verðbólgu.
    Ég er sannfærður um að þetta er besta og jafnvel eina færa leiðin til þess að fá hjól atvinnulífsins til að snúast á nýjan leik. Aðeins þannig getum við skapað ný atvinnutækifæri, ný störf og þar með dregið úr því atvinnuleysi sem því miður hefur farið vaxandi. En til þess að geta tekist á við erfiðleikana þurfa menn að vita hvar ræturnar liggja. Mig langar þess vegna að fara nokkrum orðum um þann þátt.
    Við Íslendingar höfum þurft að búa við langvarandi tímabil efnahagsstöðnunar og samdráttar, eða allt frá árinu 1987. Þar skiptir minnkandi afli og erfiðleikar í sjávarútvegi að sjálfsögðu miklu máli. Auk þess hefur í mörgum mikilvægum viðskiptalöndum okkar gætt samdráttar sem ekki sér enn fyrir endann á. Þá er ekki síður alvarlegt að ýmsar aðrar atvinnugreinar, jafnt útflutningsgreinar sem aðrar, hafa átt erfitt uppdráttar. Uggvænlegast er þó að þessari þróun hefur fylgt meira atvinnuleysi en hér hefur þekkst um áratuga skeið.
    Það er hins vegar rétt að hafa í huga að efnahagssamdráttur og vaxandi atvinnuleysi eru vandamál sem fleiri hafa þurft að kljást við en Íslendingar. Ýmsar af okkar nágrannaþjóðum hafa jafnvel gengið í gegnum enn meiri þrengingar en við.
    Um alllangt skeið hefur eitt af grundvallarmarkmiðum efnahagsstefnunnar í okkar heimshluta verið talið að tryggja viðunandi lífskjör. Stjórnvöld víða um heim hafa reyndar beitt ýmsum aðferðum til að ná þessu markmiði. Framan af þessari öld má segja að hafta- og einangrunarstefna hafi verið ríkjandi. Þar hugsaði hver um sig án tillits til þess hvað gerðist hjá öðrum. Við Íslendingar þekkjum vel þennan hugsunarhátt. Hann réð ríkjum allt til valdatíma viðreisnarstjórnarinnar í upphafi 7. áratugarins.
    Á síðari hluta aldarinnar hafa vindar hins vegar blásið í frjálsræðisátt. Að vísu hefur gengið á ýmsu og einstök ríki hafa verið misfljót að tileinka sér þessa hugsun. Síðasta áratuginn eða svo hefur skilningur vaxið á því að forsenda bættra lífskjara sé að atvinnulífið búi við eðlileg rekstrarskilyrði, það sé grundvöllurinn fyrir hagvexti og batnandi lífskjörum.
    Á sama tíma hafa milliríkjaviðskipti farið vaxandi í kjölfar aukins viðskiptafrelsis. Þessi þróun hefur leitt til meiri samkeppni fyrirtækja milli landa og lægra vöruverðs. Þannig hefur hinn almenni borgari notið góðs af þessari þróun. Það gefur auga leið að við þessar aðstæður breytist hlutverk ríkisins.
    Á undanförnum árum hefur því orðið áherslubreyting á sviði hagstjórnar víða um lönd. Í stað þess að vera beinn þátttakandi í atvinnurekstri hefur hlutverk ríkisvaldsins færst yfir í það að skapa almenna umgjörð um atvinnurekstur og stuðlað þannig að aukinni fjárfestingu og nýsköpun í atvinnulífinu og þar með auknum hagvexti. Með þessu hafa stjórnvöld þannig smám saman dregið sig út úr því forustuhlutverki í efnahagslífinu sem þau hafa verið í allt frá kreppuárunum.
    Þrátt fyrir að þessara áherslubreytinga hafi vissulega gætt hér á landi er þróunin skemmra á veg komin en í flestum öðrum Evrópulöndum. Stjórnvöld hér á landi hafa ýmist sofið á verðinum eða misskilið hlutverk sitt. Við höfum haldið fast í kreddur fortíðarinnar, haft ofurtrú á afskiptum ríkisvaldsins. Við sjáum afleiðingarnar út um allt; í fiskeldi, loðdýrarækt, landbúnaði og sjávarútvegi. Hvarvetna sjáum við merki um hvernig sjóðafyrirgreiðsla og ríkisforsjá hafa blekkt jafnt stjórnendur fyrirtækja sem hinn almenna launþega.
    En hvernig í ósköpunum gat þetta ástand varað allan þennan tíma? Ég held að skýringin sé ekki síst fólgin í þeirri óðaverðbólgu sem hér hefur ríkt lengi. Verðbólgan villti mönnum sýn og skekkti allar viðmiðanir. Launahækkanir voru innistæðulausar og neikvæðir raunvextir færðu til fjármuni í stórum stíl. Um leið og verðbólguþokunni létti komu brestirnir hins vegar í ljós, ekki aðeins í einkarekstri heldur einnig hjá opinberum aðilum.
    Þetta er reyndar ekki séríslenskt fyrirbrigði. Þegar það fer saman að verðbólga hjaðnar og samkeppni eykst verður erfiðara að velta kostnaðarbreytingum út í verðlag. Í einkafyrirtækjum bregðast menn við með því að hagræða og endurskipuleggja reksturinn. Í opinberum rekstri er ekki lengur hægt að mæta auknum ríkisútgjöldum með hærri sköttum. Þess vegna þarf að endurmeta starfsemi ríkisins og láta notendur greiða kostnaðinn beint þar sem það á við.
