Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 14:24:47 (1428)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Frv. það til fjárlaga fyrir árið 1992, sem nú er til 1. umr. í Alþingi, er annað fjárlagafrv. sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram. Því miður verður að segja um þetta frv. eins og um það sem lagt var fram fyrir um það bil ári, að það veldur miklum vonbrigðum. Það veldur vonbrigðum að því leyti að það tekur ekki á þeim vandamálum sem við er að fást í þjóðfélaginu eins og hefði mátt ætla ef tekið er mið af stefnu ríkisstjórnarinnar og ummælum hæstv. forsrh. og annarra hæstv. ráðherra að fjárlög séu undirstaða eða hornsteinn þeirrar efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin rekur. Þar er ítrekað að eitt af mikilvægustu verkefnunum til þess að ná tökum á efnahagsmálum, viðhalda stöðugleika og efla atvinnulíf sé að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum, að fjárlög séu hallalaus. Það eru nánast einu markmiðin í stjórn efnahagsmálanna. Annað skal látið afskiptalaust. Samkeppni hins frjálsa markaðar á að sjá um afganginn.
    Nú veit hver einasti maður, sem á annað borð fylgist með stjórnmálaumræðunni í þjóðfélaginu og hugsar eitthvað um stöðu efnahagsmála, að verulegur halli blasir við á fjárlögum yfirstandandi árs þrátt fyrir fögur fyrirheit um að hann skyldi ekki fara yfir 4 milljarða króna. Fullyrt var að þau fjárlög, sem samþykkt voru í fyrra, væru trúverðugri en nokkru sinni fyrr vegna þess hvernig staðið hefði verið að öllum undirbúningi og vinnubrögðum við fjárlagagerðina og markmiðið var að ná hallalausum fjárlögum á tveimur árum. Nú blasir við að halli á fjárlögum yfirstandandi árs verði að minnsta kosti 10--12 milljarðar króna og fyrir framan okkur höfum við fjárlagafrv. fyrir næsta ár þar sem hallinn er talinn verða rúmir 6 milljarðar. Af þessu sést að ríkisstjórnin er langt frá sínum fyrri markmiðum að ná niður halla ríkisfjármálanna á tveimur árum.
    Þar að auki er full ástæða til að óttast að sú tala sem blasir við okkur nú sem halli á fjárlögum næsta árs sé ekki mjög trúverðug og líklegt að hún verði enn hærri --- ef ekki þegar við gerð fjárlaganna, þá muni reynslan sýna það á næsta ári ekki síður en á árinu sem nú er að líða. Reyndar hygg ég að þessar áhyggjur hafi að nokkru komið fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh. við frv. áðan þó hann hafi enn einu sinni lýst því yfir að að þessu sinni væri um að ræða enn trúverðugri fjárlagagerð en nokkru sinni fyrr.
    Tekjuhliðin er með mörgum óvissuþáttum. Kemur það í fyrsta lagi fram í því að enn er verið að fjalla um það hvernig standa eigi að skattalagabreytingum, veigamiklum þáttum í tekjuöflun ríkissjóðs eins og t.d. virðisaukaskattinum, sem samkvæmt frv. á að skila rúmlega 41 milljarði kr. eða um það bil 40% af öllum tekjum ríkissjóðs. Þar er enn verið að velta fyrir sér breytingum. Í greinargerð frv. eru boðaðar ákveðnar breytingar en nú veit alþjóð að þær forsendur standast ekki lengur og verið er að velta fyrir sér nýjum og allt öðrum hugmyndum. Þetta sýnir best hringlandaháttinn og ósamstöðuna innan stjórnarflokkanna við gerð og undirbúning fjárlagafrv.
    Í öðru lagi gerir tekjuáætlunin ráð fyrir því að ríkisfyrirtæki eða opinberar stofnanir verði seld og sú sala skili 1,5 milljörðum kr. í ríkissjóð á næsta ári. Allir þekkja fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar á þessu ári hvað varðar að afla tekna í ríkissjóð með sölu opinberra fyrirtækja en vafasamt er hvort helmingur af áætluðum tekjum upp á 1 milljarð króna muni nást. Reyndar má geta þess að á seinustu mínútum hefur mér borist svar frá fjmrn. þar sem kemur fram að aðeins 240--250 millj. kr. hafa þegar skilað sér í ríkissjóð og alger óvissa er enn um það hvort takist að ná þeim hálfa milljarði sem síðustu spár hafa byggst á. Hér er því um mikla óvissu að ræða auk þess sem upphæðin er háð sölu á ríkisbönkunum, Búnaðarbanka og/eða Landsbanka, sem ég leyfi mér að efast um að sé með samþykki allra stjórnarliða.
    Í þriðja lagi má benda á að gert er ráð fyrir auknum tekjum í ríkissjóð af arðgreiðslu opinberra fyrirtækja, í sumum tilfellum þeirra sömu og á að selja. Sýnist mér þar ýmislegt rekast hvað á annars horn og kem ég nánar að því síðar í ræðu minni.
    Þetta eru aðeins nokkrir þættir um óvissuna á tekjuhlið fjárlagafrv. sem hægt er að telja upp.
    Sömu sögu má segja um útgjaldahliðina. Þar hygg ég að séu ýmsar hugmyndir og ráðagerðir um sparnað sem erfitt verður að standa við eða ná fram.

    Áfram er kreppt að útgjöldum til hinna svokölluðu velferðarmála og er sama hvort borið er niður á sviði mennta- og menningarmála eða í heilbrigðis- og tryggingakerfinu.
    Ráðgert er að skera Lánasjóð íslenskra námsmanna niður um 300 millj. í viðbót við þær 500 millj. sem taldar eru sparast á þessu ári. Þessi mikli niðurskurður hefur nú þegar haft veruleg áhrif á getu ungs fólks til að sækja langskólanám svo sem fram kom á sl. hausti og þau áhrif eiga eftir að segja enn frekar til sín með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þá lækkar framlag til grunnskóla vegna samdráttar í kennslumagni. Einnig eru framlög til íþrótta og æskulýðsmála lækkuð.
    Í heilbrigðis- og tryggingamálum er áformað að lækka útgjöld vegna lífeyrisþega um nær 600 millj. kr. með sérstökum aðgerðum sem þó er eftir að útfæra nánar. Þá eru einnig boðaðar áframhaldandi tilraunir til að lækka lyfjakostnað og útgjöld vegna sérfræðiþjónustu en þær tilraunir hafa fremur lítinn árangur gefið hingað til. Loks má nefna umtalsverðan niðurskurð á útgjöldum vegna meðferðar áfengissjúkra sem hlýtur að draga úr þjónustu á því sviði.
