Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 18:31:00 (1445)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna að lengja þessa umræðu ekki mjög mikið. Hún hefur, eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh., farið fram með nokkurri friðsemd og ég vona að ég gerist ekki neinn óróamaður í þessum orðum mínum. Friðsemdin stafar auðvitað af því að stjórnarandstaðan viðurkennir það í umræðunni að við mikla erfiðleika er að glíma í íslensku þjóðlífi. Það eru erfiðleikar í atvinnulífinu og atvinnuleysið er orðið svo alvarlegt vandamál að allir verða að takast á við að leita lausnar á því. Eini aðilinn sem hingað til hefur lítið kært sig um að leita lausna í því efni er auðvitað hæstv. ríkisstjórn. Það er þess vegna gott til þess að vita sem hæstv. fjmrh. sagði í lokaorðum sínum að mikilvægt væri að allir aðilar hefðu skilning á þeim vanda sem við er að glíma og standi saman um að leysa hann. Það er þá vonandi að hæstv. ríkisstjórn sé komin í þann hóp og átti sig á því.
    Ég vil í fyrsta lagi þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann veitti. Það eru aðeins nokkrar athugasemdir, sem hann gerði við ræðu mína, sem ég vil fá að gera að umtalsefni. Hann nefndi m.a. að ég hefði sagt að frv. til fjárlaga fyrir næsta ár væri ótraust og miklir óvissuþættir í því, ekki síður en stundum áður. Hæstv. fjmrh. taldi frv. vera styrkara nú og ýmsum óvissuþáttum hefði verið eytt eða þeim hafði a.m.k. fækkað. En það sem stendur eftir er að tekjuhliðin er algjörlega í uppnámi og það viðurkennir hæstv. ráðherra sjálfur. Það er svo margt óljóst varðandi ákvarðanatöku um skattheimtu, um það hvernig standa eigi að breytingum á virðisaukaskatti sem er ekki minna en 40% af heildartekjum ríkissjóðs á næsta ári. Það hljóta því að vera fleiri óvissuþættir í þessu frv. en oft áður. Það er fyrst og fremst það sem ég setti fram í minni ræðu og ítrekaði að ég efaðist um tilgang þess í raun að fara í ítarlega umræðu um frv. að öðru leyti vegna þess að svona væri háttað.
    Hæstv. ráðherra nefndi að þetta væri líklega ekki í fyrsta skiptið sem frv. væri lagt fram með þeim hætti að tekjuhliðin væri ekki að fullu frágengin. Það kann út af fyrir sig að vera rétt að stundum hafi menn átt eftir að leggja fram frv. til staðfestingar á ýmsum smærri sköttum. Ég nefni t.d. gamlan kunningja, skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem gott dæmi um að menn hafa þurft að taka mál upp samhliða afgreiðslu fjárlaga ár eftir ár, við sérstakan fögnuð hæstv. núv. fjmrh. þegar hann var óbreyttur þingmaður, ef ég man rétt, þó það kvæði við svolítið annan tón þegar hann mælti fyrir þessum skatti á síðasta ári. ( ÓÞÞ: Honum mæltist mjög vel.) Ég hygg að óvissan nú sé enn þá meiri en áður og endurtek þá skoðun mína.
    Hæstv. ráðherra upplýsti að biðlistar á sjúkrahúsunum hefðu styst en ekki lengst. Ég vona að þetta séu réttar upplýsingar og rengi ekki úttekt landlæknis á þessu máli en það sem ég vitnaði þó til í máli mínu áðan voru fréttir frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þar sem það er skýrt tekið fram að biðlistar á bæklunardeild hafi lengst nú í u.þ.b. ár. Ég man eftir því fyrir tveimur eða þremur árum voru biðlistar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hvað þessar aðgerðir varðaði styttri en t.d. á Ríkisspítölunum. Ég gæti trúað að biðtíminn hafi verið u.þ.b. tveir eða þrír mánuðir. Það er vissulega áhyggjuefni ef svo er komið að hér sé orðin árs bið eða meira, ekki síst hvað varðar bæklunaraðgerðir vegna þess að þeir einstaklingar sem bíða eftir slíkum aðgerðum eru auðvitað í mörgum tilfellum óvinnufærir. Þar er vinnuafl sem ekki nýtist og það sem verra er, þeir eru líka oft á tíðum öryrkjar og þiggja greiðslur frá Tryggingastofnuninni. Það þýðir auðvitað viðbótarútgjöld sem væri hægt að losna við ef hægt væri að gera þessar aðgerðir þegar þeirra er þörf.