    Skilaboðin eru því skýr. Það eru breyttir tímar. Gömlu aðferðirnar duga ekki lengur. Þær hafa reyndar aldrei dugað heldur einungis skotið vandanum á frest. Þetta sjáum við gerast alls staðar í nágrannalöndunum, í Svíþjóð, í Finnlandi og víðar. Á sama hátt getum við ekki undan því vikist að horfast í augu við vandamálin og taka á þeim áður en í frekara óefni er komið.
    Til þess að svo megi verða þurfum við að skapa skilning á nauðsyn víðtækrar samstöðu um viðnámsaðgerðir. Ég hygg reyndar að í þjóðfélaginu sé sem betur fer ört vaxandi skilningur á þeim erfiðleikum sem við blasa og þörfinni fyrir róttæk úrræði.
    Ég mun síðar í ræðu minni víkja að þeim óformlegu viðræðum sem fram hafa farið að undanförnu um nauðsyn þess að treysta rekstrarskilyrði atvinnulífsins. Á þessu stigi vil ég þó segja að ég tel mikilvægt að leita varanlegra lausna á efnahagsvandanum og forðast að sama skapi upphlaup og yfirboð sem ekki taka á hinum raunverulegu vandamálum. Þær hugmyndir, sem hafa verið ræddar á vettvangi aðila vinnumarkaðarins og miða að því að lækka kostnaðarskatt fyrirtækja, eru vissulega í takt við þær áherslubreytingar og uppstokkun í efnahagsmálum sem stefna ríkisstjórnarinnar boðar. Hefðbundnar skattahækkanir og aukin ríkisútgjöld er hins vegar afturhvarf til fortíðar og tekur á engan hátt á vandamálum dagsins í dag.
    Stefna ríkisstjórnarinnar tekur mið af erfiðum aðstæðum í þjóðarbúinu og boðar uppstokkun á flestum sviðum efnahagslífsins. Erfiðleikarnir gera það enn brýnna en ella að rekstrarskilyrði atvinnulífsins verði bætt. Þrátt fyrir að ekki blási byrlega í atvinnumálum okkar þessa stundina megum við ekki missa sjónar á helstu markmiðum efnahagsstefnunnar og hrekjast út í gagnslausar skammtímalausnir. Þær leysa engan vanda. Við verðum að beita almennum aðgerðum. Það eru engar töfralausnir til.
    Við þurfum að beita öllum ráðum sem duga til að örva atvinnustarfsemina. Aðeins þannig getum við dregið úr atvinnuleysi. Þetta er eitt af megináhersluatriðum í fjárlagafrv. Við þurfum að bæta samkeppnisstöðu atvinnuveganna, lækka tilkostnað, þar á meðal vexti. Þetta eru svipaðar áherslur og nágrannar okkar hafa lagt, bæði Svíar, Finnar og Norðmenn, enda eru þeir að fást við svipuð vandamál.
    Skilyrði fyrir auknum hagvexti er að stöðugleiki í verðlags- og launamálum haldist áfram. Lykilatriði í þeim efnum er stöðugt gengi. Frá því markmiði má ekki hvika enda höfum við margra áratuga reynslu af því að breytingar á gengi leysa engin vandamál heldur í besta falli skjóta þeim á frest um stundarsakir.
    Bein afleiðing af andvaraleysi stjórnvalda á undanförnum árum er erlend skuldasöfnun sem hefur farið ört vaxandi. Stjórnvöld hafa of lengi látið reka á reiðanum. Við leysum engan vanda með því að nota greiðslukort þegar reiðufé skortir. Fyrr eða síðar kemur að skuldadögunum.
    Í dag sjáum við afleiðingarnar. Fyrir fimm árum skuldaði sérhver Íslendingur 340 þús. kr. í útlöndum, en nú hefur skuldin hins vegar meira en tvöfaldast að raungildi, þannig að í lok þessa árs skuldar hver einstaklingur 720 þús. kr. Þessi þróun er uggvænleg og henni verður að snúa við.
    Stundum er spurt hver séu hættumörkin í erlendri skuldasöfnun. Því er erfitt að svara enda fer það eftir uppbyggingu efnahagslífs í viðkomandi landi. Jafnframt þarf að gera greinarmun á lánum til arðbærrar uppbyggingar og eyðsluskuldum. Það er hins vegar fróðlegt að líta til nágranna okkar Færeyinga. Fyrir aðeins fimm árum voru þeir í svipaðri stöðu og við erum nú. Í dag eru þeir í gjörgæslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Svona geta hlutirnir gerst hratt.
    Einu getum við þó slegið föstu. Erlendar skuldir eru orðnar hættulega miklar og hafa vaxið mjög hratt á undanförnum árum. Til þess að snúa þessari þróun við þarf að draga úr útgjöldum þjóðarbúsins og umfram allt minnka hallann á viðskiptum við útlönd. Mikilvægur liður í því er að draga úr hallarekstri ríkisins.