    Fullyrt er að sparnaður hafi náðst í opinberum rekstri á því ári sem nú er að líða og kann að vera að á það megi benda í rekstri einstakra stofnana að útgjaldatölurnar séu eitthvað lægri en þær voru árið á undan. Sé þetta skoðað nánar er ekki allt sem sýnist. Sem dæmi um hvað hefur verið að gerast má t.d. benda á þróunina í heilbrigðismálum. Ef til vill er hægt að sýna fram á að útgjöld til sjúkrahúsa hafi lækkað í krónutölu svo einhverjum hundruðum milljóna króna nemur. Á móti kemur að útgjöld til tryggingakerfisins eða þess þáttar sem lýtur að hliðstæðri þjónustu og sjúkrahúsin veita, þ.e. greiðslur til sérfræðinga fyrir þá þjónustu sem þeir veita á sínum stofum úti í bæ, hefur stóraukist á ný um hundruð milljóna. Þetta segir okkur það sem vitað var fyrir fram að einstaklingarnir þurfa auðvitað að leita sér lækninga eftir sem áður. Það gera þeir með því að fara á stofur hjá sérfræðingum ef þeir fá ekki inni á sjúkrahúsum sem hafa lokað deildum og dregið úr þjónustu vegna þess hversu kreppt hefur verið að þeim í fjármálum. Þeir sem áður þurftu að leita til þessara stofnana hafa ekkert læknast við niðurskurð fjárframlaga. Þeir verða eftir sem áður að fá sína aðhlynningu og leita til lækna.
    Þó útgjöld til sérfræðinga hafi ekki hækkað jafnmikið og útgjöld til sjúkrahúsanna hafa lækkað þá má, því miður, finna mismuninn í því að biðlistar vegna einstakra aðgerða hafa lengst verulega vegna þess að dregið hefur verið úr þjónustunni. Má í því sambandi benda á frétt í Morgunblaðinu frá 15. okt. sl. þar sem segir að á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sé nú allt að árs bið eftir aðgerðum í kjölfar niðurskurðar. Í fréttinni segir að sjúkrahúsinu hafi verið gert að spara í rekstri um 44 millj. kr. frá fyrra ári og segir framkvæmdastjórinn að þetta hafi vissulega verið erfitt. Fólk hafi fundið fyrir því að þjónusta sjúkrahússins hafi verið skert miðað við það sem áður var. Orðrétt er haft eftir honum, með leyfi forseta:
    ,,Það er alveg ljóst að við höfum fundið fyrir því í þjónustu spítalans að seglin hafa verið dregin saman og það kemur m.a. fram í því að biðlistar hafa lengst töluvert eftir aðgerðum.``
    Síðan segir framkvæmdastjórinn að biðlistar eftir aðgerðum á bæklunardeild hafi lengst verulega og væri árs bið eða jafnvel meira eftir vissum aðgerðum á deildinni sem vissulega væri bagalegt fyrir sjúklinga.
    Með svona aðferðum er auðvitað hægt að sýna tímabundna lækkun í ríkisútgjöldum en hver er hinn raunverulegi árangur og hver eru áhrifin til lengri tíma litið? Ég er hræddur um að við eigum eftir að bíta úr nálinni með það og sitja uppi með vandamál sem verður enn dýrara að leysa en að bregðast við þeim á réttan hátt nú þegar.
    Þetta er aðeins eitt lítið dæmi um þá þróun sem við okkur blasir og segir okkur í raun að þær aðferðir sem gripið hefur verið til til að reyna að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálunum hafa í mörgum tilfellum reynst haldlitlar og þarf að huga að nýjum leiðum sem betur reynast þegar til lengri tíma er litið.
    Af framansögðu má vera ljóst að það er til lítils að tala ítarlega um það frv. sem hér liggur fyrir vegna þess að svo margt hlýtur að eiga eftir að breytast við meðferð þess í þinginu og reyndar einnig hjá hæstv. ríkisstjórn, hjá hæstv. fjmrh. og hjá þingflokkum ríkisstjórnarinnar sem óhjákvæmilega eiga eftir að taka ýmsar grundvallarákvarðanir um undirstöðuþætti ríkisfjármálanna áður en hægt er að ræða málið í heild á hv. Alþingi með heildaryfirsýn yfir það hvernig tekjur og gjöld eiga að líta út og hvernig teknanna á að afla og hvernig gjaldahliðin kemur í raun til með að líta út.
    Alvarlegasta vandamálið sem við okkur blasir nú í þessu þjóðfélagi og þar af leiðandi einnig mikilvægasta viðfangsefni hæstv. ríkisstjórnar og stjórnvalda er auðvitað atvinnuástandið og sú alvarlega vofa atvinnuleysis sem nú sækir meira og meira á íslenskt þjóðfélag og íslenskt þjóðlíf.
    Atvinnuleysið virðist vera að festa hér rætur sem viðvarandi ástand. Gert er ráð fyrir 3,5--4% atvinnuleysi á næsta ári samkvæmt forsendum frv. en ef litið er á spár vinnuveitenda hafa þeir hingað til spáð 6--7% atvinnuleysi en seinustu daga hafa spár farið upp úr öllu valdi. Menn nefna tölur sem eru með því hæsta sem þekkist í nágrannalöndunum, allt að 15--20%. En þær spár byggjast líka á því að gjaldþrotaleiðin verði farin til enda og ekkert verði gert til bjargar. Því verður enn ekki trúað að nokkur ríkisstjórn sé svo með öllu firrt sambandinu við það þjóðfélag sem hún þó á að stjórna að slíkt geti gerst. Auk þess eru spár upp á 4--7% atvinnuleysi að meðaltali meira en hægt er að una við. Maður spyr sig: Hvað er að gerast í þjóðfélagi þar sem ungir og, hingað til að minnsta kosti taldir efnilegir forsvarsmenn stórra atvinnufyrirtækja telja orðið tímabært að kenna fólki að vera atvinnulaust og sætta sig við það ástand? Það setur að mér óhug er ég heyri svona tíðindi.

