Fjárlög 1993

35. fundur
Þriðjudaginn 20. október 1992, kl. 18:49:41 (1448)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. að það er kannski ástæðulaust að karpa mikið um þessa þætti þegar rætt er um fjárlagafrv. Ég get þó ekki annað en látið það koma fram til viðbótar að vextir hafa lækkað verulega frá því á sama tímabili í fyrra. Ég er með tölur fyrir framan mig sem til að mynda ná til nafnvaxta útlána. Það eru forvextir víxla sem voru 20% á tímabilinu ágúst til október 1991 en eru 11,6% núna. Á almennum skuldabréfum voru vextir 20,9% í fyrra en 12,3% núna. Þetta eru að vísu óverðtryggðir vextir en það er alveg ljóst að um verulega vaxtalækkun er að ræða sem auðvitað skýrir líka minni sparnað af því að inni í sparnaðinum eru auðvitað reiknaðir vextirnir eins og gamall og góður bankamaður veit. Ég veit að hv. þm. þekkir vel til þeirra mála.