    Enn einn mikilvægur liður í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að stíga frekari skref í átt til aukins frjálsræðis í milliríkjaviðskiptum. Um leið og Íslendingum opnast leiðir til þess að fjárfesta erlendis verður að rýmka reglur um fjárfestingu erlendra aðila hér á landi. Hliðstæðar breytingar erlendis hafa orðið atvinnulífi þar mikil lyftistöng og ættu einnig að styrkja okkur í þeirri viðleitni að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið. Aðild Íslands að EES er einnig mikilvægur þáttur í því að tryggja stöðu Íslands í alþjóðaviðskiptum, þar með stöðu fyrirtækjanna. Ég fagna því að það virðist vera að skapast vaxandi skilningur á þessum sjónarmiðum, jafnt innan þings sem utan, eins og komið hefur fram síðustu daga.
    Það er auðvitað ekki óeðlilegt að efnahagsumræðan hér á landi snúist mikið um þá erfiðleika sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir. Hins vegar megum við ekki gleyma því að þrátt fyrir allt hefur ýmislegt þokast í rétta átt.
    Þar ber að sjálfsögðu hæst sá árangur sem náðst hefur í verðlagsmálum. Eftir áratuga viðureign við óðaverðbólgu hafa Íslendingar nú skipað sér á bekk með þeim þjóðum sem búa við lægsta verðbólgu. Sé litið á verðlagsþróunina síðustu 12 mánuði kemur í ljós að verðlag hefur aðeins hækkað um 1,3%. Þetta er minnsta verðbólga sem mældist í Evrópu á þessum tíma. Svona tölur vorum við vön að sjá sem hækkun milli mánaða og jafnvel vikna þegar verst lét. Þetta er auðvitað stórkostlegur árangur og hann hefur

náðst með samspili tveggja þátta, annars vegar stöðugs gengis og hins vegar víðtækrar samstöðu, ekki síst fyrir tilstilli aðila vinnumarkaðarins um að stöðugleiki í verðlags- og launamálum sé forsenda þess að íslenskt efnahagslíf rétti úr kútnum. Áframhaldandi samstarf á þessum nótum hlýtur að verða sá grundvöllur sem við byggjum á næstu missirin.
    Annað veigamikið atriði er að okkur hefur tekist að draga verulega úr viðskiptahallanum á þessu ári eða um nær þriðjung. Þetta er mikilvægt skref í þá átt að draga úr erlendri skuldasöfnun. Við þurfum hins vegar að gera enn betur til að stöðva söfnun erlendra skulda.
    Á þessu ári eru horfur á að hallinn á ríkissjóði verði talsvert minni en í fyrra. Enda þótt okkur takist ekki að ná markmiðum fjárlaga þokast tvímælalaust í rétta átt. Við settum okkur í upphafi það markmið að minnka hallann um helming milli ára. Hins vegar reyndist hallinn í fyrra miklu meiri en við gerðum ráð fyrir auk þess sem ytri aðstæður hafa verið okkur andsnúnar.
    Eitt af meginmarkmiðum fjárlaga ársins 1992 var að draga úr lánsfjárþörf opinberra aðila. Það hefur gengið eftir. Lántökur hins opinbera lækka úr 40 milljörðum kr. árið 1991 í 28 milljarða 1992 og verða þannig um þriðjungi lægri en í fyrra.
    Þessi árangur er farinn að skila sér í lægri vöxtum á innlendum markaði. Á síðustu mánuðum hafa raunvextir á verðtryggðum skuldbindingum þokast niður á við og sama gildir um vexti á óverðtryggðum skammtímabréfum. Þannig eru raunvextir á spariskírteinum ríkissjóðs nú 1% lægri en þeir voru fyrir gerð kjarasamninganna sl. vor og raunvextir á óverðtryggðum útlánum hafa lækkað enn meira.
    Hér hefur ríkisstjórninni tekist að hverfa frá þeirri óheillaþróun þegar opinberir aðilar tóku til sín sífellt stærri hluta af sparnaði landsmanna en það þrýsti upp vaxtastiginu og þrengdi að atvinnulífinu.
    Önnur mikilvæg stefnubreyting sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir er að færa vaxtaákvarðanir út á markaðinn. Gömlu handaflsaðferðirnar ganga ekki lengur, hvorki í vaxtamálun né almennum viðskiptum. Hafta- og miðstýringarstefna heyrir fortíðinni til hvort sem mönnum líkar betur eða verr.
    Frá því um mitt þetta ár hafa óverðtryggð ríkisbréf verið boðin til sölu. Þar hefur markaðurinn alfarið ráðið vöxtum og verður að telja að vel hafi tekist til þar sem vextir bréfanna hafa verið í eðlilegu samhengi við fyrirliggjandi skammtímavexti og leiddu því ekki til vaxtahækkunar. Fyrr í þessum mánuði voru spariskírteini í fyrsta sinn boðin upp með svipuðum hætti og áformað er að setja ríkisvíxla á markaðinn um næstu mánaðamót.
    Sú ákvörðun að vextir á ríkisverðbréfum skuli framvegis ráðast af framboði og eftirspurn styrkir verðbréfamarkaðinn og gerir honum kleift að mæta aukinni samkeppni við innlend og erlend verðbréf. Jafnframt eykst tiltrú manna á markaðnum og það stuðlar að auknum sparnaði. Einnig er mikilvægt að markaðurinn þróist í þá átt að þar ríki virk og eðlileg samkeppni milli aðila hvort sem það eru lífeyrissjóðir, verðbréfafyrirtæki eða bankar.