    Ég áskil mér rétt til að skoða þetta mál nánar. Mér er það ljóst að t.d. hjartaaðgerðum hefur verið flýtt með sérstöku samkomulagi milli Ríkisspítalanna og Tryggingastofnunar ríkisins, að sjálfsögðu með samþykki og að tilhlutan hæstv. heilbrrh. og vafalaust hefur hæstv. fjmrh. komið eitthvað að því samkomulagi líka. Því ber að fagna. Ég tel að þar hafi verið stigið skynsamlegt skref og sýnir að okkar heilbrigðisþjónusta getur tekist á við hin flóknustu verkefni og getur leyst þau bæði fljótt og vel. Ég er viss um að í því er fólginn sparnaður til lengri tíma litið. Það er kannski meira að segja beinn sparnaður þá þegar af því að aðgerðirnar eru ódýrari hér heima en ef senda þarf sjúklingana til útlanda eins og gert er í ýmsum tilfellum. Þannig held ég að hægt sé að leita leiða fyrir heilbrigðisþjónustuna og finna leiðir sem eru ódýrari og hagkvæmari en sú niðurskurðar- og sparnaðarstefna sem þó hefur verið fylgt nú á þessu ári.
    Hæstv. ráðherra gerði einnig athugasemdir við ummæli mín um gjaldþrotastefnu hæstv. ríkisstjórnar, aðgerðaleysi hennar í atvinnumálum. Mér fannst hann taka undir sumt af því sem ég var að tala um í minni ræðu. Ég býst ekki við því að neinn stjórnmálaflokkur sé beinlínis með það á stefnuskrá sinni að gera öll fyrirtæki gjaldþrota. Því miður hefur það hins vegar reynst stefna núv. hæstv. ríkisstjórnar. Það hefur orðið stefna hennar í raun vegna aðgerðaleysisins og það voru ekki aðeins mín orð, það voru orð forsvarsmanna úr atvinnulífinu að það væri stefna ríkisstjórnarinnar. Lýst var sérstökum áhyggjum eftir fund sem þessir aðilar áttu með hæstv. forsrh. Það virtist svo sem ríkisstjórnin hafi gert gjaldþrotaleiðina að stefnu sinni. Ég held ég muni þetta nánast orðrétt. Það er auðvitað hægt að fletta þessu upp af því það kom í blaðaviðtölum og fjölmiðlum frá þessum ágætu forsvarsmönnum þegar þeir gengu af fundi hæstv. forsrh. og lýstu vonbrigðum sínum og áhyggjum vegna þess að þetta virtist vera orðin stefna hæstv. ríkisstjórnar.

    Vissulega er það rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, og er það nákvæmlega það sama og ég sagði í minni ræðu, að gjaldþrot bitna auðvitað á skattgreiðendum, gjaldþrot eru engin allsherjarlausn. Vandamálin gufa ekki þar með upp. Við sitjum auðvitað uppi með tapið, skattgreiðendur, gegnum skuldir við hið opinbera og ýmsa sjóði, sem ríkið stendur á bak við, og sparifjáreigendur gegnum bankana og lántakendur með hærri vöxtum af því að bankarnir þurfa að auka sinn vaxtamun til að mæta því tapi sem þeir verða fyrir í gjaldþrotunum. Og svo, eins og ég nefndi áðan, verða einstaklingar, bæði einstaklingar úr atvinnulífinu, verktakar og þjónustuaðilar fyrir miklum áföllum þegar svona gjaldþrotahrina ríður yfir. Mér virðist við hæstv. fjmrh. vera nokkuð sammála um að þetta er óviðunandi ástand sem verður að bregðast við.
    Hæstv. ráðherra taldi að ég hefði gefið merka yfirlýsingu varðandi endurskoðun á skattamálum. Ég ítreka það sem ég sagði um það mál og lesa það aftur upp, með leyfi forseta. Ég sagði:
    ,,Við verðum að endurskoða skattastefnuna og leita leiða til þess að létta byrðum af atvinnulífinu en gæta þess jafnframt að sú tilfærsla á sköttum lendi fyrst og fremst á herðum þeirra sem hafa nægjanlega breið bök til að bera. Ég veit að þetta verður ekki auðvelt verk en í það verður að fara.``
    Ég endurtek þetta hér með og undirstrika það. Þetta eru ekki ný tíðindi. Þetta er bara staðreynd og nauðsynlegt að takast á við það til að mæta þeim vanda sem steðjar að atvinnulífinu. Ég gerði á öðrum stað í ræðu minni grein fyrir því nánar hvernig ég sæi þetta geta gerst og til hvaða ráða væri helst að grípa og ég ætla ekki að endurtaka það hér og nú tímans vegna, enda ekki ástæða til. ( Gripið fram í: Það væri best að ríkisstjórnin færi frá fyrst.) Verði það svo að ríkisstjórninni takist ekki að skilja ástandið eins og það er nú held ég að væri best að hún færi frá sem allra fyrst. Ég tek undir það sem er kallað framan úr sal. Kannski eru þeir að vitkast og taka öðruvísi á málum en hingað til.