    Svipaður var tónninn í ,,Vísbendingu``, vikuriti um viðskipti og efnahagsmál, fyrr á þessu ári en þar sagði m.a., með leyfi forseta:
    ,,Vinnumarkaðurinn hefur nánast verið í jafnvægi og launaskrið hefur verið lítið eða ekkert. Verðbólga hefur minnkað. Ef reynt yrði að færa atvinnuleysið niður á það stig sem var á árunum 1986--1988 mundi verðbólga án efa aukast aftur. Aukist atvinnuleysi ekki mikið frá því sem verið hefur undanfarin ár virðist því ekki vera ástæða til þess að gera sérstakar ráðstafanir til þess að draga úr því``.
    Hér er í raun verið að staðfesta það að ,,hæfilegt`` atvinnuleysi sé kjörstaða til að halda niðri verðbólgu og launakröfum. Þetta tel ég ill tíðindi og óásættanleg sjónarmið.
    Aðgerðir til lausnar þessum mikla vanda hljóta að vera mikilvægasta viðfangsefni dagsins í dag og við því verða stjórnvöld að bregðast, tilknúin ef ekki vill betur til. Aðgerðaleysi hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum er að verða mikið áhyggjuefni. Það kemur ekki síst fram í umfjöllun fulltrúa atvinnulífsins í landinu, bæði vinnuveitenda og launþega. Nýlega flutt stefnuræða hæstv. forsrh. eykur ekki mjög vonir manna eða bjartsýni. Þar kom lítið fram um það hvað hæstv. ríkisstjórn hygðist gera til þess að takast á við þennan vanda sem við blasir og helst mátti skilja að áfram yrði fylgt gjaldþrotastefnunni til þess að hreinsa til í atvinnulífinu og skapa einhverjum nýjum öflum starfsvettvang til þess að takast á við verkefnin.
    Nú hefur hins vegar komið í ljós í umræðunni seinustu daga að þessa stefnu telja aðilar vinnumarkaðarins algjörlega óviðunandi. Í nýlegu blaðaviðtali greinir Magnús Gunnarsson, formaður Vinnuveitendasambands Íslands, frá fundi sem forsvarsmenn samtaka í sjávarútvegi áttu með hæstv. forsrh. eftir að þeir höfðu hlýtt á stefnuræðu hans til þess að reyna að fá einhvern frekari botn í það hvað ríkisstjórnin hyggst gera. Lýsing Magnúsar af þeim fundi var ekki beinlínis uppörvandi. Með leyfi forseta er haft eftir Magnúsi í DV 15. okt. sl. svohljóðandi:
    ,,Það kom ekkert út úr þessum fundi með forsrh. og menn urðu fyrir vonbrigðum. Það er ljóst að forsrh. er þeirrar skoðunar að það þurfi að herða enn meira að sjávarútveginum til þess að fá fram þær breytingar sem hann telur nauðsynlegar. Leiðin til þess sé að gera ekki neitt``.
    Það eru stór orð sem hér eru viðhöfð og lýsa í raun þeirri stefnu sem við stjórnarandstæðingar höfum talið að ríkisstjórnin fylgdi þegar forsvarsmenn atvinnulífsins komast að þeirri niðurstöðu að leið ríkisstjórnarinnar sé að gera ekki neitt.
    Það er mikilvægt að heyra frá Magnúsi Gunnarssyni, svo og ýmsum öðrum talsmönnum vinnuveitenda, að þeir eru ekki sammála þessari aðgerðaleysis- og gjaldþrotaleið. Þeir telja þvert á móti að gjaldþrotaleiðin hljóti að leiða til ófarnaðar þegar til lengri tíma er litið. Ástæðurnar fyrir því séu meðal annars þær að það taki tíma að koma þessum ,,óarðbæru`` fyrirtækjum í gjaldþrot og á meðan hafi það mjög alvarlegar afleiðingar, einnig fyrir hin sterku og grónu fyrirtæki og hættan sé sú að þau fari með í fallinu þegar þessi allsherjargjaldþrotahrina ríður yfir.
    Þá hafa þeir einnig lýst efasemdum um það að þetta skapi meira svigrúm fyrir þau fyrirtæki sem eftir lifi, því það séu í raun reist ný fyrirtæki á rústum hinna eldri til þess þrátt fyrir allt að reyna að halda atvinnulífinu í byggðarlögunum gangandi. Þau hafa þá fengið nýjan rekstrargrundvöll og hefja sína starfsemi við allt önnur skilyrði, kannski litlar eða svo til engar skuldir og keppa við fyrirtækin sem hafa verið að berjast við að halda sér gangandi þrátt fyrir allt við þau erfiðu skilyrði sem nú er glímt við.
    Og ætli gjaldþrotastefnan sé bara einföld lagfæring á veikburða efnahags- og atvinnulífi sem ekki skilji nein sár eftir sig? Ætli það þurfi ekki einhverjir að bera byrðar af gjaldþrotastefnunni einnig? Ég er hræddur um að svo sé. Og ég er hræddur um að það séu fleiri en bankar og sjóðir sem verða fyrir áföllum. Þar er auðvitað um að ræða fjölda einstaklinga, smærri verktaka og þjónustuaðila sem líða fyrir og geta oftar en ekki lent í gjaldþrotum sjálfir eftir að hin stærri og áhrifameiri fyrirtæki á vinnumarkaðnum hafa verið gerð gjaldþrota. Þannig er aðferðin sem beitt er og það kemur betur og betur fram að við það getur þjóðin ekki unað og ýmis öfl í þjóðfélaginu munu nú á næstunni, eins og komið hefur í ljós seinustu daga, knýja stjórnvöld með góðu eða illu til aðgerða í þessu sambandi annars verði ríkisstjórnin hreinlega að víkja og nýir aðilar að taka við völdum til þess að reyna að snúa hjólinu við.
    Fulltrúar launþega hafa ekki síður tekið í þennan sama streng en fulltrúar vinnuveitenda og lýst því yfir að það megi öllum vera ljóst að það að snúa hér við blaði og hefja nýja sókn í atvinnumálum verði ekki gert fyrirhafnarlaust og án þess að einhverjir þurfi að leggja eitthvað af mörkum. Auðvitað muni það koma víða við. Það mun vafalaust kalla á skattbreytingar sem séu atvinnulífinu í vil sem muni þá koma niður á launþegum í einu eða öðru formi. En er það ekki betra en að horfa upp á það ástand sem nú blasir við með stöðugt auknu atvinnuleysi og í kjölfar þess öllum þeim erfiðleikum og vandamálum sem ávallt fylgja og við höfum fyrir okkur dæmin um frá nærliggjandi þjóðfélögum?