    Eitt af því sem blasti við þegar núv. ríkisstjórn tók við var að stjórn ríkisfjármála var í molum. Þetta lýsti sér m.a. í því að fjárlög stóðust aldrei. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á þessu sviði til að koma í veg fyrir að fjárlög fari úr böndunum. M.a. er sú breyting að einstakir ráðherrar, hver á sínu sviði, bera nú aukna ábyrgð á gerð og framkvæmd fjárlaga. Þetta gerir fjárlagagerðina sjálfa traustari og eykur líkur á að áætlanir fjárlaga standist í raun.
    Ég vil nefna annað mikilvægt atriði sem styrkir stjórn ríkisfjármála og þar með efnahagsmála í heild, en það er sú ákvörðun fjmrn. og Seðlabanka að loka fyrir yfirdráttarheimild ríkissjóðs í Seðlabankanum um næstu áramót. Á yfirstandandi ári eru þegar í gildi ákveðnar takmarkanir í þessum efnum þar sem yfirdráttarheimild ríkissjóðs í Seðlabanka nemur að hámarki 3 milljörðum kr. Með þessu dregur úr þensluhættu á peningamarkaði vegna halla á ríkissjóði. Jafnframt takmarkar þetta svigrúm stjórnvalda til að auka ríkisútgjöld þar sem áhrifin koma strax fram í hærri vöxtum. Enda þótt þessi ákvörðun hafi ekki vakið mikla athygli er hún tímamótaákvörðun sem menn hafa rætt um árum saman án þess að nokkuð hafi verið að gert fyrr en nú.
    Loks má nefna að sá rekstrarsparnaður ráðuneyta og ríkisstofnana sem áformaður var í fjárlögum 1992 hefur að mestu gengið eftir. Verulega hefur dregið úr yfirvinnu, ekki síst á aðalskrifstofum ráðuneyta. Þetta er enn eitt dæmið sem rætt hefur verið um árum saman án þess að árangur hafi náðst fyrr en nú. Að þessu sinni hefur tekist að koma böndum á útgjaldaþenslu í rekstri og starfsmannahaldi ríkisstofnana. Rétt er þó að taka fram að ekki er sjálfgefið að það haldist enda eitt af þessum eilífðarverkefnum sem alltaf þarf að sinna í samvinnu við starfsfólk og stjórnendur.
    Þá vil ég nefna að framkvæmd og álagning ýmissa þjónustugjalda sem ákveðin voru á árinu 1992 hefur skilað tilætluðum árangri. Sömu sögu er að segja af breytingum á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þær hafa leitt til umtalsverðs sparnaðar.
    Ég hef nú nefnt nokkur atriði sem mér finnst rétt að menn hafi í huga þegar fjallað er um stefnu ríkisstjórnarinnar því þrátt fyrir allt hefur náðst umtalsverður árangur á mörgum sviðum. Hinu er auðvitað ekki að leyna að enn eru mörg verkefni óleyst. Þær áherslur sem birtast í fjárlagafrv. næsta árs eru rökrétt framhald þeirra stefnumiða sem fjárlög yfirstandandi árs byggja á. Þannig er haldið áfram á þeirri aðhaldsbraut sem fjárlög ársins 1992 lýsa. Þetta sést best á því að útgjöld ríkissjóðs eru samkvæmt fjárlagafrv. næsta árs talin verða lægri í krónum talið en bæði í fyrra og á þessu ári. Ég viðurkenni fúslega að ég hefði talið æskilegt að ganga lengra í þessum efnum. Hins vegar eru aðstæður í þjóðarbúskapnum erfiðar og það takmarkar svigrúm til frekari aðgerða.
    Forsendur fjárlagafrv. eru um margt traustari en áður hefur verið. Á þessu ári hefur tekist að hemja rekstrarkostnað stofnana ríkisins, m.a. með auknum heimildum stofnana til þjónustugjalda og rýmri reglum um yfirfærslu á rekstrarfé milli ára. Þá hefur með samningum við bændur tekist að ná tökum á útgjaldasjálfvirkni í landbúnaði sem kemur fram í verulegri lækkun á framlögum ríkisins til landbúnaðarmála á næsta ári. Allt þetta gefur vonir um að fjárlög næsta árs standist betur en verið hefur.
    Það kann að koma á óvart að þrátt fyrir aðhald í rekstrarkostnaði skuli launa- og rekstrarkostnaður ríkissjóðs hækka að raungildi á næsta ári. Þessi aukning er hins vegar ekki merki um almenna útþenslu í starfsmannahaldi ríkisins heldur stafar hún fyrst og fremst af nýjum stofnunum fyrir fatlaða. En málefni fatlaðra hafa haft forgang um skeið.
    Eitt helsta verkefni á sviði ríkisfjármála næstu ár er að móta framtíðarstefnu í heilbrigðis- og tryggingamálum sem tryggir hvort tveggja, örugga velferð og þjónustu og betri nýtingu á almannafé. Þetta snýr ekki hvað síst að því að koma í veg fyrir sjálfvirka hækkun ýmissa útgjaldaliða, m.a. í almannatryggingakerfinu. Markmið fjárlaga ársins 1993 er að heildarútgjöld til almannatrygginga aukist ekki að raungildi milli ára.
    Annar mikilvægur þáttur sem einnig lýtur að sjálfvirkni er það nýmæli að fella fjármögnun ferja og flóabáta undir vegáætlun. Rökin eru þau að um sé að ræða ígildi þjóðvega fyrir viðkomandi byggðarlög og því rétt að framlög til þeirra færist með almennum framlögum til vegamála og greiðist af sömu tekjustofnum.
