Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 18:29:24 (1444)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þótt lánsfjárlagafrv. sé ekki til umræðu er það rétt sem kemur fram hjá hv. þm. að í 5. gr. lánsfjárlagafrv. er heimild efnislega eins og hv. þm. lýsti. Reyndar var einnig heimild í lánsfjárlögum yfirstandandi árs. Þetta eru heimildargreinar sem verða notaðar eingöngu ef ástæða þykir til. Við erum í viðbragðsstöðu. Við vonumst satt að segja til þess að til tíðinda dragi. Ég ætla þó ekki að vekja mönnum meiri vonir en ástæða er til þótt ekki væri nema vegna þess að þegar ég skrifaði undir Atlantsál-samninginn fyrst, þá sem iðnrh., 4. júlí 1988, var verð á áli meira en helmingi hærra en það er í dag.
    Varðandi staðsetningu álversins skal ég koma þessum skilaboðum til skila en ég hygg að þetta sé

samningsatriði á milli aðila. Það er athyglisvert að sú rödd kemur úr Alþb. að gott sé að setja niður álver þótt staðsetningin sé kannski ekki með sama hætti og stundum hefur verið rætt um áður.