    Í skattamálunum þarf að breyta áherslum um leið og skattbyrðin er flutt til. Það þarf að herða skatteftirlitið og rannsókn skattsvikamála og leggja aukna áherslu á að uppræta svokallaða svarta atvinnustarfsemi þannig að allir beri sem réttlátastan hlut skattanna. Það ber að fagna þeim breytingum sem nú er unnið að í fjmrn. varðandi þessi mál og greint er frá í grg. fjárlagafrv. Hæstv. fjmrh. gat þess áðan og hann verður að eiga það sem hann á þó ég telji reyndar að hann og forverar hans í embætti hefðu getað gengið rösklegar fram á þessu sviði. Það er t.d. hart til þess að vita, ef satt er, að innheimta virðisaukaskatts sé lítt eða ekki betri en innheimta söluskattsins var, en ein meginröksemdin fyrir upptöku virðisaukaskatts

á sínum tíma var einmitt sú að hann innheimtist betur en söluskatturinn.
    Þá teljum við framsóknarmenn rétt að taka upp hátekjuskatt þar sem ljóst er að tekjubilið í þjóðfélaginu er stöðugt að vaxa. Einnig erum við fylgjandi skatti á fjármagnstekjur og teljum að sá tekjuauki sem af því getur leitt eigi að skila sér í ríkissjóð en ekki upphefja aðra eignarskatta svo sem hæstv. fjmrh. lætur að liggja. Með þessum og öðrum aðferðum verður að leitast við að breytingar á skattbyrðinni lendi fyrst og fremst á þeim sem hafa bökin til að bera.
    Nú má enginn skilja orð mín svo að ég haldi að það sé auðvelt verk að stilla fjárlögum upp á þann hátt að þau taki meira tillit til þarfa atvinnulífsins í þeirri stöðu sem nú blasir við eða láta ríkisfjármálin gegna því lykilhlutverki sem þau eiga að gegna í sambandi við efnahagsstjórnun í landinu. Það veit ég vel að er ekki auðvelt. Vissulega er viðleitni ríkisstjórnarinnar að draga úr ríkisútgjöldum og lækka ríkissjóðshalla til þess að skapa svigrúm á öðrum sviðum virðingarverð.
    Ástand það sem við blasir verður ekki eingöngu um kennt þeirri ríkisstjórn sem situr eða rangri stjórnun efnahagsmála. Þar koma að sjálfsögðu einnig inn í myndina utanaðkomandi þættir sem stjórnvöld ráða lítt eða ekki við. En sé litið til þess sem beinlínis kemur stjórnvöldum og hæstv. núv. ríkisstjórn við er auðvitað ljóst að aðgerðir þær sem gripið var til á seinasta ári hafa í mörgum tilvikum reynst rangar. Vil ég þar fyrst nefna vaxtahækkunina sem ríkisstjórnin stóð fyrir í upphafi valdaferils síns og hlaut auðvitað að verða veikburða og skuldugu atvinnulífi allt of þung byrði. Það hefur síðan leitt til erfiðleika hjá ýmsum fyrirtækjum, aukins atvinnuleysis, minni tekna einstaklinga og þar með ríkissjóðs og beinna útgjalda hans í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.
    Þetta voru fyrstu mistökin. Síðan hefur einnig sýnt sig að fjárlagagerðin fyrir það ár sem nú er að líða var með öllu óraunhæf eins og við stjórnarandstæðingar bentum reyndar á fyrir um það bil ári og er nú að sanna sig betur og betur með hverjum degi sem líður. Sparnaðaraðgerðirnar hafa ekki náð tilætluðum árangri og tekjurnar hafa að sjálfsögðu dregist mjög saman vegna hins erfiða atvinnuástands og ört vaxandi atvinnuleysis sem hefur dregið úr sköttum, bæði tekjusköttum og þó kannski enn þá frekar veltisköttum, í þjóðfélaginu. Á því sjáum við vissulega að umsvif í þjóðfélaginu og nauðsyn þess að ríkisvaldið á hverjum tíma beiti áhrifum sínum í því skyni að efla atvinnulíf skilar sér aftur í ríkiskassann í auknum tekjum.
    Það sem ríkisstjórnin er þó að boða á þessu sviði og vissulega er vert að minnast á er í fyrsta lagi viðbótarfjármagn sem verja á til atvinnuskapandi aðgerða upp á 2.000 millj. kr., lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 45% í 33% skatt, fyrirheit um 300 millj. kr. til rannsókna- og þróunarstarfsemi og sú áhersla sem reynt er að leggja á minni lántökuþörf ríkissjóðs og opinberra fyrirtækja. Allt eru þetta þættir sem ættu að auka svigrúm atvinnulífsins og skapa betri stöðu til þess að draga úr atvinnuleysi í landinu en því miður eru á þessu einnig ýmsir meinbugir. Hvað þessar 2.000 millj. kr. varðar, en þar af eiga 1.800 millj. kr. að ganga til vegagerðarframkvæmda, fylgir sá böggull skammrifi að hér er um að ræða lántöku sem greiðast á af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðar síðar og hætt er við að muni þá leiða til miklu minni framkvæmda og skapa ný vandamál. Það má kannski kalla þetta, þar sem núv. hæstv. ríkisstjórn og ráðherrum hefur orðið tíðrætt um fortíðarvanda, nýsköpun fortíðarvanda í þeim skilningi að stjórnvöld eftir þrjú til fimm ár munu þurfa að takast á við það hvernig eigi að leysa úr vandanum öðruvísi en að draga þá stórlega úr atvinnu á þessu sama sviði.
    En það merkilega er að það er líka verið að hnýta nýja pinkla á Vegagerðina á sama tíma og menn hæla sé af því að auka framkvæmdir um 1.800 millj. kr. Í fyrsta lagi er Vegagerðinni nú ætlað að standa straum af rekstri og stofnkostnaði við ferjur og flóabáta sem nemur 330 millj. kr. og er þó kannski ekki öllu til skila haldið og gæti orðið hærri tala þegar upp er staðið.