    Áfram verður lögð áhersla á að bæta þjónustu ríkisins með því að hagræða á sem flestum sviðum t.d. með samanburðarathugunum á kostnaði við þjónustu sem hliðstæðar stofnanir veita. Hér má nefna stofnanir fatlaðra, skattstofur, framhaldsskóla og heilbrigðisstofnanir. Á vegum fjmrn. er t.d. unnið að samanburði á innheimtuárangri á einstökum skattstofum og er gert ráð fyrir að nýta niðurstöður þessa starfs við mat á fjárþörf skattstofanna í framtíðinni.
    Þá er sérstakri fjárveitingu í hverju ráðuneyti ætlað að standa undir óhjákvæmilegum kostnaði við endurskipulagningu í rekstri stofnana. Loks verður starfsemi margra stofnana dregin saman. Húsnæðisstofnun ríkisins er dæmi um slíkt. Áformað er að leggja niður hönnunardeild, hætta skyldusparnaði í núverandi mynd og draga úr umfangi annarra þátta í rekstri.
    Eins og áður hefur komið fram hefur ríkisstjórnin ákveðið að verja 2 milljörðum kr. til sérstakra framkvæmda á næsta ári til að örva atvinnu. Verkefnin eru einkum á sviði vegamála og eru á framkvæmdaáætlun næstu ára en verður nú flýtt vegna erfiðra aðstæðna í atvinnumálum. Gengið er út frá því að lán til framkvæmdanna verði endurgreidd af mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar á komandi árum.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja um fimmtungi af söluandvirði ríkisfyrirtækja til nýrra verkefna á sviði rannsókna- og þróunarstarfsemi. Öflug starfsemi á þessu sviði er lykilatriði í eflingu atvinnulífsins. Þessum þætti hefur ekki verið sinnt sem skyldi á undanförnum árum. Jafnframt má nefna að með EES-samningnum opnast Íslendingum miklir möguleikar til þátttöku í alþjóðasamstarfi á þessu sviði.
    Áfram verður unnið að einkavæðingu ýmissa ríkisfyrirtækja. Á næsta ári er fyrirhugað að selja ríkisfyrirtæki og hlutafé í eigu ríkisins fyrir umtalsverðar upphæðir. Í því sambandi má nefna lánastofnanir í eigu ríkisins, Lyfjaverslun ríkisins o.fl. Þá verður áfram dregið úr ríkisafskiptum. Einn þáttur þess er að gera ríkisfyrirtæki að hlutafélögum, svo sem Sementsverksmiðju ríkisins, Áburðarverksmiðjuna, Síldarverksmiðjur ríkisins o.fl. Annar þáttur er að ætla fyrirtækjum í auknum mæli að fjármagna rekstur sinn af sjálfsaflafé. Fasteignamat ríkisins sem nú er fært yfir í B-hlutann er dæmi um þetta.
    Stefna ríkisstjórnarinnar á sviði skattamála kemur fram á tekjuhlið fjárlagafrv. Skatthlutfall virðisaukaskatts hér á landi er með því hæsta sem þekkist. Jafnframt eru fleiri undanþágur við lýði hér en annars staðar. Hvort tveggja torveldar skatteftirlit og stuðlar að undanskotum. Ríkisstjórnin hefur mótað þá almennu stefnu að breikka skattstofninn, samræma undanþágureglur og freista þess að lækka sjálft skatthlutfallið. Að undanförnu hefur verið unnið að frekari útfærslu þessara hugmynda á vegum ríkisstjórnarinnar. Vegna þeirra óformlegu viðræðna sem nú eiga sér stað eru þessi mál í biðstöðu og verða það þar til framhaldið skýrist.
    Skatthlutfall tekjuskatts íslenskra fyrirtækja er með því hæsta sem þekkist í Evrópu og nauðsynlegt að lækka það til að gera fyrirtækin samkeppnishæf við erlend fyrirtæki. Í fjárlagafrv. er kynnt sú stefnumótandi ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skatthlutfallið verði lækkað úr 45% í 33% á næsta ári. Sú lækkun er mikilvæg í tvennum skilningi. Annars vegar styrkir hún samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja hvort sem er til framleiðslu á innlendan eða erlendan markað. Hins vegar er hún ein af forsendum þess að fá erlend fyrirtæki til að fjárfesta á Íslandi. Hvort tveggja er liður í atvinnuuppbyggingu hér og eflir hagvöxt. Á móti lækkun skatthlutfalls verður frádráttarliðum fækkað.
    Í tengslum við gildistöku EES-samningsins verður að gera umfangsmiklar breytingar á íslensku tollalöggjöfinni. Tollar lækka og vörugjöld hækka. Frv. um þessi mál hafa þegar verið lögð fram á Alþingi og eru nú til umfjöllunar í nefnd. Þá var jöfnunargjald á innflutning fellt niður frá og með 1. okt. sl. og gert er ráð fyrir að sérstakur gjaldeyrisskattur verði lagður niður í áföngum.
    Að undanförnu hefur verið unnið að því að herða skatteftirlit í landinu. Lögum um ríkisskattanefnd hefur þegar verið breytt og refsiákvæði vegna bókhalds- og skattabrota er í endurskoðun. Skattaleg

meðferð bifreiða og bifreiðahlunninda hefur einnig verið til sérstakrar skoðunar. Í því samhengi má nefna að nú þegar hefur verið ákveðið að taka upp hertar reglur við notkun á svokölluðum virðisaukaskattsbílum um næstu áramót.
