Umboðssöluviðskipti

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 13:41:40 (1452)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um umboðssöluviðskipti sem er birt á þskj. l45. Þetta frv. er flutt í tengslum við frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið. Tilgangur þess er að samræma íslenskan rétt ráðstilskipun Evrópubandalagsins frá 18. des. 1986 um samræmingu á lögum aðildarríkja Evrópubandalagsins er varða sjálfstætt starfandi umboðssölumenn.
    Ríki Evrópubandalagsins töldu nauðsynlegt að samræma löggjöf ríkjanna um þetta efni einkum vegna hins alþjóðlega eðlis starfa umboðssölumanna í milliríkjaviðskiptum. Þeir stuðla að viðskiptum milli landa og gildir það að sjálfsögðu einnig um umboðssölumenn hér á landi.
    Það er engin sérlöggjöf til á Íslandi um þetta efni þótt segja megi að lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7 frá árinu 1936, taki á vissum atriðum varðandi umboð. Að þessu frátöldu má telja þetta frv. til nýmæla í íslenskri löggjöf.
    Ég vil benda á að í þessu lagafrv. er það frávik frá tilskipun ráðs Evrópubandalagsins að ákvæði frv. ná ekki bara til sölu á vörum heldur einnig til sölu á þjónustu. Oft er hér um samslungin svið viðskipta að ræða og frjáls viðskipti á báðum sviðum eru meðal grundvallarreglna hins fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæðis. Þá er rétt að benda á að í vaxandi mæli er oft erfitt að skilja að viðskipti með þjónustu frá viðskiptum með vörur.
    Í þessu frv. er út frá því gengið að frv. geti öðlast gildi sem lög hinn 1. jan. 1993 án tillits til gildistöku EES-samningsins þar sem löggjöf um þetta efni er talin æskileg án tillits til þessa samnings og þess hvort hann hefur þá verið staðfestur. Ákvæði frv. mundu ná til nýrra umboðssölusamninga frá 1. jan. á næsta ári að telja en fram til 1. jan. 1994 yrði ákvæði um eldri samninga breytt til samræmis við þau. Það má ætla að samræmd lagaákvæði treysti á ýmsan hátt hagsmuni umboðssölumanna hér á landi og viðskiptamanna þeirra, en umboðssölumenn starfa sem í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins oftast fyrir erlenda umbjóðendur. Er enda oft undir hælinn lagt að gerðir hafi verið nægilega skýrir samningar á milli aðila um þessi efni.
    Ég vík þá að nokkrum atriðum frv. og bendi á að í I. kafla laganna er fjallað um gildissvið og skilgreiningar hugtaka. Þar segir m.a. að lögin skuli gilda um viðskipti í umboðssölu. Umboðssölumaður er hér skilgreindur sem sjálfstætt starfandi milliliður sem hefur varanlega heimild til að semja um kaup eða sölu á vörum eða þjónustu fyrir hönd annars aðila, umbjóðanda, samkvæmt samningi þeirra í milli.
    Í II. kafla frv. er fjallað um réttindi og skyldur í umboðssöluviðskiptum. Skulu bæði umboðssölumaður og umbjóðandi koma fram af skyldurækni og heiðarleika gagnvart hinum aðilanum og er þetta síðan nánar útfært. Ákvæði þessa kafla eru ófrávíkjanleg.
    Í III. kafla frv. er fjallað um þóknun m.a. hafi ekki verið um hana samið milli aðila.
    Í 7.--12. gr. frv. er fjallað sérstaklega um þóknun í formi umboðslauna. Er þar tekið á ýmsum efnisatriðum og má ætla að það sé ekki síst í þágu umboðssölumanns, yfirleitt hins íslenska umboðssölumanns, að kveðið sé skýrt á um umboðslaun, m.a. um gjaldkræfni þeirra og greiðslur.
    Þá má benda sérstaklega á að samkvæmt 12. gr. frv. getur umboðssölumaður krafist þess að fá allar upplýsingar vegna viðskipta sem umbjóðandinn býr yfir til að sannreyna að umboðslaun séu rétt reiknuð. Það má nefna að ekki er unnt að víkja frá þessu ákvæði með samningi aðila.
    í IV. kafla frv. er svo fjallað um lok og slit umboðssölusamninga. Er þar m.a. vikið að uppsagnarfresti hafi ekki verið um hann samið milli aðila, uppsögn umboðssölusamnings án uppsagnarfrests vegna vanefnda, greiðslu vegna samningsslita og skaðabótakröfur.
    Um þessi atriði vil ég vísa, virðulegi forseti, nánar til frv. og greinargerðarinnar sem því fylgir.
    Ég legg að lokum til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.