    Í öðru lagi, það sem ef til vill er enn furðulegra, að á sama tíma og viðbótarfjármagni er veitt í málaflokkinn þá er ætlað að skerða markaðan tekjustofn Vegagerðarinnar um 344 millj. kr. og taka þá fjármuni beint í ríkissjóð. Þarna er strax búið að taka nær 700 millj. kr. til baka af þessari viðbótarfjárveitingu. Í þriðja lagi er auðvitað langt frá því að staðið sé við þá vegáætlun sem samþykkt hefur verið. Hún er að auki skorin niður svo mörg hundruð millj. kr. skiptir en viðbótarfjármunum í ýmsum tilvikum varið til annarra verka en ákveðin voru í gildandi vegáætlun.
    Það er vissulega ánægjulegt ef menn treysta sér til þess að flýta vegaframkvæmdum og þrátt fyrir allt mun þó vera um einhverja raunaukningu á framlögum að ræða sé miðað við fjárveitingar ársins í ár. En þar sem hér er verið að velta fyrir sér framkvæmdum til þess að treysta atvinnuástandið og auka vinnu í landinu má kannski spyrja sig hvort ekki hefði komið til greina að verja að minnsta kosti einhverju af þessum fjármunum til verkefna sem hefðu verið enn meira atvinnuskapandi en framkvæmdir í vegagerð.
    Ég leyfi mér t.d. að nefna í því sambandi viðhald ýmissa opinberra mannvirkja eða bygginga sem ég veit að full þörf hefði verið að halda betur við á undanförnum árum. Það mun vera fyrirliggjandi í heilbrrn. áætlun um viðhaldsverkefni á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og læknisbústöðum úti á landsbyggðinni sem gerir ráð fyrir fjárþörf upp á 500 millj. kr. til þess að ráðast í brýn verkefni á þessu sviði á næstu árum. Þar af munu a.m.k. 100 millj. kr. vera algjör forgangsverkefni því að sé ekki brugðist við hið fyrsta að lagfæra þau hús þá muni ástand þeirra leiða til skemmda sem síðar muni kosta enn hærri upphæðir að gera við. Framkvæmdir af þessu tagi eru mjög atvinnuskapandi og er talið að allt að 65% af þeim fjármunum sem varið er til viðhaldsverkefna séu launagreiðslur, svo ljóst er að verkefni af þessu tagi munu

bæta atvinnuástand hjá iðnaðarmönnum, sem víða er mjög bágborið, og þessi verkefni mundu dreifast á mikinn fjölda einstaklinga um allt land. Ég nefni þetta af því mér er kunnugt um þessa áætlun en ég er líka sannfærður um að það eru mörg önnur verkefni fyrirliggjandi sem brýnt væri að ráðast í varðandi viðhald á opinberu húsnæði.
    Hvað það varðar að lækka tekjuskattshlutfall fyrirtækja úr 45% í 33% er hætt við að það dugi skammt eins og nú er ástatt í rekstri fyrirtækja hér á landi. Fá fyrirtæki skila hagnaði og greiða því lítinn eða engan tekjuskatt. En þetta er vissulega fyrirheit sem vonandi kemur til með að hafa áhrif þó síðar verði.
    Fjárveitingin til rannsókna- og þróunarstarfsemi að upphæð 300 millj. kr. er einnig, því miður, fugl í skógi en ekki í hendi þar sem hún er skilyrt því að hægt sé að selja eitthvað af ríkisfyrirtækjum í opinberri eigu en ég hef fyrr í ræðu minni gert grein fyrir þeirri óvissu sem ég tel vera ríkjandi um möguleika á að standa við þann þátt tekjuáætlunar frv.
    Og enn verður að halda áfram og segja svipaða sögu um þá áherslu að ríkissjóður og opinber fyrirtæki dragi úr lántökum. Þá verður að ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns að forsendur fjárlagafrv. eru enn þá svo óljósar að það er nánast út í bláinn að tala um þessa þætti sérstaklega þar sem tekjuhliðin er enn þá öll í uppnámi og alveg ljóst að tekjuáætlunin í heild sinni annars vegar og útgjaldaáætlunin hins vegar eru á svo veikum grunni reistar að það eru, því miður, engar líkur á þegar upp verður staðið að lántökur ríkissjóðs verði minni en til dæmis á þessu ári eða undanförnum árum þó að fyrirheitin séu út af fyrir sig góð og rétt að undirstrika mikilvægi þeirra.
    Að þessu öllu samandregnu má því ef til vill spyrja aftur hvort ekki sé með öllu óraunhæft að eyða tíma í þessa umræðu nú, umræðu um fjárlagafrv. sem allir vita að á eftir að taka stórkostlegum breytingum á næstu dögum eða vikum ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að taka eitthvert mið af því sem er að gerast í þjóðfélaginu og láta ekki utanaðkomandi aðila taka algjörlega af sér völdin. En það er nánast það sem er að gerast.
    Ég ætla þó, þrátt fyrir vangaveltur mínar og efasemdir um tilgang þessarar umræðu, að fara yfir nokkra þætti frv. og vekja athygli á því sem ég tel nauðsynlegt að koma á framfæri. Ítarleg umræða um einstaka liði mun hins vegar bíða 2. umr. þegar ljóst verður hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að ganga frá frv. og hver verða viðbrögð fjárln. í þeirri vinnu sem er fram undan.
    Ég gat þess í upphafi máls míns að mér virtist sem hæstv. ríkisstjórn hefði mikla trú á mætti samkeppninnar og hins frjálsa markaðar til þess að leysa hin ýmsu þjóðfélagsvandamál sem við væri að fást. Mér virðist stappa nærri því að skoðun hæstv. ríkisstjórnar nálgist oftrú á þessum hagfræðikenningum. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að ríkið losi sig við þær eignir og þau fyrirtæki sem eru í samkeppni við aðila á hinum frjálsa markaði ef ríkið telur sig ekki hafa sérstaka ástæðu eða sérstakan hag af því að reka þá starfsemi. Einnig tel ég skynsamlegt að hið opinbera lini tökin á ýmsum þeim rekstrarþáttum sem verið hafa alfarið í opinberri umsjá á undanförnum árum. Ég nefni til dæmis starfsemi Pósts og síma. Þar eru sjálfsagt ýmsir rekstrarþættir sem einkaaðilar geta allt eins vel séð um eins og þetta opinbera fyrirtæki og þá er sjálfsagt að gefa þeim svigrúm án þess að svo stórt skref sé stigið að selja allt fyrirtækið. Það tel ég ekki tímabært.
    Mér virðist ríkisstjórnin nánast telja það lífsspursmál að selja allt sem á einhvern hátt tengist ríkisrekstri ef mögulegt er að koma því út á hinn almenna markað. Þetta finnst mér í ýmsum tilvikum nálgast oftrú eða jafnvel hrein trúarbrögð og virðist þá engu skipta hvort hægt er að finna skynsamleg rök sem mæla með slíkum aðgerðum.
    Sama er reyndar að segja um það að opinberar stofnanir eigi í meira og meira mæli að reka starfsemi sína með sértekjum og skila arði í ríkissjóð. Þó að þetta sé í sumum tilvikum eðlilegt virðist í öðrum líkast því sem hugsjónin eða trúarbrögðin hlaupi með menn í hreinar gönur svo tillögurnar verða nánast hlægilegar, ef ekki má segja eins og skrípaleikur. Mig langar til að nefna nokkur dæmi um þetta máli mínu til stuðnings.
    Það er til dæmis gert ráð fyrir því að embætti húsameistara ríkisins afli sér að fullu sértekna til þess að standa undir kostnaði við starfsemi sína. En ekki nóg með það. Embættið á auk þess að skila arði í ríkissjóð, 5,1 millj. kr. Og hvaðan skyldi þessi arður í raun koma? Hverjum skyldi húsameistari ríkisins eiga að selja þjónustu sína? Auðvitað engum öðrum en ríkissjóði. Þannig á ríkissjóður að greiða umfram áætlaðan kostnað af starfsemi embættis húsameistara 5,1 millj. kr. til embættisins þannig að það geti síðan skilað þessum sama ríkissjóði 5,1 millj. kr. í arð. Hér finnst mér hugsjónin vera farin að hlaupa með menn í gönur.
    Annað dæmi, sem mig langar til að nefna, varðar hugmyndir um sölu á Þvottahúsi Ríkisspítalanna og jafnframt hugmyndir um að þetta sama fyrirtæki greiði arð í ríkissjóð. Í greinargerð frv. þar sem fjallað er um Ríkisspítala kemur meðal annars fram að gert sé ráð fyrir því að Þvottahúsi Ríkisspítalanna verði breytt í hlutafélag og hlutabréf verði síðan seld. Á andvirði þeirra hlutabréfa að renna til Ríkisspítalanna sem sértekjur. Sértekjurnar eru sem sagt hækkaðar um 60 millj. kr. vegna áætlaðrar hlutabréfasölu. Síðan kemur sú stórkostlega setning að ef ekki takist að selja þessi hlutabréf fyrir 60 milljónir þá verði að draga úr starfsemi Ríkisspítalanna sem þessu nemur. Sem sagt: Ef ekki tekst að einkavæða þvottahúsið á að hætta að veita þjónustu á spítölunum. Kannski á enn frekar að fækka bæklunaraðgerðum og lengja

biðlistana á því sviði sem þó eru vissulega lengri en góðu hófi gegnir. En þá er reyndar ekki allt upp talið. Að auki er gert ráð fyrir að þetta sama þvottahús skili síðan arði í ríkissjóð, líklega af þeim hlutabréfum sem ekki verða seld og ríkið á áfram. Og hver skyldi nú eiga að greiða þann arð? Kannski þetta þvottahús taki að sér verkefni fyrir aðra óviðkomandi aðila og ríkissjóður geti haft arð af því? Líklegra er þó að þvottahúsið muni a.m.k. fyrst um sinn halda áfram að þjóna Ríkisspítölunum og það er nú einu sinni svo að Ríkisspítalarnir eru reknir að fullu og öllu af ríkissjóði þannig að þá er hér komið upp hliðstætt dæmi og um húsameistarann. Ríkissjóður, í gegnum ríkisspítala, greiðir fyrir þjónustu til þvottahússins umfram kostnað þannig að þvottahúsið fái arð frá ríkissjóði til þess að greiða aftur í ríkissjóð. Er þetta ekki hálfgerður skrípaleikur?
    Nú má líka hugsa aðeins lengra fram í tímann og setja dæmið upp þannig: Staðreyndin er sú að Þvottahús Ríkisspítalanna hefur veitt þjónustu á kostnaðarverði sem hefur verið undir því sem aðilar á hinum frjálsa markaði, almenn þvottahús hér á svæðinu, hafa getað veitt. Þau hafa ekki treyst sér til þess að veita Ríkisspítölunum þjónustu á því verði sem hægt hefur verið að reka þvottahúsið á. Ef svo færi nú að þessi fyrirtæki á frjálsa markaðnum eða einhverjir aðrir einstaklingar eignuðust þvottahúsið og færu að reka það með arðsemissjónarmið í huga er líklegt að þessi kostnaður fyrir hið opinbera, fyrir ríkið, fyrir spítalann, muni hækka. Hver veit nema að einhverjum árum liðnum, eigum við að segja 5--10 árum liðnum, komist þeir sem þá stjórna Ríkisspítölunum að þeirri niðurstöðu að skynsamlegasta leiðin til að fá þessa þjónustu sem ódýrasta sé að Ríkisspítalarnir setji upp sitt eigið þvottahús af því að það er ódýrara en að kaupa þjónustuna af hinum frjálsa markaði. Þá væri skrípaleikurinn fullkomnaður.
    Ég hef að undanförnu gert að umtalsefni ástandið í atvinnumálum en get þó ekki látið hjá líða að nefna nokkur atriði sem mér finnst sérstaklega stinga í augun þegar litið er til þess hvað ríkisvaldið eða hið opinbera getur gert til að styrkja atvinnustarfsemina í landinu. Þar er í fyrsta lagi að nefna að enn þá er dregið úr útgjöldum til Byggðastofnunar og virðist markvisst stefnt að því að gera þá stofnun ófæra um að sinna nokkrum verkefnum sem geta orðið til að styrkja atvinnulífið í landinu. Hér er að vísu ekki um háa upphæð að ræða. Framlag lækkar úr 180 millj. kr. í 170 millj. kr. en þetta sýnir aðeins að áfram er haldið á sömu braut. Líklegt er talið, þegar grennslast er fyrir um það hvar þessar 10 millj. kr. muni koma niður, að það muni þýða skerðingu á styrkjum til hinna ýmsu átaksverkefna sem Byggðastofnun hefur beitt sér fyrir og hafa vissulega verið þýðingarmikil fyrir ýmsa starfsemi, þó smá sé í sniðum, sem getur veitt fólki atvinnu sem hefur ekki að öðru að hverfa víða úti um land. En það þykir trúlega of smátt í sniðum eða lítils virði til þess að núverandi hæstv. ríkisstjórn, sem helst hugsar um álver sem þó láta nú bíða eftir sér, geti haft miklar áhyggjur af svona smámálum.