    Mig langar að nefna eitt atriði sérstaklega sem lýtur ekki beinlínis að hinum sígildu dægurmálum. Um alllangt skeið hefur staðið yfir umfangsmikil endurskoðun á bókhaldi ríkisins eða framsetningu ríkisreiknings og fjárlaga eins og það heitir á fagmáli. Þessi vinna er nú á lokastigi. Megininntak þessarar endurskoðunar er að færa bókhald ríkisins til þeirra alþjóðastaðla sem gilda á þessu sviði og samræma ýmis sjónarmið um framsetningu upplýsinga um ríkisfjármál sem hafa verið margvísleg til þessa. Ég læt nægja að minna á nýleg skoðanaskipti mín og fyrrv. fjmrh. um hallamælingar hjá ríkissjóði. Það er mjög brýnt að eyða óvissu og misskilningi um túlkun talnalegra upplýsinga um fjárhag ríkisins, næg eru deilumálin samt.
    Eins og ég hef áður nefnt er stefna fjárlagafrv. rökrétt framhald af þeirri efnahags- og atvinnumálastefnu sem ríkisstjórnin hefur markað. Markmið hennar er að leiða íslenskt efnahagslíf út úr þeirri kreppu sem það hefur verið í um alllangt skeið. Þar duga engar töfralausnir eða sértækar aðgerðir til skamms tíma, vandinn er djúpstæðari en svo, eins og ég hef fjallað um hér að framan.
    Þótt töluvert hafi áunnist á þessu ári eru ýmis hættumerki fram undan. Mikill hallarekstur ríkis og annarra opinberra aðila hér á landi þrengir svigrúm atvinnulífsins á lánamarkaði og heldur uppi vöxtum. Með öðrum orðum fer of stór hluti innlends sparnaðar til að fjármagna starfsemi opinberra aðila. Að sama skapi rennur of lítill hluti sparnaðarins til að örva og efla atvinnulífið.
    Í fjárlagafrv. er stigið skref í þá átt að draga úr umsvifum ríkisins á lánamarkaði og skapa atvinnulífinu aukið svigrúm. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að ég tel æskilegt að ganga enn lengra. Vonandi næst samkomulag um frekari sparnað í umfjöllun þingsins.
    Ísland er reyndar ekki sér á báti í þessum efnum því að hallarekstur ríkisins er eitt helsta vandamál hagstjórnar í flestum OECD-ríkjum. Nægir að minna á óróleikann á gjaldeyrismörkuðum nýlega en undirrót hans var einmitt misvægi í vaxtamálum og ríkisfjármálum. Afleiðingarnar eru þær sömu og við þekkjum hér á landi, háir vextir sem sliga atvinnulífið, draga úr fjárfestingum og hamla gegn auknum hagvexti. Því er ekki að undra að kjarni efnahagsstefnu stjórnvalda í nágrannalöndum okkar Íslendinga skuli vera að draga úr hallarekstri ríkissjóðs.
    Umrótið á erlendum gjaldeyrismörkuðum síðustu vikurnar hafa vakið upp ýmsar spurningar hér heima fyrir. Sumir hafa dregið í efa að við gætum haldið gengi krónunnar stöðugu á sama tíma og stórþjóðir eins og Bretar og Ítalir hafa fellt gengið.
    Við skulum aðeins hugleiða þetta. Af hverju féll breska sterlingspundið, ítalska líran og reyndar finnska markið? Ástæðan er einföld. Markaðurinn hafði ekki trú á stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum, þ.e. að þau gætu dregið úr halla ríkissjóðs og þannig stuðlað að lækkun vaxta og auknum hagvexti. Stjórnvöldum tókst ekki að sannfæra markaðinn um þetta. Sama ástæða lá að baki áhlaupinu að sænsku krónunni. Þar varð niðurstaðan hins vegar önnur því að sænsku stjórninni tókst að ná samkomulagi um víðtækar aðgerðir í ríkisfjármálum og atvinnumálum. Megininntak samkomulagsins er veruleg lækkun kostnaðarskatta fyrirtækja, hækkun einstaklingsskatta og stórfelld lækkun ríkisútgjalda. Þessar fyrirhuguðu aðgerðir eru taldar treysta grundvöll efnahags- og atvinnulífs í Svíþjóð og stuðla að hagvexti þegar fram í sækir. Af því getum við lært.
    Að mínu viti stendur tvennt upp úr. Í fyrsta lagi sú staðreynd að efnahagsstefnan þarf að vera trúverðug. Í Bretlandi tókst ekki að sannfæra markaðsöflin um að ríkisstjórnin mundi draga úr ríkissjóðshallanum. Það er út af fyrir sig ekki undarlegt þegar tekið er tillit til þess að ríkisútgjöld í Bretlandi hafa vaxið verulega á undanförnum árum. Sömu sögu er að segja af Finnlandi.
    Í öðru lagi eru skilaboð markaðarins ákaflega skýr. Hann leggur mikið upp úr stöðugu gengi. Með gengisfellingu breska sterlingspundsins og finnska marksins dvínaði tiltrú allra á efnahagsstefnu stjórnvalda. Þetta getur haft þau áhrif að fæla erlenda fjárfesta frá þessum löndum og veikt lánstraust þjóðanna.