    Þá eru aðeins örfá orð um vextina sem ég gerði að umtalsefni og reyndar ekki í fyrsta skipti. Ég gerði það við fjárlagaumræðuna fyrir ári. Þá lýsti ég því yfir að ég teldi að sú vaxtahækkun sem hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir í upphafi ferils síns hafi verið röng og ég geri það aftur hér, jafnvel þótt hæstv. fjmrh. telji það ótrúlega kokhreysti, ef ég náði því rétt niður eftir honum, að viðhafa slík ummæli hafandi setið í fyrrv. ríkisstjórn.
    Mig langar að segja um þetta örfá orð í viðbót. Ég tel að sú vaxtahækkun sem þarna var gripið til hafi verið allt of mikil. Ég vil segja það við hæstv. fjmrh. --- ég held ég hafi nefnt það í fyrra líka, þegar við ræddum þetta mál eða hvort það var í umræðunum um bandorminn svokallaða eða í einhverju öðru tilviki þegar efnahagsmál voru til umræðu --- að e.t.v. hafi staðan verið sú að nauðsynlegt hafi verið að hnika eitthvað til vöxtum. Ég ætla alls ekki að þvertaka fyrir það. Kannski hefði verið skynsamlegra að gera eitthvað í líkingu við það sem Svíarnir voru að gera og hæstv. ráðherra lýsti áðan þegar þeir til mjög skamms tíma --- gott ef það var ekki einn dag eða einn sólarhring, hækkuðu vexti verulega, allt upp í mörg hundruð prósent. Það er auðvitað hægt að gera það til þess að koma í veg fyrir einhverja spákaupmennsku sem gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér. Kannski voru það slík viðbrögð sem ríkisstjórnin hefði átt að beita sér fyrir. Ég er ekki svo mikill hagspekingur að ég þori að leggja á það dóm hvort heppilegt sé að grípa til verulegrar vaxtahækkunar um mjög skamman tíma. En að skilja við ástandið eins og raun ber vitni, að hækka allt vaxtastig í landinu um tugi prósenta með ákaflega litlum árangri fyrir sparifjáreigendur og alvarlegum afleiðingum fyrir atvinnulífið er afleitt. Ef hæstv. fjmrh. skoðar það hverjar hafi orðið breytingar á hinum frjálsa sparnaði í landinu þá munar þar ekki stórum upphæðum. Ég held ég muni rétt að frjáls sparnaður á árinu 1990 hafi aukist um 18 milljarða og hafi farið í 20 milljarða kr. á síðasta ári. Þá er það auðvitað nokkur lagfæring en ekki stórkostleg breyting. En hins vegar hefur hinn frjálsi sparnaður samkvæmt upplýsingum í fjárlagafrv. lækkað aftur mjög verulega á þessu ári. Mig minnir að áætlun segi að hann stefni í 14 milljarða kr. Ég er því miður ekki með þetta með mér í ræðupúltinu en þessu er auðvelt að slá upp í greinargerð með fjárlagafrv. þar sem það kemur fram.
    Virðulegi forseti. Ég lofaði að lengja þessa umræðu ekki mikið en eitt atriði langar mig að nefna í viðbót. Það er varðandi vegagerðina og þær fjárveitingar sem nú á að verja til að auka vegaframkvæmdir og styrkja atvinnulífið. Mér er auðvitað ljóst, ekki síður en hæstv. fjmrh., að lántökur þarf að endurgreiða og það er sama hvað við hefðum gert ef ríkisstjórnin hefði, eins og ég nefndi í minni ræðu og lagði til, lagt eitthvað af þessum fjármunum til að viðhalda eldra húsnæði í opinberri eigu með lántökum hefðum við auðvitað á einhverju stigi orðið að greiða þau lán til baka og væntanlega með hærri sköttum ef ekki hefði tekist að lækka önnur útgjöld í staðinn. Ég hafnaði því ekki að þessi endurgreiðsla ætti sér stað af mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar. Ég lýsti aðeins áhyggjum mínum af því það kynni að skapa ný vandamál á þeim tíma þegar að endurgreiðslunni kæmi varðandi þessar sömu framkvæmdir. Ég held það væri ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því hvað ríkisstjórnin hefur hugsað sér varðandi þessar endurgreiðslur. E.t.v. hefur það komið fram. Ég man ekki hvort menn hafa talað um ákveðinn lánstíma og hvort menn tala um endurgreiðslu á ákveðnu árabili strax að loknu þessu þriggja ára tímabili þegar verja á viðbótarfjármunum í atvinnuskapandi framkvæmdir eða hvort það á að taka enn lengri tíma og dreifast t.d. á 10 ár. Þá mundi það auðvitað vera dálítið annað viðhorf. Það er seinni tíma ákvörðun eða getur verið það. Ég er ekki að krefja hæstv. ráðherra um svar við þessu hér og nú, það getur komið fram í fjárlaganefndarvinnunni og til umræðu aftur síðar.
    Ég læt þá þessum athugasemdum mínum lokið, virðulegi forseti, en vildi aðeins árétta þetta í framhaldi af þeim athugasemdum sem hæstv. fjmrh. gerði við ræðu mína áðan.