Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 16:19:22 (1432)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Umræður um fjárlög fyrir árið 1993 eiga sér stað við þær aðstæður í þjóðarbúskapnum sem hljóta að leiða huga landsmanna að þeirri ábyrgð sem hvílir á okkur stjórnmálamönnum, ábyrgð sem felst í því að leiða þjóðina út úr þeim brimgarði sem atvinnulífið og um leið þjóðarbúið allt er í. Þá ábyrgð getum við ekki fært yfir á aðra og við hljótum að takast á við verkefnin og hafa að leiðarljósi að treysta hag okkar til lengri tíma. Stundarmótbyr og óvinsældir verðum við að sætta okkur við og líta til framtíðar. Við stjórnarsinnar verðum að láta stjórnarandstöðunni það eftir að setja sín plön frá einum fréttatíma fjölmiðlanna til annars og haga seglum eftir vindi í von um vinsældir þá stundina. Slíkar vinsældir eru ekki eftirsóknarverðar og eru ekki hjálp þeim sem eru atvinnulausir eða hafa þurft að sætta sig við skertar tekjur.
    Um árabil höfum við staðið fyrir stöðugri útþenslu á vegum ríkisins og gengið hart fram í því að stofna til útgjalda í trausti þess að auðlindir sjávar og afrakstur atvinnulífsins stæðu undir kröfum okkar. Það skýtur því skökku við þegar hlýtt er á það hér í sölum hins háa Alþingis síðustu vikur hjá þeim mönnum sem hafa lengst tekið þátt í stjórn landsins að núverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir beri ábyrgð á minni tekjum og í kjölfar þess nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum og sparnaði í ríkisbúskapnum. Þjóðin skynjar slíkan málflutning og metur að verðleikum.
    Íslenskt efnahagslíf hefur gengið í gegnum langvarandi tímabil stöðnunar og samdráttar allt síðasta kjörtímabil eða allt frá árinu 1987. Þá þróun verður að stöðva og snúa til hagvaxtar og sóknar á öllum sviðum. Meginmarkmið í efnahagsstefnu okkar hlýtur að vera að tryggja viðunandi lífskjör í landinu, jafna búsetuskilyrði og skapa sem best skilyrði til þess að nýta landið og hafið innan efnahagslögsögu okkar. Það verður ekki gert nema með því að skapa atvinnulífinu þau skilyrði að öflug atvinnustarfsemi geti aukið verðmætasköpun þjóðarinnar.
    Efnahagsstefnan og um leið stefnan sem fram kemur í fjárlögum fyrir næsta ár er einn mikilægasti þáttur þess að atvinnuvegirnir geti skilað arði og um leið bætt hag allra við þær aðstæður sem aflabrögð, framleiðsla og markaðir gefa tilefni til nú um stundir. Það er verkefni fjárln. Alþingis að fjalla nánar um fjárlagafrv. áður en það fær endanlega afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Nefndin kallar fyrir sig forsvarsmenn ráðuneyta og stofnana til þess að fara rækilega ofan í einstaka liði ríkisútgjaldanna og gefa fulltrúum sveitarfélaga og félagasamtaka tækifæri til þess að gera grein fyrir erindum sem lögð hafa verið fyrir nefndina og þetta starf er þegar hafið. Það er ljóst að á næstu vikum verður að meta það og vega hvernig unnt er að styrkja efnahags- og atvinnulífið með því að draga enn frekar saman hjá ríkinu. Ég tel nauðsynlegt að gera öllum ljóst að frv. til fjárlaga getur jafnt tekið lækkunum sem hækkunum í meðförum þingsins. Aðstæður og framvinda atvinnumála og tilraunir ríkisstjórnarinnar til þess að ná sáttum um aðgerðir til að hamla gegn atvinnuleysi geta leitt til þess að endurskoða þurfi einstaka þætti í fjárlagafrv. fyrir árið 1993.
    Að vísu benti hv. 14. þm. Reykv. á að það væri daufleg vist á fundum fjárln. þessa dagana. Vissulega er það daufleg vist þegar takast þarf á við erfið viðfangsefnið. En ég vil benda hv. þm. á það að í byggðamálum höfum við lagt inn á nýjar leiðir. Við leggjum aukna áherslu á það í byggðamálum að færa verkefnin og viðfangsefnin á sviði atvinnulífsins og atvinnumála út í héruðin, út í landshlutana og merki þess má sjá í þessari viku þegar opnað verður nýtt útibú Byggðastofnunar á Egilsstöðum.
    Það er rík ástæða til að fagna þeim árangri sem náðst hefur í að hemja ríkisútgjöldin eins og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir við þessa umræðu. Samt sem áður eru ýmis svið ríkisrekstrarins sem hafa þanist út, m.a. vegna kröfu um aukna þjónustu og þátt ríkisvaldsins í öllum verkefnum meira og minna. Þar má að sjálfsögðu nefna heilbrigðismálin og hið unga ráðuneyti umhverfismála sem sýnir hversu mikill þrýstingur er á um að ríkið taki þátt í hinum margvíslegu verkefnum.
    Umhverfismálin eru vissulega forgangsverkefni fyrir okkur Íslendinga svo mikið sem við eigum undir því að þess sé gætt að verja bæði hafið og umhverfið allt við landið. Við verðum samt sem áður að gæta þess að ætla ekki ríkisvaldinu að fara með of mikinn hluta þess starfs sem snýr að umhverfismálum. Í eðli sínu eru umhverfismál og eiga að vera viðfangsefni sveitarstjórna og héraðsstjórna á hverju svæði undir eftirliti viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau eru ekki beint verkefni einstaklinga og fyrirtækja. Má þar nefna frárennslismál, förgun úrgangs, skipulagsmál o.s.frv.
    Varðandi heilbrigðismálin og sérfræðiþjónustu lækna er ljóst að gera verður breytingar á því fyrirkomulagi sem samningur við sérfræðinga gerir ráð fyrir og stöðva sjálfvirkan aðgang að sjóðum ríkisins sem sjáanlega á sér stað í því kerfi.
    Útgjöld ríkisins eru áætluð 111 milljarðar árið 1993 og er það nær sama tala og í fjárlögum þessa árs er dregin hefur verið frá sú upphæð sem ætluð er til atvinnuskapandi framkvæmda í vegagerð og í byggingarframkvæmdum. Þeir þættir frv. og þjóðhagsáætlunar, sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni hér, eru í fyrsta lagi að efnahagsstefnan, sem frv. endurspeglar, felur fyrst og fremst í sér ríka áherslu á stöðugleika, stöðguleika til að sporna gegn verulegri hækkun vaxta í skjóli verðbólgu með skelfilegum afleiðingum fyrir einstaklinga jafnt sem fyrirtæki sem skulda mikið.
    Í öðru lagi vil ég nefna að lögð er lína um útgjaldalækkun atvinufyrirtækjanna með lækkun tekjuskatts og stefnt að kerfisbreytingu varðandi aðstöðugjöldin sem að sjálfsögðu varðar sveitarfélögin í landinu, en ríkið verður að hlutast til um að aðstöðugjaldinu verði breytt. Varðandi það er nauðsynlegt að tryggja sveitarfélögunum jafngildan tekjustofn.
    Með frv. er gerð áætlun um frekari breytingar á skattakerfinu sem m.a. felst í breikkun virðisaukaskattstofnsins og afnámi undanþágu þar. Slík stefnumörkun er mjög mikilvæg, enda verður að taka upp skattakerfið ef takast á að koma í veg fyrir misnotkun þess, ekki síst varðandi virðisaukaskattinn.
    Í fjórða lagi vil ég nefna að í frv. er gert ráð fyrir sérstöku framlagi til atvinnuskapandi verkefna í vegagerð að upphæð 1,8 milljarðar kr. eins og ég hef áður minnst á. Þau áform eru mjög mikilvæg og tengjast áætlunum um að stækka atvinnusvæði og sameina sveitarfélögin í landinu. Lykillinn að þeirri stefnu eru bættar samgöngur. Með sama hætti eru framlög til hafnargerðar mikilvægur þáttur í því að efla sjávarútveg og siglingar með ströndinni en vöruflutningar á sjó eru taldir mjög hagkvæmur flutningamáti á lengri leiðum, ekki síst á meðan vegakerfið er jafnveikburða hér og það er í dag. Gert er ráð fyrir í frv. að framlög til uppgjörs skulda við hafnirnar og til framkvæmda verði um 904 millj. kr. með framlagi til Hafnabótasjóðs. Þá er ekki tekið tillit til aukinna tekna Hafnabótasjóðs af sérstöku álagi á vörugjald sem gert er ráð fyrir í frv. að nýjum hafnalögum.
    Það hefur vakið athygli margra að stjórnarandstaðan hefur verið með hálfgerða ólund vegna hins sérstaka átaks við vegargerð til að efla atvinnulífið í landinu. Að vísu hefur heldur dregið úr því eftir að þingmenn urðu þess varir hve vel þeim áformum hefur verið tekið úti um landið.
    Virðulegi forseti. Ég hef í ræðu minni gert að umtalsefni fáeina þætti frv. til fjárlaga fyrir árið 1993. Ég mun geyma mér til 2. og 3. umr. að fjalla um einstaka útgjaldaþætti sem fjárln. á eftir að fara yfir og meta í því ljósi sem blasir við gagnvart stöðu atvinnumála um þessar mundir. Sú stefnumörkun sem felst í frv. á sviði efnahagsmála og ríkisfjármála og sú vandaða vinna sem fjmrh. hefur staðið fyrir við undirbúning þessa frv. er mikilvæg ef okkur á að takast að vinna okkur út úr stöðugum ríkissjóðshalla og skuldasöfnun. Það verða að vera skilaboð héðan frá Alþingi til ráðuneyta og til stofnana að reksturinn haldist innan þess ramma sem fjárlög setja. Það verður öllum að vera ljóst að þegar tekjur standa í stað geta útgjöld ekki aukist.
    Mjög víða í þjóðfélaginu eru blikur á lofti á sviði atvinnumála enda þótt sums staðar sé þar um að ræða tímabundinn vanda. Hættumerkin í atvinnulífinu eru til staðar. Það verður að gæta þess að þeir sem eru verst settir í þjóðfélaginu séu varðir á tímum samdráttar og minnkandi tekna.
    Á atvinnumálunum verður að taka með samstilltu átaki stjórnvalda, vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar. Því ber að fagna ef stjórnarandstaðan er tilbúin til þess að koma að því borði og ég vil fagna sérstaklega yfirlýsingu sem hv. 1. þm. Norðurl. e. gaf í því efni og fagna ég því að framsóknarmenn skuli vera tilbúnir til þess að taka höndum saman við stjórnina. Er það örlítið annar tónn en sá sem birtist í ræðu formanns Framsfl., hv. 7. þm. Reykn., við umræðu um stefnuræðu forsrh.
    Það er alveg ljóst að þær leiðir sem valdar verða við lausn á aðsteðjandi vanda í atvinnumálum skipta að sjálfsögðu miklu máli og þurfa að falla að þeirri stefnumörkun sem fjárlagafrv. boðar þó að einhver breyting þurfi að verða á fjárlagafrv.
    Hugmyndir manna um efnahagsleiðir sem tengjast einhverju sem nefnist gjaldþrotaleið er allfurðuleg. Auðvitað er ekki hægt að sjá svo um að öll fyrirtæki eigi eilífan tilverumöguleika hvernig sem veltist í rekstri þeirra. En hugmyndir manna um að láta reka á reiðanum og fyrirtækin taki hverju sem að höndum ber gengur því miður ekki í okkar þjóðfélagi og vil ég undirstrika það sérstaklega. En það er alveg ljóst að við þurfum að gæta þess vel að afgreiðsla fjárlaga verði mikilvægur þáttur í því að bæta lífskjör á Íslandi til lengri tíma þótt við þurfum að rifa seglin um stund.