    Ástæðan fyrir því að við Íslendingar þurfum ekki að fylgja Bretum og Finnum er sú að efnahagsástandið hér á landi er þrátt fyrir allt ekki eins slæmt og í þessum löndum. Gengi sterlingspundsins og finnska marksins féll vegna vantrúar á ríkisfjármálastefnu stjórnvalda. Hér á landi hefur tekist að stöðva útgjaldaþenslu ríkisins í veigamiklum atriðum á þessu ári. Jafnframt fer halli á ríkissjóði minnkandi.
    Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að gengisfelling við núverandi aðstæður leysir engan vanda. Þetta ætti áratuga reynsla okkar Íslendinga af víxlgangi gengisfellinga og óðaverðbólgu að hafa kennt okkur. Jafnframt er nauðsynlegt að átta sig á því að efnahagslegar forsendur gengisfellingar eru ekki fyrir hendi hér á landi. Menn líta gjarnan á tvo mælikvarða til að meta hvort gengið sé of hátt skráð. Annars vegar er svokallað raungengi en það gefur vísbendingu um samkeppnisstöðu atvinnulífsins gagnvart útlöndum. Hins vegar er viðskiptajöfnuður gagnvart útlöndum.
    Raungengið er nú svipað og að meðaltali undanfarinn áratug og gefur því ekki eitt og sér tilefni til gengisfellingar. Viðskiptahallinn er að vísu enn mikill en hann hefur þó minnkað verulega á þessu ári. Eins þarf að hafa í huga að viðskiptahallinn nú stafar fyrst og fremst af stöðnun í útflutningi og miklum vaxtagreiðslum til útlanda en ekki af miklum innflutningi því að hann hefur stórlega dregist saman. Gengisfelling breytir engu um þetta tvennt nema síður sé.

    Á undanförnum vikum hafa óformlegar viðræður farið fram milli fjölmargra aðila í þjóðfélaginu um það hvernig samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja verður styrkt án þess að raska efnahagslegum stöðugleika. Ríkisstjórnin hefur tekið þátt í þessum viðræðum við fulltrúa vinnuveitenda og launþega á almennum vinnumarkaði. Það er fagnaðarefni að vaxandi skilningur og stuðningur virðist vera við að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja og efla atvinnulífið með því að draga úr rekstrarkostnaði þeirra í stað þess að fara gömlu gengisfellingarleiðina. Til að slíkt geti gerst reynir þó fyrst og fremst á fyrirtækin að leita allra leiða til að draga úr rekstrarútgjöldum. Ábyrgðin er nú sem endranær á herðum þeirra sjálfra.
    Í stefnuræðu sinni ræddi forsrh. sérstaklega um lækkun kostnaðarskatta fyrirtækja og sagði m.a. orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Lækkun kostnaðarskatta á atvinnurekstur er nauðsynleg til að treysta stöðugt gengi til framtíðar en það verður að vinnast sameiginlega af ríki, sveitarfélögum, launþegum og vinnuveitendum.``
    Í umræðum um stefnuræðuna sagði viðskrh. orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nauðsynlegt er að samræma skattakjör atvinnuveganna hér á landi því sem gengur og gerist innan EES. Það þarf að lækka bæði launatengd gjöld og aðstöðugjaldið.``
    Af þessum ummælum má glöggt ráða að það er fullur skilningur á slíkum viðhorfum í ríkisstjórninni. En við gerum okkur ljóst að það er ekki nóg að tala um að lækka kostnaðarskatta heldur þarf líka að taka fram hvað það þýðir í raun. Þetta kallar á víðtæka samstöðu um að færa skattbyrði frá fyrirtækjum til einstaklinga. Þetta ásamt tillögum til lækkunar á útgjöldum ríkisins er reyndar kjarninn í samkomulagi stjórnmálaflokkanna í Svíþjóð til þess að koma í veg fyrir gengisfellingu.
    Hagræðing innan fyrirtækja og tilfærsla á sköttum bjargar þó ekki öllum fyrirtækjum sem starfandi eru í dag. Sumum verður ekki forðað frá nauðasamningum eða gjaldþroti vegna margra ára uppsafnaðra erfiðleika. Þannig verða bankar og opinberir sjóðir að taka á sig tap sem fyrr eða síðar lendir á ríkissjóði og þar með skattgreiðendum framtíðarinnar.
    Ríkisstjórnin mun, í samræmi við efnahagsstefnu sína, leggja sín lóð á vogarskálarnar til að finna leiðir til að styrkja stöðu fyrirtækjanna og koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði fastagestur hér í framtíðinni. Aðalatriðið er að forðast skammtímalausnir en byggja fyrst og fremst á varanlegu úrræðum.
    Ríkisstjórnin hefur áður haft samráð við aðila vinnumarkaðarins um ríkisfjármál. Það gerði hún sl. vor þegar gildandi kjarasamningar voru gerðir. Þeir samningar juku útgjöld ríkissjóðs talsvert en vegna hóflegra launabreytinga var útgjaldaaukinn talinn réttlætanlegur. Nú er hins vegar ljóst að efnahagslægðin sem við erum stödd í er dýpri en þá var ætlað. Meiri samdráttur verður í þorskveiðum á næsta ári en í ár og smám saman er að koma í ljós að sá almenni efnahagsbati sem vænst hafði verið í heiminum lætur á sér standa. Það skiptir því miklu máli að víðtæk samstaða sé ekki einungis um að færa skattbyrði til í þjóðfélaginu heldur einnig um að lækka ríkisútgjöld, draga úr hallarekstri ríkissjóðs og koma þannig í veg fyrir hækkun vaxta og aukinn samdrátt í nýjum fjárfestingum og atvinnutækifærum.