    Annað atriðið sem ég vil einnig nefna og varðar atvinnumál er sú meðferð sem mér virðist landbrn. fá í þessu fjárlagafrv. Þar er vissulega um að ræða verulegan sparnað eða niðurskurð á fjárveitingum vegna framlaga til hefðbundinnar búvöruframleiðslu sem tengist búvörusamningnum og er í samræmi við ákvæði hans eins og vissulega er rétt að undirstrika. En það er ekki látið þar við sitja heldur virðist ráðist á nánast alla aðra liði sem varða landbúnaðinn og stórlega dregið úr framlögum. Má þar til dæmis nefna að Framleiðnisjóður landbúnaðarins er skertur um 50 millj. kr. frá því sem þó er gert ráð fyrir í búvörusamningnum. Að vísu er gefið fyrirheit um að endurgreiða þær 50 millj. kr. á næsta ári en ekki kæmi það á óvart þótt erfitt yrði að endurheimta þá upphæð. Framlög til jarðræktar, búfjárræktar, Jarðasjóðs og jarðeigna ríkisins eru öll lækkað verulega frá því sem er í núgildandi fjárlögum eða um allt að 50 millj. kr. og mun það verulega þrengja að allri þeirri starfsemi. Þá eru framlög til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins skorin niður um nær 20 millj. kr. og að lokum er veruleg skerðing á framlögum hins opinbera til Lífeyrissjóðs bænda, sem nemur um 85 millj. kr. Á sama tíma eru sérstakar greiðslur sem ganga eiga til niðurgreiðslu á nauta-, svína-, hrossa- og alifuglaafurðum lækkaðar um 200 millj. kr. Upphæð þessi var á sínum tíma ígildi lægra þreps í virðisaukaskatti og bitnar það á sömu aðilum og niðurskurður lífeyrisframlaganna. Þeir bændur sem framleiða þær vörur, sem hér voru upp taldar, verða því fyrir áfalli upp á nær 300 millj. kr. samtals, sem sjálfsagt er álitið að hægt sé að setja út í verðlagið, en vegna ástands á markaði er ekki líklegt að það takist, eins og nú háttar, og því er ekki hægt að sjá annað en um sé að ræða beina skerðingu á launakjörum þessara aðila um nær 300 millj. kr. Það hlýtur að teljast með ólíkindum að fara svo með atvinnugrein sem vissulega á mjög í vök að verjast. En það er sjálfsagt í samræmi við það sem segir í stefnuræðu hæstv. forsrh. þar sem hann fjallar um ástandið í landbúnaði. Þar var eina setningu að finna sem er kannski ástæða til að endurtaka hér svo mönnum sé alveg ljóst hver stefna hæstv. ríkisstjórnar er í málefnum þessarar atvinnugreinar. Setningin sem hæstv. forsrh. lét frá sér fara um málefni landbúnaðar var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Í landbúnaðarhéruðunum minnka tekjur vegna samdráttar í sauðfjárrækt. Það er áhyggjuefni ef ekki tekst þannig til að tekjur þeirra, sem áfram stunda þessa búgrein, verði bærilegar.``
    Þetta er nánast allt sem hægt er að finna í stefnuræðu hæstv. forsrh. og varðar málefni landbúnaðarins og verður varla hægt að telja að hér sé djúpt tekið í árinni. Þó að ríkisstjórnin kunni að hafa einhverjar áhyggjur er nú vart hægt að ímynda sér að það verði lífsviðurværi bændastéttarinnar þó svo að það hljóti að ylja bændum nokkuð um hjartaræturnar að hæstv. forsrh., og þá sjálfsagt ríkisstjórnin öll, hafi nokkrar áhyggjur af ástandinu sem þar blasir við.
    Í tengslum við búvörusamaninginn voru gefin fyrirheit um verulegar fjárveitingar til landgræðslu

og skógræktar á næstu 5--6 árum. Því miður er nú ekki að sjá það neins staðar í frumvarpinu að koma eigi til móts við þessi fyrirheit heldur er þvert á móti framlag til landgræðslu og skógræktar lækkað eins og aðrir liðir og fer þá lítið fyrir fyrirheitunum og væntingum sem voru við það bundnar að eitthvað af þeim bændum sem hverfa frá hefðbundnum búgreinum nú geti snúið sér að því að gerast ræktunarmenn í þess orðs fyllstu merkingu með því að hefja störf við landgræðslu eða skógrækt sem þó er talin geta verið arðbær búgrein hér á landi.
    Stofnunum á vegum sjútvrh. er, eins og ýmsum fleiri opinberum stofnunum, ætlað að fjármagna sig í auknum mæli með sértekjur sem greiðast eiga af atvinnuveginum. Allir vita hvernig ástatt er í sjávarútveginum um þessar mundir en samt sem áður er haldið áfram að auka álögur á þá atvinnugrein. Til dæmis er veiðieftirlitsgjald hækkað verulega sem þýðir auðvitað að þar er um að ræða aukna gjaldtöku. Annað sem vekur athygli í umfjöllun um sjávarútvegsráðuneytið er að framlög til rannsóknarverkefna á vegum sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri og líffræðideildar Háskóla Íslands eru alveg felld niður, svo og viðfangsefni sem inniheldur framlög til gæðaátaks, starfsmenntunar, markaðsöflunar og tilrauna í sjávarútvegi. Það er lækkað úr 50 millj. í 20 millj. eða um 30 millj. kr. Það er því ekki eitt heldur allt sem lendir fyrir á niðurskurðarhíf hæstv. ríkisstjórnar.
    Þó ég segði fyrr að ég ætlaði ekki að fjalla ítarlega um málefni einstakra stofnana að þessu sinni heldur láta það bíða 2. umr. um fjárlagafrv. get ég þó ekki látið hjá líða að nefna hvernig farið er með fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar. Svo virðist sem það sé viðhorf hæstv. ríkisstjórnar að sú stofnun gegni ekki merkilegu hlutverki og eru fjárveitingar til hennar lækkaðar um 7% að raungildi sem þýðir það að einu skipi verður að leggja og þá væntanlega dregið úr starfsemi stofnunarinnar sem því nemur. Ég veit að Landhelgisgæslan gegnir veigamiklu hlutverki bæði á sviði eftirlits og björgunar og því verður að huga vel að því hvort hér sé ekki of langt gengið og öryggishlutverkinu ógnað. Ef hins vegar er hægt að mæta þessu með því að efla starfsemi gæslunnar á öðrum sviðum, þ.e. með auknum rekstri annarra skipa og úthalds í flugrekstrinum, er eðlilegt að það sé skoðað gaumgæfilega en hér vil ég hafa allan fyrirvara á.
    Einnig er ástæða til að athuga vel fjárveitingar til tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. Þar var á þessu ári dregið verulega úr fjárveitingum og eru uppi efasemdir, svo ekki sé nú meira sagt, um að hægt sé að sinna þessu verkefni á þann hátt að viðunandi sé af öryggisástæðum.
    Þá er áhugavert að benda á einn fjárlagalið undir fjmrn. sem ber yfirskriftina Ríkisábyrgðir og tjónabætur. Undir þann fjárlagalið falla greiðslur sem ætla má að ríkissjóður þurfi að greiða vegna tapaðra ábyrgða. Nú bregður svo við að þrátt fyrir fjárveitingu þessa árs, að upphæð 550 millj. kr., er ekki áætlað að verja þurfi í þennan fjárlagalið nema 320 millj. kr. á næsta ári eða um 230 millj. kr. lægri upphæð en í ár. Þetta er út af fyrir sig ánægjulegt og helgast af því að greiðslur út af liðnum í ár hafa ekki verið nema sáralitlar og virðist það staðfesting á því að ef til vill hefur fortíðarvandi sá, sem hæstv. forsrh. hefur verið svo tíðrætt um, ekki verið eins mikill og hann vildi vera láta. Á þetta er ástæða til að benda sérstaklega og lýsa ánægju með að hér skuli vera hægt að lækka fjárlagalið svo nemur mörg hundruð milljónum kr.
    Virðulegi forseti. Ég hef tínt til nokkur atriði úr fjárlagafrv. sem mér fannst ástæða til þess að nefna sérstaklega af því að ég tel að um þau þurfi að fjalla nánar. Fjölmargt fleira mætti auðvitað tína til. En ég ætla ekki að gera það á þessu stigi vegna þess að ég tel að við þurfum nú að setjast niður og velta því fyrir okkur hvernig hægt sé að móta þetta fjárlagafrumvarp þannig að komið sé til móts við þann vanda sem er við er að glíma í íslensku þjóðfélagi og á ég þá einkum við þann vanda sem blasir við atvinnuvegunum. Það er mál sem allir aðilar þessa þjóðfélags þurfa í raun að sameinast um og bregðast við. Aðilar vinnumarkaðarins hafa nú þegar tekið ákveðna forustu í þessu sambandi. Reynslan hefur sagt okkur það á undanförnum árum að aðilar vinnumarkaðarins, ásamt stjórnvöldum, ríkisvaldinu, fulltrúum sveitarfélaga og fulltrúum bankakerfisins verða að leggjast á eitt ef vel á til að takast. Síst af öllu getur ríkisstjórn sú sem situr á hverjum tíma leikið sig ,,stikkfrí`` í slíkri stöðu.
    Ég hef eytt meginhluta ræðutíma míns í að fjalla um atvinnumál og ég ætla að ljúka orðum mínum nú við 1. umr. um fjárlagfrv. fyrir næsta ár með því að lýsa því yfir að Framsfl. er tilbúinn til þess að taka þátt í því að laga frv. að þeim þörfum sem ég hef áður lýst.
    Við verðum að endurskoða skattastefnuna og leita leiða til að létta byrðum af atvinnulífinu en gæta þess jafnframt að sú tilfærsla á sköttum lendi fyrst og fremst á herðum þeirra sem hafa nægjanlega breið bök til að bera. Ég veit að þetta verður ekki auðvelt verk en í það verður að fara.
    Samfara þessu verður að sjálfsögðu að skoða útgjaldahlið frv. Ég hef því lítið rætt að þessu sinni um menntamál, félagsmál og heilbrigðismál, þá málaflokka sem að jafnaði eru taldir til velferðarmála en við þurfum að leita leiða til að gæta ýtrasta aðhalds og sparnaðar í opinberum rekstri og við framsóknarmenn munum ekki skorast undan að taka þátt í þeirri leit.
    Ég tel að farsælast til að ná árangri á þessu sviði sé að leita samstarfs og samvinnu við það fólk sem vinnur við opinbera þjónustu, því störf þeirra eru mikils virði og atvinnuöryggi þeirra mikilvægt. Það á að ræða við fulltrúa samtaka þeirra, hvort heldur það eru launþegasamtök eða fagsamtök, og eiga við þau gott samstarf um leiðir sem geta leitt til varanlegrar lausnar í stað þess að fara fram með flumbrugangi og gerræði sem oftar en ekki er dæmt til að mistakast.
    Við verðum að gera okkur grein fyrir því að skipulagsbreytingar í opinberum rekstri taka sinn tíma.

Þær eru ekki gerðar á einni nóttu og skjóttekinn sparnaður á þessu sviði er ekki auðveldur. Setjum okkur því lengri tímamarkmið til að ná árangri, gefum okkur 3--5 ár til að finna nýjar leiðir sem leitt geta til varanlegs sparnaðar án þess að skerða á óviðunandi hátt þá þjónustu sem við viljum að velferðarþjóðfélagið veiti þegnum sínum. Leitum samræmdra leiða til sparnaðar þar sem þess er gætt að sparnaður á einu sviði eða hjá einni stofnun leiði ekki til aukinna útgjalda hjá annarri.
    Aukum ábyrgð stjórnenda opinberra stofnana og gefum þeim svigrúm til þess að ráða sjálfir nokkru um það hvernig hagræðing og sparnaður er framkvæmdur og leyfum þeim að gera það í samráði við sitt starfsfólk þannig að þeir geti jafnvel haft nokkur áhrif á launaútgjöld sinna stofnana ef vel tekst til í aðhaldsaðgerðum. Ég held að með þessu móti og ýmsum öðrum leiðum, sem vafalaust má finna og ná samkomulagi um við þá sem þurfa að búa við þessar aðgerðir og þær kunna að bitna mest á, getum við náð langt í því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs án þess að skerða á óviðunandi hátt þá þjónustu sem við viljum og teljum nauðsynlegt að hið opinbera veiti.