Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 17:26:44 (1437)

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það er ekki meining mín að tefja umræðuna um fjárlög fyrir árið 1993 sem neinu nemur. Um þau má vissulega hafa mörg orð. Það er margt gott í þessum fjárlögum en það er líka margt sem má skoða með gagnrýnum augum. Út í þá sálma ætla ég ekki fara að sinni. Ég vil hins vegar segja að gefnu tilefni þar sem hér hefur örlítið verið minnst á rammafjárlög að ég get ekki litið á fjárlög undanfarinna ára sem rammafjárlög en tek heils hugar undir það að þannig eiga fjárlög hins íslenska ríkis auðvitað að vera. Það eiga að vera rammafjárlög þar sem menn þurfa þá að koma til þingsins til að sækja um heimildir umfram gildandi fjárlög til þess að standa undir auknum útgjöldum en ekki eins og það hefur verið fram til þessa að menn koma eftir á með fjáraukalög og þingmenn eru nánast múlbundnir og geta ekkert annað gert en samþykkja þau fjáraukalög þar sem ákvarðanir hafa þegar verið teknar og jafnvel farið út í framkvæmdir eða hvað sem útgjöldin kölluðu á.
    Það er athyglisvert að í þeim fjáraukalögum sem nú er búið að dreifa hér á þingi er farið fram á tæpa 3 milljarða kr. þar sem farið hefur verið fram úr heimildum fjárlaga. Af þeim tæpu 3 milljörðum kr. eiga alþýðuflokksmenn rúmlega 2 milljarða kr. Ég ætla ekki að leggja neitt frekar út af þessu en þetta vakti engu að síður athygli mína.
    Það sem kallaði mig upp í ræðustól var það að ég vildi gjarnan fá skýringar á einum lið í frv. Ég ætla annars að geyma mér almenna umræðu um frv. til 2. umr. Það er liðurinn 02-989 sem er Ýmis íþróttamál. Á fjárlögum fyrir árið 1992 voru 81,2 millj. kr. undir þessum lið, Ýmis íþróttamál. Af þeirri upphæð voru þá 11,9 millj. kr. ætlaðar Skáksambandi Íslands og stórmeisturum í skák. Í fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir eru 73,4 millj. kr. á þessum lið, en miðað við óbreytta fjárveitingu til rekstrar Skáksambands Íslands eru ætlaðar 18,3 millj. kr. til skákstarfsemi í frv., hækkun frá 11,9 millj. í 18,3 millj. kr. sem er sennilega á bilinu 60 til 70% hækkun. Þessu vil ég í sjálfu sér fagna og vildi sannarlega að sama mætti segja um framlög til íþróttahreyfingarinnar í heild. En því er því miður ekki að fagna. Til íþróttastarfsemi eru ætlaðar 56,7 millj. kr. í frv. sem er lækkun upp á 9,7 millj. kr. eða frá 66,4 millj. niður í 56,7 millj. kr. sem er sennilega 15--20% niðurskurður.
    Nú er frv. lagt þannig fram ólíkt því sem verið hefur áður að aðeins er nefnd raun ein tala en í frv. fram til þessa hefur þessi liður verið brotinn upp og upphæðum skipt niður á hina ýmsu liði. Það kemur ekki fram núna. Nú er ekki hægt að lesa út úr þessu t.d. hvað Íþróttasamband Íslands fær mikla fjárveitingu. Fyrir dyrum stendur ársþing þeirra, eftir viku að ég hygg, og í fjárhagsáætlunum þurfa þeir að gera ráð fyrir framlagi ríkisins sem þeir vita ekki hvað verður hátt en er auðvitað miðað við fyrri reynslu og umsóknir. Þetta kemur ekki lengur fram í frv. né heldur allir aðrir liðir sem hafa verið, t.d. Ólympíunefnd Íslands, Ólympíunefnd fatlaðra, íþróttamál fatlaðra, íþróttastarfsemi almennt, íþróttafélög styrkir, Íþróttamiðstöð Íslands, glíma, Skáksamband Íslands, Launasjóður stórmeistara í skák, Skákskóli Íslands, Bridgesamband Íslands og ýmis framlög til íþróttamála. Ekkert af þessu kemur lengur fram. Það er aðeins ein tala og óskipt.
    Nú gegni ég þeirri stöðu að vera formaður íþróttanefndar ríkisins. Það er komið að því hjá okkur að við þurfum að fara að veita úr Íþróttasjóði. Til þess að átta okkur á því hvað er í Íþróttasjóði höfum við vitanlega beðið eftir fjárlagafrv. en þar er ekki nokkur stafur um Íþróttasjóð. Ég vil því spyrja ráðherra hvort hann hafi tök á því að brjóta þessa tölu upp og upplýsa þingheim um það hvað er ætlað til hinna ýmsu þátta sem ég fór yfir áðan.
    Þess má geta í framhjáhlaupi að íþróttanefnd ríkisins veitti styrki til 51 aðila á síðasta ári þó að Íþróttasjóðurinn væri ekki stærri en 16 millj. kr. Auðvitað eru þetta ekki háar upphæðir en þær komu sér engu að síður vel fyrir þá aðila sem styrkina fengu. Spurningin er því: Hvernig á að vinna úr þessum málum eins og þau koma fram í fjárlagafrv.? Fyrir hvað stendur talan sem þar er? Þá er ekki úr vegi að spyrja úr því að hér er formaður fjárln. og fjárln. hefur verið að birta auglýsingu í blöðum um viðtalstíma. Hér er ég með eina slíka auglýsingu fyrir framan mig þar sem segir m.a.
    ,,Fjárlaganefnd Alþingis veitir nú, eins og undanfarin ár, viðtöku erindum frá stofnunum, félögum, samtökum og einstaklingum er varða fjárlög ársins 1993. Fjárlaganefnd gefur þeim aðilum sem vilja fylgja erindum sínum eftir með viðræðum við nefndina kost á því að eiga fundi á tilteknum tímum.``
    Þá er spurningin: Ætlar fjárln. að útdeila þeim ótilgreindu fjárhæðum sem nefndar eru undir liðum eins og íþróttamál og æskulýðsmál án samráðs við fagráðuneyti eða til þess kjörnar nefndir svo sem íþróttanefnd ríkisins? Ég vil minna á það að á síðasta ári gerðist það að fjárln. fór inn á verksvið Íþróttasjóðs og skipti þar upp upphæðum sem íþróttanefnd ríkisins og Íþróttasjóður áttu að skipta upp. Það er auðvitað forkastanlegt en engu að síður staðreynd að svo var gert.
    Á þessu ári liggja fyrir umsóknir hjá íþróttanefnd um styrki úr Íþróttasjóði. 58 umsóknir hafa borist að upphæð yfir 300 millj. kr. Ég bið því um að við getum fengið sem allra fyrst upplýsingar um það hver okkar staða er í raun og veru.
    Hæstv. forseti. Ég er ekki viss um að fjmrh. hafi þessar upplýsingar sem ég er hér að biðja um en ég óska eftir því að fá þær sem allra fyrst hvort sem hægt verður að fá þær beint úr ræðustól eða eftir öðrum leiðum. Það er kannski ekki aðalatriðið hvernig heldur hvenær þær koma og þær þurfa að koma sem allra fyrst.