    Þegar rætt er um víðtækt samkomulag um ríkisfjármálin verður ekki hjá því komist að það nái til fleiri þátta en breytinga á tekjuhlið í tengslum við tilflutning á skattbyrði. Slíkt samkomulag verður jafnframt að taka til ríkisútgjalda. Ég vil aðeins nefna örfá atriði í þessu sambandi.
    Veigamesta viðfangsefnið sem nú blasir við á gjaldahlið fjárlaga er að hefta sívaxandi sjálfvirk útgjöld í heilbrigðis- og tryggingamálum, sérstaklega lyfja- og lækniskostnað. Flytja þarf slysatryggingar til tryggingafélaga. Einnig er nauðsynlegt að breyta greiðslu vaxta- og geymslugjalda af landbúnaðarafurðum til samræmis við ákvæði í búvörusamningi. Jafnframt þarf að auka kostnaðarvitund í opinberri þjónustu með þjónustugjöldum, t.d. fyrir ákveðna þætti í þjónustu framhaldsskóla og sjúkrahúsa. Þá er eðlilegt við núverandi aðstæður að endurskoða reglur um ýmsar greiðslur úr ríkissjóði eins og vaxtabætur og barnabætur. Ég tel raunhæft að setja markmið um allt að tveggja milljarða sparnað til að draga úr halla ríkissjóðs ef það má verða þáttur í víðtæku samkomulagi.
    Virðulegi forseti. Fjárlagafrv. er nú til umræðu við nokkuð sérkennilegar aðstæður. Þótt ýmsir kvarti undan niðurskurði og sparnaðaráformum í ríkisbúskapnum eru margir sem telja að ekki sé gengið nógu langt í þeim efnum í fjárlagafrv. Nágrannaþjóðirnar eiga í stórfelldum erfiðleikum í efnahagsmálum sínum um þessar mundir. Þau vandamál sem þar er glímt við eru af sömu rót og þau sem við okkur blasa. Það sem við getum lært af ástandinu þar á bæ er að skjótt skipast veður í lofti.
    Við lifum nú lengsta samdráttarskeið í sögu lýðveldisins og enn sér ekki fyrir endann á því. Þegar betur gekk skorti okkur fyrirhyggju. Á uppgangstímum eyddum við um efni fram og erlendar skuldir þjóðarinnar hlóðust upp. Þung greiðslubyrði erlendra lána gerir okkur erfiðara en ella að fást við vandann nú.
    Á næstu vikum verða fjárlagafrv. og fylgifrumvörp þess til umfjöllunar í nefndum þingsins. Það er mikilvægt að sú vinna sem þar fer fram taki mið af stöðu þjóðarbúsins. Í því sambandi þykir mér rétt að rifja það upp að fjárlagafrv. yfirstandandi árs breyttist til lækkunar, bæði á tekju- og gjaldahlið í meðförum Alþingis fyrir ári. Starf fjárln. nú hlýtur einnig að miða að því marki að draga enn úr útgjöldum ríkisins.
    Ég tel sérstaka ástæðu til að fagna þeim mikla áhuga og skilningi sem aðilar vinnumarkaðarins og fleiri hafa sýnt á því að fastar verði tekið á fjármálum ríkisins. Vonandi leiða þær óformlegu viðræður sem átt hafa sér stað að undanförnu til víðtækrar samstöðu um að varðveita stöðugleikann í efnahagslífinu og

örva atvinnustarfsemina. Aðalatriðið er að leita varanlegra lausna sem taka á hinum raunverulegu vandamálum. Að sama skapi er mikilvægt að forðast upphlaup og yfirboð og úreltar skammtímalausnir sem einungis fela í sér hærri skatta og aukin opinber útgjöld. Íslensk hagsaga geymir allt of mörg dæmi um slíkar aðgerðir sem engu bjarga en skapa einungis ný vandamál þegar til lengri tíma er litið.
    Þótt ekki blási byrlega í íslensku efnahagslífi um sinn er engin ástæða til að leggja árar í bát. Þvert á móti þarf að herða róðurinn. Á siglingu okkar út úr vandanum er einkum þrennt sem við skulum hafa að leiðarljósi:
    1. Aðgerðir okkar verða að miða að því að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar. Það er gangverkið sem knýr þjóðarskútuna áfram.
    2. Við þurfum að tryggja kjör þeirra lakast settu og draga sem mest úr áföllunum. Hinir sem betur mega sín verða að leggja meira á sig í þeim boðaföllum sem yfir okkur ganga um sinn.
    3. Við skulum setja stefnuna á mið frjálsræðis og opnunar í viðskiptum en þau hafa í tímans rás verið fengsælust í lífskjarasókn þjóðanna.
    Ef við höfum þessi þrjú atriði í huga er ég sannfærður um að okkur farnast vel í átökunum við þá erfiðleika sem að okkur steðja og þjóðin hefur falið okkur að leysa.
    Að svo mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln.