Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 17:40:28 (1441)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá tek ég undir hvert orð sem hv. 5. þm. Reykv. sagði um gildi íþrótta. Hitt er nokkurt áhyggjuefni að það er orðinn fjárhagslegur baggi á fjölskyldum að börnin fái tækifæri til að stunda íþróttir. Þar er um að ræða fjármuni sem skipta verulegu máli og ég tala nú ekki um ef í hlut eiga einstæðir foreldrar. Ég leyfi mér að fullyrða að það er ekki óalgengt að það kosti 15 þús. kr. fyrir lítið barn að vera í íþróttafélagi, í fótbolta eða handbolta eða einhverju slíku yfir veturinn. Þetta eru fjármunir sem um munar ef fólk á fleiri en eitt og fleiri en tvö börn.
    Til þess að okkar ágætu tilheyrendur viti um hvað ég er að tala varðandi lottópeninga, þá lét ég athuga hvað komið hefði í hlut íþróttahreyfingarinnar fyrstu fjögur árin sem Lottóið starfaði. Það munu hafa verið um 140 millj. Þetta eru því auðvitað umtalsverðir peningar. Ég er ekki þar með að telja þá eftir nema síður sé og ég vil leggja á það áherslu að ég tel að það verði að sjá svo til, og þá er ég sammála hv. 5. þm. Reykv., að það þurfi ekki að vera fjárhagslegur baggi á barnafjölskyldum að börnin stundi íþróttir sem er sjálfsögð hollusta og uppeldisatriði sem ekkert okkar hefði viljað vera án.